Einhver verri og óheppnari en Ragnar Þór

rþp

 Góður maður verður fyrir óljósum ásökunum um kynferðisbrot gegn barni.

  • Útilokað reynist að fá upplýsingar um það hvaðan ásökunin kemur eða hvað nákvæmlega hann er sakaður um.
  • Maðurinn fer sjálfur fram á lögreglurannsókn en í stað þess að fagfólk sé látið um málið, sætir hann afar einkennilegri „rannsókn“ á vegum yfirmanna sinna.
  • Löggunni er neitað um upplýsingar og í stað þess að kalla yfirmennina til yfirheyrslu um það hvað hafi orðið um gögnin, hringir löggan vælandi í þolandann og fær hughreystingu til að gera aðra tilraun til að fara náðarsamlegast fram á upplýsingar. Lætur svo ekkert meira í sér heyra.
  • Æðsti yfirmaður þolandans harmar það að hann sé ósáttur við miðaldavinnubrögð sem ég efast ekki um að mannréttindadómstóll myndi fordæma.
  • Maðurinn sér þá leið vænsta í stöðunni að segja alþjóð söguna alla, enda ekki við öðru að búast en að ósönn og rætin afbrigði af henni grasseri þegar svo margir hafa fengið veður af áburðinum.

Viðbrögð lesenda eru á einn veg; fólk er orðlaust, hneykslað og fullt samúðar með þolanda rangra sakargifta og vondra vinnubragða yfirmanna og lögreglu. Það er þó óvíst að sama fólk hefði brugðist eins við ef það hefði heyrt sögunni hvíslað. Margir hafa það prinsipp að trúa alltaf áburði um kynferðisbrot. Ragnar Þór hefur sjálfur haft það prinsipp að leiðarljósi. Margir þeirra sem heyra af svona áburði út undan sér telja útilokað annað en að eitthvað sé hæft í sögunni.

Ragnar Þór Pétursson er vandaður maður og vel liðinn. Og hann er skynsamur. Hann gerði allt rétt. Krafðist sjálfur rannsóknar og reyndi að opna málið frekar en að svæfa það. Og þar sem hann hefur ekkert að skammast sín fyrir, og er óhræddur við skítseiðið sem kom sögunni af stað, getur hann opinberað málið.

Breyskar manneskjur verða líka fyrir illmælgi

Ragnari Þór tekst að hreinsa sig af þessum ásökunum í augum almennings. Honum tekst það vegna þess að hann er vammlaus, skapstilltur, heiðarlegur, klár, hugrakkur, úthaldsgóður og vinsæll. En hvað gerist þegar breyskari og óskynsamari maður en Ragnar Þór er ranglega ásakaður um barnaníð?

Einhver sem er ekki vammlaus. Einhver sem á sögu sem öðrum finnst benda til þess að hann sé varhugaverður. Einhver sem hefur verið staðinn að fíkniefnanotkun eða orðið það á að  fá „lán“ hjá vinnuveitanda sínum án samþykkis.

Einhver sem er ekki skapstilltur heldur bregst  við ásökunum með því að steyta hnefa og kalla vinnuveitendur sína ónefnum fyrir að hlusta á sögusagnir.

Einhver sem er ekki nema miðlungi heiðarlegur, telur vænlegast að reyna að þagga málið niður, og reynir í örvæntingu sinni að nota sér kunningsskap til þess að koma í veg fyrir að rannsókn verði sett af stað.

Einhver sem er ekki sérlega klár, þekkir ekki réttarstöðu sína, veit ekki hvaða kröfur hann getur gert um vinnubrögð og kann ekki að rökstyðja kröfur sínar um upplýsingar og vandað verklag.

Einhver sem skortir hugrekki, horfist ekki í augu við þær afleiðingar sem svona ásakanir geta haft, lætur þessa meðferð yfir sig ganga athugasemdalaust og vonar að þeir sem fá upplýsingar um áburðinn séu eingöngu strangheiðarlegt fólk sem virðir þagnarskyldu og lætur sakborning njóta vafans.

Einhver sem hefur ekki úthald í ellefumánaða Helvítisvist, gefst upp þegar hann fær ekki svör og hrekst úr starfi niðurbrotinn með viðbjóðinn á bakinu og ónýtt mannorð.

Einhver sem nýtur ekki vinsælda. Utangarðsmaðurinn. Útlendingurinn sem hefur ekki gott tengslanet. Einhver sem er klaufi í samskiptum. Einhver sem skortir persónutöfra. Einhver sem kann ekki að koma fyrir sig orði.

Ragnar Þór Pétursson átti ekki skilið að verða fyrir þessum hremmingum. Engin saklaus manneskja á það skilið. En saklaust fólk sem verður fyrir ærumeiðingum er ekki alltaf jafn góðum mannkostum búið og Ragnar Þór. Og þegar góður maður hrekst úr starfi vegna illgirnislegra lyga, vanhæfra yfirmanna og vanhæfrar lögreglu, hvað haldiði þá að gerist þegar sá sem verður fyrir einhverju svipuðu reynist ekki vera neinn „kórdrengur“?