Í þessum pistli benti Steinunn Ólína á nokkur dæmi um gjafir sem ætti að forðast að gefa börnum. Reyndar eru þetta heppilegar gjafir ef markmiðið er að gera foreldrana brjálaða. En það er fleira sem kemur til greina ef þú vilt vera Trölli sem stal jólunum. Fyrir utan hávaðaleikföng eru eftirtaldar gjafir vel til þess fallnar að eyðileggja jólin og jafnvel drjúgan hluta næsta árs:
Lítil vatnsbyssa. Það er algerlega misheppnað að reyna að ergja einhvern með því að gefa krökkunum vatnsbyssur í júlí en um hávetur getur verið freistandi að prófa þær innandyra. Gefðu litlar vatnsbyssur því þá þurfa börnin að koma inn aftur og aftur til að fylla þær og bera þá inn með sér krapa og drullu í hvert sinn. Laumaðu líka litlum vatnsblöðrum með í jólapakkann. Jafnvel þótt börnin noti þær til leikja utandyra þarf að fylla þær og það er erfitt að gera án þess að allt fari á flot.
Gefðu barninu dýrt merkjadót sem hægt er að bæta fylgihlutum við endalaust. Það bakar foreldrum útgjöld um ókomna tíð því hver vill eiga berrassaða dúkku? Settu með í jólapakkann bækling með myndum af öllu flotta og fokdýra aukadraslinu.
Alvöru bökunardót er líka heppilegt. Níu ára barn getur vel lært að baka köku en það eru litlar líkur á að það þrífi eldhúsið eftir sig.
Ef þú vilt vera grand getur komið til greina að gefa barninu legómódel sem er allt of flókið til þess að það geti sett það saman sjálft. Þannig tryggir maður foreldrunum verkefni sem getur tekið marga klukkutíma. Athugaðu þó að sumt fullorðið fólk hefur gaman af því að raða saman kubbum og sum börn kæra sig kollótt um það hvort hluturinn lítur út eins og á myndinni. Þetta ráð getur því brugðið til beggja vona auk þess að vera dýrt. Annars er alltaf kostur við að gefa annara manna börnum legókubba að þeir gera það illmögulegt að halda barnaherberginu snyrtilegu.
Litlar marglitar perlur eru skemmtilegt dót. Þær fara auðveldlega út um allt og skapa foreldrunum endalaus verkefni við tiltekt.
Baðlitir eru stórkostleg gjöf handa börnum óvina þinna. Börn elska þá, fullorðnir hata þá. Litirnir eru sagðir renna auðveldlega af postulíni og veggflísum en það er hin mesta lygi. Ef þeir ná að þorna þarf að skrúbba þá burt og þeir festast fljótt og vel í fúgunni milli flísanna.
Rétt eins og hægt er að ergja fólk með gjöfum handa börnum, er hægt að ergja það með gjöfum frá börnum. Ef tengdamamma þín fer í taugarnar á þér, skaltu láta börnin þín mála stórt og ljótt málverk handa henni. Ekki litla mynd, ömmum finnst það bara krúttlegt og gaman að hengja upp. Láttu þau mála 2ja fermetra „jólamynd“ og strá glimmeri yfir hana. Ef amma hengir listaverkið ekki upp í stofunni er það vegna þess að hún hatar börnin. Næstu jól mála börnin svo aðra mynd sem er ætluð til að hafa á sama stað í stofunni alla hina dagana.