Mér finnst ég ekki veikbyggð en þótt hendur hans séu ekki stórgerðar nær hann utan um báða úlnliði mína með annarri þeirra. Rennir fingurgómum yfir kviðinn á mér og horfir á mig, mosamjúkum augum. Kyssir eins og á að kyssa. Elskar eins og á að elska. Fullkomið samspil hörku og blíðu, hann les mig rétt og ég finn að hann hefur það í sér, í alvöru. Leysir böndin á silkitoppnum mínum, sem er blágrænn eins og Pegasus. Og Kenndin rís úr djúpi aldanna; þykk, svört og voldug, hellist yfir mig, gagntekur mig.
-Já, hvísla ég þótt hann hefi ekki orðað neina spurningu.
-Ertu viss?
-Já.
Skrattinn steinsofandi í sauðarleggnum uppi við Rauðhóla og bærir ekki á sér. Það er fullkomnað.
Ligg í hálfmóki einhversstaðar milli ljóðs og vímu. „Maður fær ekki allt“ hef ég svo oft sagt. Hvílk della. Maður fær einmitt allt. Stundum meira að segja eitthvað betra en það sem maður biður um. Ég hefði orðið hæst ánægð með Elías en mér datt aldrei í hug að ég fengi Pegasus í staðinn.
-Ég treysti þér Pegasus, segi ég.
-Já, það er greinilegt, svarar hann og brosir kankvíslega eins og hann er vanur. Líklega kemur það mér meira á óvart en honum.
Það er fullkomnað.
Eftir öll þessi ár er það fullkomnað.