Kurteisi

Takk fyrir komuna, sagði Tristan litli þegar þau voru að fara heim í gærkvöld.

Minnir mig á það þegar Keli og Lindita komu með telpurnar sínar í búðina til mín. Emma fékk litla brúðu og þegar ég rétti henni hana sagði hún -segðu takk. Vel uppalin börn fá snemma á tilfinninguna hvenær er viðeigandi að sýna kurteisi, þótt nákvæm útfærsla á reglunni komi ekki alveg strax.

Ég vaknaði ekki fyrr en hálf tólf í dag en nú er ég líka að verða úthvíld. Miriam var rétt í þessu að færa mér kaffibolla. Yndislegt.

Jólakveðja

Innilegustu jólakveðjur til allra landsmanna nær og fjær og þó einkum til dyggra lesenda.

Etið, drekkið og verið glöð og fremjið margar aðrar dauðasyndir um jólin.

Allt með sykri og rjóma

Matur. Meiri matur. Grilljón pakkar og svo fleiri.

Afi og Miriam sitja í sófanum og lesa saman prinsessubókina sem Tara fékk í jólagjöf.
Darri og Walter liggja á hnjánum á gólfinu og leika sér fallega að „brautalestinni“ hans Tristans litla. Tara, sem hefur annars einokað Miriam allt kvöldið leikur sér með þeim og hérna kemur litli stubbur akandi nýja vörubílnum sínum inn í eldhús.

Haukur kemur af vaktinni um miðnætti. Gúllar í sig bæði humarsúpu og kjöti í tilefni dagsins. Tara loksins orðin svöng en hvorugt barnanna kom miklu niður um sexleytið og Haukur sker handa henni væna flís af feitum sauð. Ég þeyti meiri rjóma.

Jól.

Fullkomið

Ég á fullkomið heimili (nema stofuborðið mitt er bilað en Pegasus ætlar að laga það í fyrramálið þvi hann er svo góður lagari) og fullkomin börn (fullorðin + uppkomin = fullkomin?) Við ætlum að halda jól með fjölskyldu Walters, nota heimilið hans og siðina okkar. Ég fór til Walters til að útbúa möndlugrautinn og krydda kjötið, svo allt sé nú nákvæmlega eftir mínu höfði, og þegar ég fór að heiman var all subbulegt jólaföndur í vinnslu. Ég var að vísu búin að segja þeim að ég vildi að allt yrði fullkomið þegar ég kæmi heim og ég vissi að þau myndu taka til og allt það en ég reiknaði samt ekki með því að það yrði eins og ég hefði gert það sjálf.

Fæturnir á mér eru skælandi af þreytu en nú er ég komin í frí og það er svo fínt heima hjá mér að ég tími varla að fara að sofa.

 

Hefði verið svo tilvalin jólagjöf

Pegasus: Ég keypti mér reykvél.

Stutt þögn

Eva: Jahá. Og hvað í ósköpunum ætlar þú svo að gera við reykvél?
Pegasus: Bara. Æ, þú veist maður er kannski bara heima í rólegheitum. Búinn að panta pizzu og svona. Og mér datt í hug að þá gæti verið kósý að hafa svona reyk. Halda áfram að lesa

Blessað frelsið

Mig langar að jóla.

Mig langar að búa til konfekt og baka smákökur. Mig langar að bjóða vinkonum mínum í toddý og piparkökur. Mig langar á jólatónleika og fara með börn í bæinn til að kíkja skraut og jólasveina. Mig langar að búa til jólakort og flottar greniskreytingar. Og eldspýtustokkadagatal handa litlum börnum. Mig langar að strauja jóladúk og þvo gluggana og þrífa eldhússskápana að innan þótt þess þurfi ekki. Ég hef alltaf gert eitthvað af þessu en aldrei eins mikið og ég hefði viljað. Halda áfram að lesa

Smotterí

Dag eftir dag upplifi ég sömu senuna.

Viðskiptavinur: Mig vantar einhverja ægilega sniðuga gjöf.
Nornin: Þá ertu á réttum stað því hér fást eingöngu sniðugir hlutir. Hvað má ég sýna þér? Heillagripi? Galdra? Tarotspil?
Viðskiptavinur: Ég veit það eiginlega ekki, bara eitthvað svona almennt. Það er fyrir vinkonu mína.
Nornin: Gott og vel. Hvað má það kosta?
Viðskiptavinur: Ekkert mikið sko. Þetta á bara að vera algjört smotterí. Halda áfram að lesa