Pegasus: Ég keypti mér reykvél.
Stutt þögn
Eva: Jahá. Og hvað í ósköpunum ætlar þú svo að gera við reykvél?
Pegasus: Bara. Æ, þú veist maður er kannski bara heima í rólegheitum. Búinn að panta pizzu og svona. Og mér datt í hug að þá gæti verið kósý að hafa svona reyk.
Mér varð hugsað til Drengsins sem fyllir æðar mínar af Endorfíni. Hann langar í jarðgangnaborvél en konan hans vill ekki leyfa honum að kaupa hana. Nöldrið í þessum kerlingum alltaf. Og semsagt, Pegasus var kvæntur …
Eva: Walter minn. Langar þig kannski í jarðgangnaborvél?
Pegasus: Jú ég gæti alveg hugsað mér það ef væri nóg pláss til að leggja henni hérna fyrir utan. Annars langar mig meira í skriðdreka.
Ég hefði giskað á að reykvél kostaði milli 50 og 60 þúsund en raunin er sú að hún kostar mun minna en flottir skór og ýmislegt annað stelpudót. Ef ég hefði áttað mig á því að manninum væri alvara með þessa drauma sína um reykvél og vitað að hún væri á viðráðanlegu verði, hefði ég gefið honum hana í jólagjöf. En það er enn einn gallinn á tegundinni að ef þá langar í eitthvað sem kostar minna en milljón, þá eru þeir búnir að kaupa sér það sjálfir áður en maður hefur tilefni til að færa þeim gjöf.
En semsagt, hér er komin hugmynd að gjöf handa stórum strákum. Gefðu ástinni þinni reykvél til að leika sér að. Eða ef þú ætlar að vera grand; skriðdreka.
———————————————
ég ætla að kaupa skriðdreka handa ástinni minni og líka flugvél og baggavél og snjóvél og loftpressu og slípirokk og kandís og peysu..
Gleðileg jól Eva mín, takk fyrir allt og allt!
Posted by: baun | 23.12.2007 | 14:13:55
— — —
Glussatjakkar þykja líka fínir. Ég er búin að lofa mínum að gefa honum aldrei bangsa sem heldur á bleiku hjarta með krúttlegri áletrun, gegn því að hann fari aldrei í Verkfæralagerinn eða Íhluti til að kaupa gjöf handa mér.
Posted by: Eva | 23.12.2007 | 14:18:51
— — —
You got it bad 🙂
Gleðileg jól og farsælt komandi ár. Takk fyrir allt sem liðið er.
Posted by: Guðjón Viðar | 23.12.2007 | 14:20:00
— — —
Ég efast um að minn kall langi í reykvél, en hver veit… góð hugmynd ef svo er. Hann langar samt ekki, og fær aldrei, í bangsa með bleikt hjarta. En hann má alveg kaupa mínar gjafir í verkfærabúð.
Gleðileg jól!
Posted by: Parisardaman | 23.12.2007 | 18:27:08
— — —
Voðalega er ég eitthvað abnormal. Mig langar ekkert í reykvél eða Skriðdreka eða glassatjakk (hvað sem það nú er) eða neitt af því sem er nefnt hér. Og mig langar ekki heldur í bangsa með bleiku hjarta. Nei, þá þigg ég heldur reykvélina, þótt ég átta mig ekki alveg á hvað ég á að gera við hana… Heyrðu, jú, ég gæti notað hana við kvikmyndagerð… Takk fyrir hintið Eva. Reykvél fer á óskalistann fyrir næsta ár. 🙂
Posted by: Þorkell | 24.12.2007 | 0:11:45
— — —
Mmmm… skriðdreki. Loftskip eru samt últimate leikföngin.
Gleðileg jól!
Posted by: Kalli | 24.12.2007 | 4:27:55