Dag eftir dag upplifi ég sömu senuna.
Viðskiptavinur: Mig vantar einhverja ægilega sniðuga gjöf.
Nornin: Þá ertu á réttum stað því hér fást eingöngu sniðugir hlutir. Hvað má ég sýna þér? Heillagripi? Galdra? Tarotspil?
Viðskiptavinur: Ég veit það eiginlega ekki, bara eitthvað svona almennt. Það er fyrir vinkonu mína.
Nornin: Gott og vel. Hvað má það kosta?
Viðskiptavinur: Ekkert mikið sko. Þetta á bara að vera algjört smotterí.
Fyrstu mánuðina brást ég við ósk um smotterí með því að draga fram það ódýrasta sem ég átti. Sumir brostu góðlátlega. Nú veit ég betur og spyr frekar hversu lítið það megi kosta. Það er þá sem flippaðir hlutir fara að gerast. Hugmyndir Íslendinga um smotterí eru nefnilega síður en svo staðlaðar. Í gær kom t.d. kona sem vildi fá smotterí á 200 kr. Í dag kom svipuð týpa, kona á svipuðum aldri, í svipuðum fötum og með svipaða hárgreiðslu. Hún vildi fá smotterí á 2500 kr.
Ætli hugmyndir manna um smotterí byggist á sömu forsendum? Er smotterí ákveðið hlutfall af tímakaupi? Eða heildartekjum? Eða skilgreinir fólk smotterí út frá einhverju allt öðru en fjárhagsstöðu sinni? Hvað eru mörg smotterí í einni stórgjöf?
Mig langar í ís. Hann kostar meira en smotterí sumra og minna en smotterí annarra.
Mér finnst ég eitthvað svo firrt.
————————————————
Hvað ætli séu margir hellingar í glásinni?
Gomma?
Posted by: hildigunnur | 18.12.2007 | 21:15:16
— — —
slatti af slurkum í hellingnum
Posted by: baun | 19.12.2007 | 10:05:33
— — —
Ég ætla að reyna að láta verða af því að koma til þín í búðina á morgun eða hinn. Vona að ég finni eitthvað sniðugt smotterí að kaupa. Er eiginlega bara viss um það : )
Haltu svo bara áfram að hafa það gott Eva mín.
Posted by: Harpa | 19.12.2007 | 20:35:48
— — —
Það eru 10 smotterí í einni góðri gjöf og 10 góðgjafir í einni stórgjöf. Þá eru tíu stórgjafir í einni megagjöf en slíkt fá bara forsetar og annað háttsett fólk (það gerir 100 góðgjafir og 1000 smotterí).
Eitthvað fleira sem þú vilt vita?
Posted by: Þorkell | 19.12.2007 | 21:15:56
— — —
Já þetta smotterí virðist hægt að túlka á marga vegu. Ég varð hugsi um daginn þegar ég sá auglýst Víkingalottóið,en auglýsingin var á þessa leið: “ Hvað færðu mikið blandí poka fyrir 50 milljónir.“ Jamm, það er nú það. Sjálfsagt eitthvað smotterí, það er ekki spurning.
Posted by: Ragna | 19.12.2007 | 23:21:41