Skrýtið

-Myndirðu flokka það sem pervasjón að bíta? spurði Drengurinn sem fyllir æðar mínar af endorfíni.
-Ætli það fari nú ekki eftir samhenginu. Það er tiltölulega saklaust að natra í öxlina á konunni þinni með upplýstu samþykki hennar en ef þú t.d. stundar það að koma aftan að gömlum körlum í Kringlunni og glefsa grimmdarlega í rassinn á þeim, þá ertu að ofbjóða velsæmiskennd annarra og svoleiðis gerir maður ekki. Halda áfram að lesa

Vinur minn næringarfræðingurinn

-Hvort ætti ég að hafa bakaðar kartöflur eða franskar? sagði ég.
-Það fer eftir því hvort þú vilt að börnin þín nái fertugu eða hvort þér finnst þrjátíu og fimm ára alveg nóg, sagði Endorfínstrákurinn og bætti því við að ef hann tæki einhverntíma þá ákvörðun að svipta sig lífi, ætlaði hann að gera það með því að vera í mat hjá mér í 3 vikur. Halda áfram að lesa

Uppfinningamaðurinn kom í heimsókn

Uppfinningamaðurinn kom í heimsókn í dag, með konfekt. Þar með eru báðir vinnuveitendur mínir búnir að gefa mér konfekt á sama sólarhringnum. Ætli sé í gangi samsæri um að fita mig?

Fékk upphringingu frá eldgömlum elskhuga sem bað mig um að lesa fyrir sig próförk. Það kom mér ekki á óvart. Átti von á að hann færi að hafa samband hvað úr hverju. Hef ekki fengið handritið afhent ennþá en hef á tilfinningunni að feli í sér einhverskonar skilaboð. Þótt við eigum ekkert óuppgert. Sumt fólk verður alltaf á einhvern hátt hluti af lífi manns líkt og uppistöðuþáttur í vef. Maður getur skipt út efni, lit og mynstri en allt sem maður spinnur við líf sitt vefst um þessa sömu, fáu þætti sem ráða örlögum manns. Það er tilgangslaust að hafa skoðun á þeim og útilokað að klippa þá frá.

Afsakið

Mér hefur víst orðið þokkalega á í messunni þegar ég skrifaði <a href=“http://reykjavikurdrama.blogspot.com/2005/03/um-stur-tjningarheftingar-lesenda.html#comments“>þessa færslu</a>. Mér fannst eitthvað fyndið við svona öfugmælafærslu þar sem ég hélt því fram einhver mesti orðhákur bloggheima þyrði líkast til ekki að svara mér, kallaði Ástþór Borgþór (sem opinberlega hefur lýst andúð sinni á útgáfunni á Betu Blogg) laumusápuóperufíkil, gerði vammlausustu konu sem ég þekki að laumuperra og hélt því fram að Björn Bjarnason birtist reglulega á tröppunum hjá mér með blóm og súkkulaði.

Þetta var nú bara hugsað sem húmor frá minni hálfu en í dag var mér sagt að einhverjir hefðu tekið þessu alvarlega. Og þótti þetta víst bara ekkert fyndið. Ég hélt reyndar að þeir sem á annað borð lesa þessa klámsíðu mína hefðu áttað sig á því að stundum tala ég ekki af mikilli alvöru og skil ekki að nokkrum geti dottið í hug að manneskja sem skreytir bloggsíðu sína með fjölskyldumyndum og kökuuppskriftum sé nokkuð annað en heiðvirð húsmóðir eða að ég hafi persónulegt samband við dómsmálaráðherra. En jæja, einhverjir tóku þessu víst hátíðlega og sé mér því ekki annað fært en að lýsa allt sem stendur í umræddri færslu ábyrgðarlaust bull og bið hér með alla hlutaðeigandi afsökunar.

Ég held að gagnrýnandinn í mér sé vanstilltur

Borgarleikhúsið er vinur minn. Gaf mér frímiða á Draumleik. Við Spúnkhildur fórum í gær og það var dásamlegt. Svo fékk ég líka pakka og það var líka dásamlegt. Ég er annars að pæla í því hvort ég sé kannski óttalegur hálfviti á sviði leikhúss. Ég er búin að sjá helling í vetur og mér hafa þótt allar þessar sýningar góðar. Misfrábærar að vísu en engin sem ég hef ekki notið. Er ekki eitthvað að ef vantar í mann gagnrýnandann? Eða standa leikhúsin sig bara svona geypilega vel?

Hmmm… ég er allavega ekki í neinum vandræðum með að gagnrýna Arnald. Er sokkin í þá lágkúru að lesa bókina með því hugafari að finna sem mest af hallæri. Venjulega hendi ég bók frá mér ef mér leiðist hún í 3.ja kafla en nú læt ég eymingja Arnald næra í mér illkvittnina. Ég er ekkert spennt yfir sögunni en er orðin rosalega spennt yfir því að sjá hverju honum tekst að klúðra næst. Verst hvað ég á erfitt með að skammast mín fyrir að hugsa svona. Það er náttúrulega ekkert í lagi.

2

Eftirfarandi gullkorn er frá syni mínum Byltingamanninum.

Sko! Til skamms tíma leit út fyrir að Helvíti yrði brátt eini staður veraldarinnar þar sem maður gæti búist við að finna ósnortna náttúru. En nú eru svo margir virkjanasinnar komnir þangað að þeir eru örugglega búnir að virkja hvern einasta hver og hvert einasta eldfjall í Vítii.

Játa áhrifagirni

Ég játa á mig áhrifagirni og fordóma. Mig langaði ekkert sérstaklega að sjá Öxina og jörðina, fór aðallega af því að Haukur hafði áhuga. Ég sé hins vegar ekkert eftir því að hafa farið. Þetta er aldeilis stórfín sýning og legg ég til að þeir gagnrýnendur sem hafa rakkað hana niður og áreiðanlega dregið úr aðsókn, taki dóma sína og troði þeim upp í Þjóðleikhúsið á sér.

Þetta átti að heita lokasýning en þar sem hefð er fyrir aukasýningum og allra síðustu sýningum er ekki útilokað að enn gefist tækifæri. Verði svo hvet ég alla leikhússunnendur til að mæta.