Daylight come and we wan’ go home

Úlnliðirnir á mér eru svo aumir að ég get ekki einu sinni pikkað á lyklaborðið án þess að verkja upp í olnboga, auk þess kvefuð og hef gengið á íbúfeni og norskum brjóstdropum síðustu daga. -Þetta var sjálfsvorkunn vikunnar, þá er það afgreitt.

Plastið er rafmagnað. Fyrstu dagana vorum við líkust stjörnuljósum en svo lagðist Sigrún í eðlisfræðirannsóknir og síðan hefur hún vökvað smiðjugólfið reglulega. Neistaflugið er minna, en þegar sjúkraliðinn mætir með slegið hár, rís það líkt og strákústur upp í loftið þegar hún lyftir böggunum. Halda áfram að lesa

Afturbati?

-Hvernig stafsetur maður Krókháls? spurði Haffi og stakk pennanum í annað munnvikið.

Andartak hélt ég að hann væri að reyna að vera fyndinn en ráðaleysið í svipnum var ekta og hann ER skelfilegur í stafsetningu.
-Eins og það er sagt. Með stóru kái… sagði ég án þess að gera mér almennilega grein fyrir því hverju hann væri að fiska eftir. Halda áfram að lesa

Vöðvarækt

Um síðustu helgi var hægri handleggurinn á mér orðinn eins og á Möggu stera en sá vinstri eins og á Óla Skans. Síðan hef ég snúið sveifinni með vinstri hendinni og er svona hvað úr hverju að verða symmertrisk aftur.

Segi ekki að þetta sé gefandi starf en hvað er eiginlega að fólki sem borgar sig inn í líkamsræktarstöðvar þegar er hægt að ná sama árangri án þess að klæða sig eins og fáviti, vera ofurseldur einhverri hallæris stuð tónlist og fá borgað fyrir það í þokkabót?

Í sveitinni

Ég hélt á varalitnum þegar Sigrún renndi í hlað í morgun, 5 mínútum of snemma og rauk út með ómálaða neðri vör. Reyndar ekki í minipilsi og á hælum því þótt það hefði verið mun huggulegra reikna ég ekki með að körlunum hefði orðið mikið úr verki ef ég hefði flaggað ómótstæðilegi flóðbylgju lærapoka minna og ekki vill maður nú skaða hagsmuni fyrirtækisins. Halda áfram að lesa

Drullusokkar

Pistill Jódu um drullusokka á 340 kr. rifjaði upp fyrir mér smáatvik sem ég var næstum búin að gleyma.

Fyrir rúmu ári var baðið í Starrahólunum stíflað. Ég fann ekki drullusokkinn og Vörður laganna (sem hafði ekki hugkvæmi til að gera neitt í málinu nema gráta) var rambandi á barmi örvæntingar yfir því að þurfa að lykta eins og skítahaugur um alla framtíð. Eftir dauðaleit að drullusokknum fór ég í Nóatún og keypti nýjan (hann var reyndar aðeins dýrari en þessi sem Jóda talar um í sínum pistli, mig minnir að hann hafi kostað 420 kr.) Ég var að flýta mér (enda hafði blessaður lögregluþjónninn ekki komist í sturtu síðan í hádeginu) og spurði konu sem var að raða tannkremstúpum í hillu hvort þau væru ekki með drullusokka. Hún svaraði að bragði; „jújú það er nóg af þeim hér, verslunarstjórinn er að vísu ekki við en þú getur prófað að reyna við Pétur“ og kinkaði í átt að starfsmanni sem var að fylla á frystinn.

Ég fór út með rauðan gúmídrullusokk. Leist ekkert á Pétur en átti auk þess íðilfagran drullusokk með lifur og nýru heima hjá mér. Við fluttum úr Starrahólunum viku síðar og nú á ég lítið notaðan rauðan Nóatúnsdrullusokk en engan af holdi og blóði. Kannski ætti ég að skreppa í Nóatún og athuga hvort Pétur sé genginn út.

Sigrún hefur tekið umkvartanir

Sigrún hefur tekið umkvartanir mínar um skort á áhorfanlegum karlmönnum í vélsmiðjunni alvarlega. Allavega verðum vér kerlingar á Nesjavöllum um helgina, væntanlega í fríða karla flokki.

Ég ætti að vera sofnuð en þar sem heimasætan valdi einmitt þetta kvöld til að leggja drög að nýjum og dramatískum kafla í sápuóperu heimilisins, reikna ég með að verða í tussulegra lagi í fyrramálið. Það var svosem auðvitað. Ojæja, Sigrún sækir mig klukkan 7 svo ég hef klukkutíma til að smyrja á mig hrukkukremi og æfa mig í að vera kókett áður en ég hitti alla þessa dásemdar karlmenn.