Hjálpsamur yfirmaður

Eigandinn setti upp geiflu sem var einhversstaðar miðja vegu milli glotts og kátínubross þegar við hittumst á Nesjavöllum í gær. Kvaðst hafa lesið bloggið mitt og bauðst til að útvega mér nokkur símanúmer.

Ég veit nú ekki alveg hvort maður á að stóla á árangur af því. Eða hvernig hljómar þetta:
-Sæll Gísli/Eiríkur/Helgi, Eva heiti ég. Yfirmaður þinn las á blogginu mínu að ég væri að leita að fallegum hálfvita og gaf mér símanúmerið þitt. Ég var svona að velta fyrir mér hvort þú hefðir áhuga á að mæta í viðtal.

Allt í drasli

Ég ætlaði eiginlega að fagna þessum fyrsta frídegi frá páskum með því að gera ekkert af viti en sé ekki alveg fram á að það gangi upp. Ég hef tekið eftir því að á meðan ég er að heiman vex þvottur í óhreinatauskörfunni og tölvan mín dregur ekki að sér ryk eins og aðrar tölvur, heldur framleiðir hún það. Spurning hvort sé ekki hægt að græða eitthvað á því, stofna rykgerðina ehf.

Þegar Darri var lítill þurfti ég aldrei að ryksuga. Hann var nefnilega alltaf skríðandi í gólfunum og hann átti flíspeysu sem hann var mjög hrifinn af og hún dró að sér öll hundahárin og rykið. Á tímabili stofnaði ég fyrirtæki í kringum hann. Það var fyrirtækið Hárfinnur ehf. Darri var eini starfsmaðurinn og hafði ég töluverðar aukatekjur af því að leigja hann út. Svo kom fulltrúi barnaverndarnefndar í heimsókn og benti mér á að það samræmdist ekki samþykktum EES að láta börn skríða í gólfunum og draga að sér ryk og gæludýrahár í hagnaðarskyni. Fulltrúinn skipaði mér líka að þvo peysuna. Þá grét Hárfinnur og úrsurðaði peysuna ónýta. Síðan hef ég þurft að ryksuga sjálf og það í frítíma mínum. Svona er lífið erfitt.

Fuglasöngur

Mikið er nú dásamlegt að vakna við fuglasöng í stofunni. Sérstaklega eru það þessi háu, hvellu hamingjuóp sem gleðja mig. Ég er að hugsa um að leyfa reykingar inni hjá mér í von um að helvítið fái lungnakrabba.

Eldsnemma að morgni

Klukkuna vantar 20 mínútur í 7 á laugardagsmorgni og ég er á leiðinni á Nesjavelli. Ekki skrýtið að fólk haldi að ég sé galin. Ekki nóg með að ég ætli að eyða laugardeginum, þessum eina í vikunni, við að skrúfa saman hommarör (hvað sem það nú er) heldur ætla ég líka að hætta lífi mínu með því að sitja í bíl með Sigrúnu. Ojæja einn laugardagur Mammoni til heiðurs og hinum fríða flokki karlmanna sem er vistaður þarna uppfrá til yndisauka er víst ekkert óyfirstíganlegt.

Ég er búin að komast að því hvað varð um ostinn minn. Þarf bara að yfirstíga eina hindrun svo ég komist til að sækja hann en það er ekki bara verkefni heldur raunveruleg hindrun. Samkvæmt Brian Tracy er hindrun víst öruggt merki þess að maður sé á vegi velgengninnar. Það er kannski bull í kallinum en ég ætla allavega að hafa það.

Er að bíða eftir henni

Í gær uppgötvaði ég ákveðna fordóma hjá sjálfri mér. Ég á kunningja, sætan strák sem ég vissi ekki betur en að væri algjör drusla. Auk þess er hann alki svo það er engin hætta á að ég verði ástfangin af honum. Hann var þessvegna um hríð ofarlega á lista yfir þá fjölmörgu karlmenn sem ég hafði í hyggju að forfæra en fyrst dróst það sökum anna og svo komst ég að því að hann var ekki nærri jafn vitlaus og hann leit út fyrir að vera. Það varð til þess að ég lagði plön mín um að táldraga hann til hliðar, ég hef það nefnilega fyrir reglu að sofa aldrei hjá neinum sem hefur ekki fallið á greindarprófi. Nema náttúrulega að ég ætli að giftast honum, þá má hann slaga upp í meðalgreind en samt ekki vera klárari en ég. (Enda sjaldan nokkur hætta á því og er ég þó mun vitlausari en ég lít út fyrir að vera) Undantekningin er doktorsnefnan sem hefur aldrei viljað mig, hann er miklu klárari en ég en ég myndi samt alveg giftast honum. Af því ég veit að hann verður góður við konuna sína. Halda áfram að lesa

Passa þig

-Mig vantar leikfélaga, strák til að spila skrabbl og fara með mér í leikhús og á myndlistarsýningar og svoleiðis.
-Varstu ekki búin að finna einhvern?
-Hélt það kannski jú en hann hefur aldrei samband að fyrra bragði. Sennilega hræddur við mig.
-Ég er ekki hræddur við þig.
-Ég veit, afhverju heldurðu að ég sé að hringja?
-Þú ert hinsvegar hrædd við mig.
-Glætan. Nenni bara engu rugli og þú ert ekki jafnoki minn í skrabbli.
-En hvað? Allt er hey í harðindum?
-Þeir fiska sem róa.
-Við erum góð. Ættum að gefa út málsháttabók. Halda áfram að lesa

Auglýsing

Hér með auglýsist:

Vegleg laun í boði handa hverjum þeim sem vill taka að sér að myrða helvítis páfagaukinn (hvern ég hata), gangast við morðinu og baka sér þannig ævilanga óvild sonar míns (hvern ég elska og vil helst ekki að flytji úr móðurhúsum sökum morðæðis móður sinnar áður en hann útskrifast úr grunnskóla).