Galdrar virka

Frétti að Húsasmiðurinn væri búinn að ná sér í konu. Ljóta konu og lifaða er mér sagt. Það gleður mig ákaflega mikið.

Ég þarf endilega að fara að losa karlgreyið við bækurnar mínar sem ég hef enn ekki druslast til að sækja. Það er ekki sanngjarnt að nota bókahillur á heimilum annarra í meira en ár. Svo hef ég líka á tilfinningunni að heitkonan eigi rykfallnar Bing&Gröndal styttur sem myndu gjörsamlega rústa samræminu í stofunni hjá honum.

Ég vona að hún eigi kött og þyki heimilislegt að hafa hann upp í rúmi.

Úr engu

Prrr…kalt í dag.

Ekkert að gera í búðinni og Spúnkhildur veik heima. Smábátur flýr kuldann inn í hlýtt hálfrökkur Nornabúðarinnar, horfir á mig fletta spilum og segir mér frá verkefnum sem hann er að vinna fyrir skólann.

Svo þegjum við saman smástund.

-Það er eitt sem ég hef aldrei almennilega skilið, segir hann svo skyndilega upp úr eins manns hljóði, þetta með það hvernig heimurinn varð til úr engu. Hvernig getur hafa verið ekkert?

Ekki hef ég svörin þrátt fyrir 30 ára aldursmun og skeggleysið hindrar hann ekkert í því að skeggræða endaleysu- og eilífðarmálin. Hann er spakur drengurinn en ætli hann eigi ekki eftir að komast að sömu niðurstöðu og flest okkar; að það sé örugg leið til að missa vitið að reyna að finna svörin.

Ástkæra ylhýra

-Ég var að frétta að það gengi svona æðislega vel hjá ykkur.
-Jájá. Við fengum virkilega gott start, fína kynningu í fjölmiðlum.
-Já hvað segirðu. Og eruð þið þá bara að græða á hæl og hnakka?
-Kannski ekki alveg á hæl og hnakka. Meira svona á hæl og fingri.
-Nú? Á maður að segja hæl og fingri? Æ ég er svo vitlaus í þessu.

Um andúð mína á hinum illa Mammoni

Guðfræðingur nokkur sem iðulega finnur hjá sér hvöt til sérdeilis frumlegrar bókmenntatúlkunar á skrifum mínum, hefur komist að þeirri niðurstöðu að þar sem mér sé tíðrætt um „illsku Mammons“ hljóti ég að vera róttæklingur hinn mesti. Sjálf kannast ég ekki við öll þessi skrif um illsku Mammóns. Ég hef miklu fremur talað um hann sem fremur vingjarnlegan gaur sem ég vil gjarnan eiga næs samskipti við. Að vísu hef ég stöku sinnum talað um illsku Mammons í írónískum stíl. Halda áfram að lesa

Guðfræðimennska

Mér finnst gaman að fá að fylgjast með biblíulestri Varríusar. Að teknu tilliti til þess hve mikil áhrif þetta bókasafn hefur haft á menningu okkar, má telja furðulegt hversu margar frásagnir þess eru lítt þekktar meðal almennings.

Ég er ekki sérlega biblíufróð sjálf en það sem ég þekki af biblíunni og sögu kristninnar dugar mér allavega til að vilja fyrir enga muni kenna mig við kristindóm af neinu tagi. Þar fyrir finnst mér biblían áhugaverð og þá ekki síður þau undur sem fram fara í höfðum þeirra sem segjast trúa á hana.

Það er ekki bara trúarlegi hlutinn sem vekur forvitni mína. Mér finnst t.d. hugmyndir margra guðfræðinga um fræðimennsku rannsóknarefni út af fyrir sig. Ég hef t.d lesið nokkrar greinar eftir guðfræðinga sem gagnrýna aðferðir Eriks von Daaniken og röksemdir hans fyrir hugmyndum sínum um guðina sem geimfara. Allt ágætar greinar þar sem menn benda á augljósa vankanta á verkum Daanikens.

Það sem mér finnst svo undarlegt við kýrhaus guðfræðinga er eimitt það að klúður Eriks von Daaniken -sem felst í því að taka eingöngu þá texta biblíunnar sem henta kenningu hans en hunsa hina, er nákvæmlega sama aðferðin og kristnir menn nota til að „sanna“ hugmyndir sínar um biblíuna, hvort sem um er að ræða siðaboðskap hennar eða sagnfræði.

Er það ekki skrýtið?

Svar til Torfa

Það sem þú lest úr skrifum mínum kemur mér iðulega á óvart Torfi. Kannski er það ekki að undra. Þegar allt kemur til alls ertu sérfræðingur í bók sem hefð er fyrir að túlka bara eins og hvur og einn fílar hverju sinni. Samt er það stundum langsótt.

Mér er t.d. hulin ráðgáta hvernig þér dettur í hug að lesa „biturð“ út úr fremur eitruðu skoti á konu sem af fjárhagslegum ástæðum viðheldur sambandi sem einkennist af kúgun og óheiðarleika. Vissulega er írónía í þeim texta, fyrirlitning, hugsanlega vottar fyrir afbrýði en þar er ekkert að finna sem bendir til þess að ég telji að „lífið fari illa með mig“. Halda áfram að lesa