Jóladólgurinn

Jóladólgurinn er kominn af stað. Hvort sem þú hefur áhuga á jólageðveikinni eða ekki, skaltu hlaða öllu hugsanlegu Facebook jólablingblingi með hjörtum, glimmer og jólasveinum inn á veggi vina þinna, ásamt sykurklístruðum stöðulínum sem þú afritar frá einhverjum sem kann fleiri smákökuuppskriftir en stafsetningarreglur. Athugaðu að það hversu margir dólgast í þér á móti er óbriðgull mælikvarði á manngildi þitt.

Að gefnu tilefni árétta ég að ég set ekkert samasemmerki milli stafsetningar og manngildis. Ég set hinsvegar samasemmerki milli heimsku og þess að afrita hvaða vitleysu sem er frá öðrum, án þess að hugsa einu sinni út í það hvað maður er að gera. Ég hef séð copy-paste texta, fullan af málvillum og með stafsetningu sem nýbúi myndi skammast sín fyrir, hjá fólki sem er alveg þokkalega máli farið og ætti að hafa forsendur til að leiðrétta það. Skítt með það, fólk má pönkast eins og það vill á sínum eigin vefsíðum en það er orðið dálítið dólgslegt að skrifa t.d. ‘kóperaðu þetta og settu í statusinn þinn og sendu mér til baka ef þú elskar barnið þitt’ undir flórsykurhúðaða væmnina og klína þessum hroða inn á veggi annarra.

Það er hægt að draga úr þessu með því að sniðganga það. Ég fékk hroðalegan helling af svona glimmeri í hittifyrra, heldur minna síðasta ár enda sendi ég aldrei neitt til baka og hendi svona application dóti út nema það sé til styrktar einhverju góðu málefni.

Arnþrúður drullar yfir hlustanda

Jæja. Hún Arnþrúður Karlsdóttir fer nú líklega að verða búin með umburðarlyndiskvóta landans gagnvark kynþáttahyggju og dónaskap.

Hvort sem konan skildi Arnþrúði eða ekki (og það er alls ekki augljóst að hún hafi skilið allt sem hún sagði) er nokkuð augljóst að hún er ekki fær um að tjá sig á íslensku. Það er óheyrilegur dónaskapur að tala svona við fólk opinberlega og gefa því ekki færi á að svara fyrir sig.

Það er allt í lagi að útvarpsstöð haldi þeirri stefnu að þar sé töluð íslenska og ef menn vilji tjá sig á öðrum tungumálum skuli það túlkað á íslensku jafnóðum. Hinsvegar er ekkert sem réttlætir þennan dónaskap. Hún lét sér það ekki nægja heldur spyr hún með skætingi hvort það hafi ekkert gengið hjá henni að læra íslensku. Þetta er óþarfi og dónaskapur í þokkabót.

Arnþrúður gat vel útskýrt kurteislega og vingjarnlega fyrir konunni (helst á ensku) að það væri ekki í boði að tala önnur tungumál í þessum þætti. Það hefði svo verið snjallt hjá henni að bjóða konunni að hringja utan útsendingartíma og bera upp erindið, sem Arnþrúður hefði svo getað komið til skila í næsta þætti.

 

 

Umræðan snýst annarsvegar um það hvort sé í lagi að sýna fólki dónaskap fyrir að kunna ekki íslensku, hinsvegar um það hvort það sé réttmæt krafa að útvarpsþáttur fari eingöngu fram á íslensku. Ég hef enn ekki séð neinn krefjast þess að fólk fái að tala ensku í spjallþáttum, heldur er það kynþáttahygga Arnþrúðar sem oft hefur komið fram en skín sérlega vel í gegnum dónaskap hennar í garð þessarar konu, sem fólk er ósátt við.

Segðu mér annars, í hvaða löndum er þess krafist að fólk þurfi að læra málið ef það á að fá að búa í landinu og hver metur hvenær fólk er orðið nógu vel talandi til þess að fá að vera?

Annars vitum við ekki einu sinni hvort þessi manneskja sem hringdi inn býr á landinu eða ekki. Það er alveg hugsanlegt að hún sé bara í heimsókn. Ég er líka ansi hrædd um að ef það hefði verið einhver frægur sem hringdi inn og talaði ensku, þá hefði hann/hún fengið annað viðmót.

„Við“ erum ekki kristin þjóð

„Við“
erum ekki kristin þjóð, heldur þjóð sem heldur uppi ríkisrekinni kirkju af því að flestum finnst eitthvað heillandi við athafnir eins og barnsskírn og brúðkaup, enda þótt hefðin ein standi eftir og þessar athafnir séu raunar alls ekki frá Kristi komnar.

Staðreyndin er sú að meiri hluti þjóðarinnar trúir því að Gvuð sé einhverskonar alheimsorka eða gott afl í manninum sjálfum sem hafi enga skoðun á því hvernig við hugsum og hegðum okkur, hvað þá að erfiðleikar séu refsing Gvuðs fyrir vantú og ranga hegðun. Þetta er mjög ókristileg hugmynd.

Önnur staðreynd er sú að meirihluti Íslendinga álítur að framliðnir lifi á einhvern hátt og margir trúa því að þeir geti fylgst með okkur og jafnvel haft samband. Sú hugmynd sem kirkjan játar er sú að framliðnir sofi í gröfum sínum fram að degi allsherjar upprisu.

En auðvitað gæta prestar þess vel að segja fermingarbörnum ekki frá því.

Ef þessi sorglegi auli kynnti sér málið nánar, dytti honum kannski í hug einhver raunhæfari leið til að binda enda á hatur muslima á breskum hermönnum en sú að stunda trúboð meðal íslenskra skólabarna.

Sú hugmynd að muslimir vilji útrýma kristindómnum er fráleit. Þeir viðurkenna kristindóm, þar sem kristinir menn aftur á móti viðurkenna ekki islam. Hitt er svo annað mál að fjölmargir muslimir vilja útrýma Vesturlandabúum. Ekki af því að þeir hafi neitt við trúarbrögðin að athuga heldur vegna þeirra hörmunga sem stanslaus hatursáróður og utanríkisstefna Bandaríkjanna, Bretlands og fleiri vestrænna ríkja hefur leitt yfir stór menningarsamfélög þar sem muslimir eru í meirihluta

Rasisti býður sig fram til Stjórnlagaþings

Þessi segist hreint út vera á móti fjölmenningu. Ég kýs ekki fólk til stjórnlagaþings en ef yrði boðið upp á þann möguleika að kjósa fólk sem EKKI fengi inngöngu, þá tæki ég þátt. Það eru takmörk fyrir því hversu mannfjandssamleg viðhorf er hægt að láta vaða uppi í samfélagi sem maður hefur sagt skilið við.

Samkvæmt þessum málflutningi hlýtur að vera rökrétt að svipta þá ríkisborgararétti sem brjóta lög og semja sig ekki að siðvenjum þjóðarinnar, hvað sem það nú þýðir. Svo maður tali nú um íslenskukunnáttuna. Pant taka að mér meta það hvaða fjölmiðlamenn verði fyrst sviptir ríkisborgararétti.

Stjórnlagaþingsframbjóðandi um aðskilnað ríkis og kirkju

Jóhanna Heiðdal Sigurðardóttir, frambjóðandi til Stjórnlagaþings, vill hafa hina evangelísk- lúthersku kirkju sem Þjóðkirkju. Hún vill ekki aðskilja ríki og kirkju, því hún vill geta haldið jól og páska og að fólk eigi þess kost að láta skíra börn og ferma.

Þetta er skarplega athugað hjá Jóhönnu. Í öðrum löndum þar sem ríki og kirkja eru aðskilin eru engin jól eða páskar og ekki eru börn skírð og fermd. Við þetta má bæta að jarðarfarir voru lagðar niður um leið og skírnir og fermingjar, páska og jól, í þeim ríkjum sem hafa aðskilið ríki og kirkju.

Í Þýskalandi er ástandið svo slæmt að þar hefur enginn verið jarðaður síðan 1918. Enda er lyktin orðin svakaleg.

Uppfært:
Tengillinn hér að ofan tengir ekki lengur á stefnu Jóhönnu en hér má lesa fulla tilvitnun.