Beinar aðgerðir hafa áhrif

Jæja. Japanir bara búnir að gefast upp.

Það er nefnilega nákvæmlega þessvegna sem aðgerðarsinnar verða fyrir pólitískum ofsóknum. Þeir hafa raunveruleg áhrif.

Það er þessvegna sem yfirvöld vilja að við höldum áfram að mótmæla kurteislega, með ljóðalestri og spjaldaburði. Af því að það er hægt að hundsa það. Það er ekki hægt að hundsa beinar aðgerðir. Beinar aðgerðir leiða til breytinga. Í alvöru.

Loksins, loksins! Siðvæðingin lifi!

Mikið lifandi skelfing er ég nú fegin því að dómarar skuli hafa fengið launahækkun. Það er svo gífurlegt álag á dómskerfinu á þessum síðustu og verstu tímum. Og full þörf á siðvæðingu enda glæpirnir iðulega hinir ógeðfelldustu.

T.d. þessi klámdrykkur. Gvuð má vita hversu margar nauðganir hafa átt sér stað í kjölfarið á neyslu þessa ósóma.

Við skulum líka athuga það ef drykkurinn væri til sölu hjá ÁTVR, væri ríkið þar með að stuðla að nauðgunum. Þangað kemur nefnilega margt fólk sem er nýskriðið yfir tvítugt til þess að kaupa sér löglegt fíkniefni sem gæti ýtt undir klámsýkina í því og eins gott að vera þá ekki að glenna þessar eggjandi síderdósir framan í það.

Nei, það gengur ekki að ríkið taki þátt í því að spilla æskunni með klámfengnum drykkjarföngum. Og gott til þess að hugsa að þrátt fyrir niðurskurð í heilbrigðiskerfinu og skerta þjónustu leikskóla, skuli Íslendingar samt bera gæfu til að verja fé til jafn brýnna þjóðþrifaverka og að reka slík mál fyrir dómstólum.

Hófsamir ofbeldismenn

Ég legg það ekki að jöfnu að stjaka við konunni sinni á fylliríi og að drepa hana með keðjusög að vel ígrunduðu máli. En smávegis ofbeldi er nú samt ofbeldi og við vitum ekkert hvert mörk hófsamra ofbeldismanna geta teygst ef þeir verða nógu reiðir. Þessvegna myndi ég ekki gefa nokkrum manni fleiri en eitt tækifæri til að lemja mig. Jafnvel þótt hann hefði bara danglað aðeins í mig með borðtuskunni, tæki ég því sem hættumerki og færi, ekki viku síðar heldur sama dag.

Ég legg fasistatilhneigingar íslenskra yfirvalda heldur ekki að jöfnu við Mussolíni og ég viðurkenni fúslega að íslenskir lögregluþjónar eru upp til hópa fremur hófsamir ofbeldismenn. (Það voru áreiðanlega ekki mjög margir sem komu að meint sjálfsmorði í fangaklefa í júní 2009.)

En fasismi er samt fasismi. Jafnvel þótt það sé ósköp hófsamur fasismi sem birtist í heimildum til að njósna um fólk sem ekki liggur undir grun um refsiverðan verknað.

Af hverju er vín svona dýrt?

Í landamærabúðinni í Þýskalandi er hægt að fá 5 lítra kassa af rauðvíni á 40 kr danskar. Það er líka hægt að fá dýrt vín en þetta ódýrasta er allsekkert það versta sem býðst.

5 lítra kassinn endist mér í 5-6 vikur og þegar áfengisneyslan kostar tíkall á viku, fer maður að líta á áfengiskaup sem hluta af eðlilegum heimilsrekstri. Ég reiknaði ekkert með því að halda þessum drykkjuskap áfram hér í Noregi en við fórum í vínbúð í dag í fyrsta sinn á árinu og þótt ég vissi að verðlagið væri lítið skárra en á Íslandi, gekk hreinlega fram af mér. Ódýrasti 3ja lítra kassinn var á 269 kr. sem samsvarar 256 dönskum. Það var tegund sem kostar milli 50 og 60 kr í Þýskalandi.

Ég geri ekki kröfu um að geta drukkið rauðvín daglega og leit alltaf á áfengiskaup sem lúxus á meðan ég bjó á Íslandi. Ég vissi að rauðvín er töluvert dýrara í Noregi en Þýskalandi en eftir að hafa vanist öðru finnst mér áfengisokur ekkert eins sjálfsagt og áður. Mig langar að vita í hverju þessi hroðalegi verðmunur liggur. Og líka af hverju fólk sættir sig bara við hann.