Upprætum –ingu setningar

Það er orðið algengt að Íslendingar noti þágufallsmynd kvenkynsorða sem enda á –ing þar sem eignarfall er viðeigandi. Ég hef þegar nöldrað yfir tilhneigingunni til að spyrja spurninguí stað spurningar. Það er hreint ekki eina útbreidda dæmið um notkun þágufalls í stað eignarfalls. Sumir fresta öðrum framkvæmdum vegna byggingu hússins og fara snemma heim af útihátíð sakir rigningu.

Ég hélt að fólk væri þarna að slá saman út af því og vegna þess, þar til kona nokkur sagði mér að dóttir hennar ætlaði að safna hári fram til fermingu. Þetta er ljótt og rangt. Stúlkur ættu að safna hári fram að fermingu, eða bíða með það til fermingar að láta klippa sig ef þær vilja hafa sítt hár á fermingardaginn. Sömuleiðis ættum við að fresta ferðalagi vegna rigningar.

Að spyrja spurningar

„Má ég spyrja þig eina spurningu?“ sagði stúlkan.

„Nei,“ sagði ég „en þú mátt spyrja mig einnar spurningar eða margra spurninga og þú mátt spyrja mig um hvað sem þú vilt.“
„Ókei þá, má ég þá spyrja þig um eina spurningu?“ sagði hún, dauðþreytt á þessum endalausu leiðréttingum. Ég skil vel að henni hafi ekki þótt orðalagið má ég spyrja þig um eina spurningu eðlilegra en má ég spyrja þig eina spurningu.

Fallega væri að segja: Má ég spyrja þig einnar spurningar? Má ég spyrja þig um dálítið? Má ég spyrja að svolitlu? Má ég spyrja þig út í þetta? Eða, ef við viljum vera formleg: Má ég leggja fyrir þig eina spurningu?

Og þá man ég eftir nokkrum dæmum um fullorðið fólk sem vill fá að leggja undir mig nokkrar spurningar. Þetta er skelfilegt málfar og ef ég væri raunverulega fasisti myndi ég leggja til að það yrði gert skaðabótaskylt að særa málkennd sannra íslenskufasista með svo hroðalegum ambögum. Ég er aftur á móti fús til að svara spurningum sem eru lagðar fyrir mig og segja skoðun mína á máli sem er borið undir mig.

Ég vil!

Ég vil helst ekki trúa því en ætli maður verði ekki að horfast í augu við staðreyndir; margir, margir, mjög margir Íslendingar segja ég vill, í stað ég vil.
Ég vil vernda tunguna gegn svona klúðri. Þú vilt það líka. Lýðurinn vill það, þjóðin vill það og menntamálaráðuneytið vill það. Við viljum það öll og til þess að svo megi verða þurfum við að standa saman um það.

Ég fíla málfarstísku – í hófi

Íslenskan einkennist af notkun framsöguháttar en nú er í tísku að nota nafnhátt hvar sem því verður viðkomið. Útkoman verður orðalag á borð við “ég er ekki alveg að skilja þetta”, “þeir eru að spila óvenju vel”, “hann er ekki að fíla þetta” o.s.frv. Mér finnst ekkert athugavert við að nota slíkar setningar að ákveðnu marki. Í hófi skapa þær ný blæbrigði í málinu. “Ég er ekki að skilja þetta” er ekki kannski eins endanlegt og “ég skil þetta ekki.” Fyrri setningin býður upp á möguleika á þeirri túlkun að skilningsleysið kunni að vera tímabundið ástand.

Ég vona þó innilega að þessi tíska yfirtaki ekki hefðbundna notkun framsöguháttar. Þótt tískusveiflur kunni að eiga rétt á sér í hversdaglegu talmáli er samt viðeigandi að fjölmiðlar, fyrirtæki og stofnanir sýni dálitla íhaldssemi í málnotkun. Mér finnst t.d. óviðeigandi að nota orðalagið “er bankinn þinn ekki að veita þér góða þjónustu?” í auglýsingu. “Veitir bankinn þinn þér ekki góða þjónustu?” er ágætis íslenska og skilaboðin hin sömu.

Ég hef ekki efni á því

Í fyrsta sinn sem ég heyrði fullorðinn mann segja ég á ekki efni á þessu fannst mér það stórfurðulegt. Nú hef ég heyrt þetta orðalag notað svo oft að það stingur mig ekki verulega lengur. Ég er hrædd um að þetta sé orðið mörgum eðlilegt.

Stundum á ég ekki fyrir því sem mig langar að kaupa. Það hendir líka að ég á svosem peninga en þar sem hluturinn er ekki á forgangslista og fjárráð mín takmörkuð met ég það svo að ég hafi ekki efni á honum. Ég tek æ oftar eftir því að fólk ruglar þessu tvennu saman og segist ekki eiga efni á því sem það langar að láta eftir sér. Látum þennan leiðinlega samslátt ekki festast í málinu.

Má ég leggja fyrir þig nokkrar spurningar

Mér finnst neyðarlegt þegar fólk hringir í mig frá fyrirtækjum sem sérhæfa sig í skoðanakönnunum og vill fá að „leggja undir mig nokkrar spurningar“. Ég er reiðubúin að svara spurningum sem eru lagðar fyrir mig og segja skoðun mína á máli sem er borið undir mig.

Mér þykir við hæfi að stofnanir sem þessar sjái sóma sinn í því að ráða til sín starfsfólk sem er sæmilega talandi eða að öðrum kosti að leiðrétta svona vitleysur. Það getur ekki verið mjög mikil vinna að uppræta þetta leiðindaorðalag hjá fólki sem hefur atvinnu af því að leggja spurningar fyrir þjóðina í gegnum síma.