Glámbekkurinn

Þegar ég er orðin húsgagnahönnuður, ætla ég að sérhæfa mig í hönnun glámbekkja. Ekki klámbekkja því ég held að sé nóg framboð á þeim á markaðnum.

Ég var nær fullorðin þegar ég áttaði mig á þeirri augljósu staðreynd að glámbekkur hlýtur að vera bekkur fyrir glám. Kannski vegna þess að bekkir eða hillur sem eru sérstaklega til þess hugsaðar að geyma á þeim gleraugu, fylgja sjaldnast innréttingum. Sem er auðvitað stórfurðulegt í ljósi þess að á meðalheimili má gera ráð fyrir því að einhver þurfi fyrr eða síðar á gleraugum að halda. Og þar með glámbekk til að geyma þau á.

Ég reikna með að hönnun glámbekkja muni færa mér ótakmörkuð auðæfi.

Þarf virkilega að ræða það?

healthWrightÉg er frekar hrifin af þeirri aðferð að ræða málin fordómalaust frá öllum sjónarhornum áður en ákvörðun er tekin. Sumar hugmyndir eru samt svo siðlausar að það er engin ástæða til að ræða þær.

Þegar Darri fæddist spurði Haukur mig auðmjúklega hvort hann mætti lemja litla barnið. Ég sá ekki sérstaka ástæðu til að skoða möguleikann á því að uppfylla þessa barnalegu ósk eða ræða hana frekar. Sagði honum bara að svoleiðis gerði maður ekki, án þess að rökstyðja það nánar.

Ég sé heldur ekki ástæðu til að ræða möguleikann á því að ríkir fái forgang eða sérþjónustu í heilbrigðiskerfinu.

Ný vísindauppgötvun

Ný rannsókn á vegum Heilbrigðisstofnunar Bandaríkjanna leiðir í ljós að hægt er að losna við spik með því að lyfta lóðum tvisvar í viku.

Drottni hersveitanna sé lof og dýrð fyrir hina vísindalegu aðferð.

Er annars bara ein Heilbrigðisstofnun Bandaríkjanna? Bandaríkin hljóma eitthvað svo stór að manni finnst að þar hljóti að vera margar slíkar.

Framför – afturför

Hefur nokkur heyrt talað um afturför í tækni og vísindum?

Við erum vön því að tengja orðið framfarir við eitthvað jákvætt. Meiri þægindi, tímasparnað og fjárhagslegan ágóða.

En er það sem eykur lífsgæði okkar endilega framför?
Er tækni sem gerir okkur auðvelt að arðræna náttúruna framför?
Eru það framfarir í lyfjaiðnaði ef nýtt og áhrifaríkt lyf veldur afkomendum okkar skaða?
Eru vopn sem drepa fleira fólk á stærra svæði endilega framför?

Ofbeldismenn

Byltingin er með áverka eftir lögregluþjón. Ég er stolt af því.

Í sjónvarpinu sagði fulltrúi lögreglu að aðferðir þeirra væru ekki réttar. Fulltrúi Alcoa sagði að sjálfsagt væri að ungt fólk nýtti sér rétt sinn til að láta í sér heyra. Þau ættu bara að gera það utan dyra svo þeir sem mótmælin beinast að þyrftu ekki að heyra þau.

Mótmæli sem ekki valda truflun heyrast ekki og ég hef aldrei heyrt um rétta mótmælaaðferð sem skilar árangri.

Mér finnst frábært að sérsveitin skuli hafa vera send á þessa unglinga. Það sýnir bara að loksins eru menn farnir að taka mótmæli þeirra alvarlega.

Varúð gegn forsjá

Allir vilja velmegun.
Allir vilja þjónustu.
Allir vilja menningu.
Fáir vilja vinna í álveri.

Krakkarnir á Reyðarfirði ætla ekki að vinna í álveri.
Krakkarnir sem ég kenndi austur á Héraði eru flestir komir suður.
Hvað í ósköpunum fær fólk til að halda að ungt fólk sem ólst upp á Húsavík muni pakka niður og fara heim aftur ef álver verður reist þar?

En við skulum nú ekkert vera að tala um það núna.
Er á meðan er, enjoy the ride on the tiger!

Opnun eða afgreiðsla

Mér finnst opnunartími vera skrýtið orð. Opnun hlýtur að tákna þá aðgerð að opna. Ef opnunartíminn er frá 9-17, tekur þá 8 klst að opna dyrnar?

Ég geri mér engar vonir um að opnunartímar verði aflagðir og afgreiðslutímar teknir upp í staðinn en ólíkt þykir mér nú afgreiðslutíminn þjálla orð og fegurra.