Læk

Sú ákvörðun að birta pistla á Eyjunni hefur vafist fyrir mér. Að sumu leyti af því að mér þykir vænt um lénin mín. Að sumu leyti af því að ég er ekki hrifin af útliti Eyjunnar og finnst dálítið kvíðvænlegt að geta ekki stjórnað útlitinu á mínu svæði sjálf. Auk þess er ég ofboðslegur tækniklaufi en það stoppar mig ekkert í því að prófa eitthvað sem ég kann ekki á, svo ég sá fyrir mér endalaust vesen ef ég gæti ekki kvabbað í mínum eigin sérlegu aðstoðarmönnum til að laga til eftir mig þegar ég er búin að klúðra einhverju.

Ég lenti strax í smávegis tækilegum vandræðum þegar ég fór fyrst inn á vefsvæðið. Varð auk þess frekar pirruð þegar ég sá að lokað er fyrir möguleikann á að setja inn viðbætur. Ég hafði samband við umsjónarmann vefsins, Birgi Erlendsson og spurði hvort hann gæti aðstoðað mig. Það var síðla kvölds og ég átti alls ekki von á svari fyrr en í fyrsta lagi næsta dag en viðbrögðin komu ánægjulega á óvart. Viðbótin var sett inn strax, öllum spurningum svarað vel og skilmerkilega og öll vandamál leyst í hvelli.

Ég er hæstánægð með þessa þjónustu; eða eins og netverjar segja “læk!”

Dýrin í Hálsaskógi og holdafar Gísla Ásgeirssonar

Gísli og feitabollumælirinn

Í líkamsvirðingarumræðunni í tengslum við megrunarlausa daginn minntust margir á gagnsleysi bmi-stuðla. Meðal þeirra var Gísli Ásgeirsson sem sagðist vera hin mesta feitabolla samkvæmt bmi-stuðli og trúði nú bara líðan sinni og útliti betur.

Jamm. Ef þessi mynd, sem ég stal blygðunarlaust af netinu, sýnir feitabollu, hlýtur hún að vera  þokkalega fótósjoppuð. Ég hef fyrir satt að svo sé ekki svo rökrétta ályktunin er sú að það sé eitthvað að stuðlinum en ekki holdafari Gísla.

En er þetta alveg svo einfalt? Er hægt að afskrifa mælitæki eins og bmi-stuðul, bara af því að kenningin gengur ekki upp í einhverju ákveðnu tilfelli? Halda áfram að lesa

Afsökunarbeiðni til DV

Í pistli sem ég skrifaði í morgun kemur fram bagaleg villa en ég sagði að svo virtist sem Smugan hefði ætlað að taka vitleysuna upp eftir DV.

Fyrirsögnin sem kemur fram í vefslóð Smugunnar, og olli greinilegum misskilningi svosem sjá má af ummælum í umræðukerfinu sem og af því að þekktir bloggarar töldu víst að maðurinn væri í samfélagsþjónustu, er semsagt kveikjan að frétt DV en ekki öfugt.

Ég hefði þurft að fara betur yfir áður en ég birti þetta og kann ég Ingimar Karli Helgasyni bestu þakkir fyrir að vekja athygli á því að það er Smugan en ekki DV sem ber mesta ábyrgð á þessari röngu frétt.