Freudian slip

Gerði mig seka um freudian slip í dag. Ætlaði að skrifa „órökstudd fullyrðing“ en varð það á að skrifa „órökstudd fullnæging“. Ég er nefnilega þessi sem vil að hlutirnir meiki sens og hef engan áhuga á fullnæginu sem ekki á við góð rök að styðjast. Reyndar má til sanns vegar færa að rakalaus fullnæging sé ekkert sérlega góð.  Halda áfram að lesa

Þegar amma lét Sjálfstæðisflokkinn mála gangstéttarbrún

Theódór Norðkvist birtir á vefbók sinni, mynd af löggubíl sem lagt er við gula línu og spyr hvort löggan megi brjóta lög.

Ég, sem er fljót að trúa öllu illu upp á lögguna, dæmdi þá sem voru á þessum bíl óðar seka um lögbrot. Óskar Thorkelsson bendir hinsvegar á að í reglugerð með umferðarlögunum er talað um akbraut og þarna er ekki akbraut heldur bensínstöðvarplan. Þessi löggugrey brutu semsagt ekki lög með að leggja þarna.

Í tenglsum við þetta rifjaðist upp fyrir mér gömul saga úr fjölskyldunni. Halda áfram að lesa

Ekkert nýtt

Eva: Ég held svei mér þá að ég sé að skipta um skoðun á þjóðaratkvæðagreiðslum. Kannski bara best að finna einhvern huggulegan einvald.
Hulla: Hvað nú?
Eva: 26% Íslendinga treysta íslenska hernum! 26%!
Hulla: Jæja já? Og er það eitthvað nýtt að fólk treysti fyrirbæri sem er ekki til?

Mér skilst að spurningin eigi við um heri almennt. Hvurslags fávitagangur er þetta eiginlega? Er t.d. reiknað með því að ef Svisslendingur treysti sínum her, treysti líka herjum Bandaríkjamanna og Japana?

Um djarfa framgöngu lögreglunnar gegn helsta ógnvaldi bandaríska sendiráðsins

Á stöðinni sátu Geir og Grani
er geigvænlegt barst þeim neyðarkall
við ameríkanska embassíið
var Osama kominn upp á pall.
’Til varna grípum’ Geir Jón kvað,
’því götuskríllinn heimar blóð.
Ofstopafullir andófsfautar
ógna nú vorri herraþjóð.

Blýantinn greip og skýrslu skráði
skelfingu lostið yfirvald.
Sat fyrir utan sendiráðið
sjúkraliði með pappaspjald.

Kylfurnar munda kappar vorir.
Hver fær að lemja óþokkann?
Því labbandi eftir Laufásvegi
er Lárus Páll við þriðja mann.
Með skilti að vopni og víkur ei
þótt varðhundarnir flykkist að.
’Stríð er glæpur’ stendur skrifað
stéttinni ógnar þvílíkt blað.

Blýantinn greip og skýrslu skráði
skelfingu lostið yfirvald.
Sat fyrir utan sendiráðið
sjúkraliði með pappaspjald.

Mikið er uppnám innandyra
og einn hefur kúkað upp á bak
en löggurnar djarfar Lárus grípa,
léttir þá öllum óttans tak.
Þeir troða Lalla í löggubíl
og lesa honum bófans rétt
en friðardólgins fylgisveinar
flýja af hinni helgu stétt.

Blýantinn greip og skýrslu skráði
skelfingu lostið yfirvald.
Sat fyrir utan sendiráðið
sjúkraliði með pappaspjald.

Þeir drógu hann fyrir dóm og vildu
að dónanum yrði refsing gerð.
Óhlýðni hans við yfirvaldið
ámælis þótti dómnum verð.
’Vér sekan dæmum svoddan þrjót.’
Og samt hann sýnir hvergi bót.
Hann staðhæfir enn að stríð sé glæpur
og stéttina virðir ekki hót.