Stal amma hönnun Baldrúnar og Rebekku eða stálu þær frá ömmu?

vettlingarÞegar ég var lítil prjónaði amma Hulla æðislega barnavettlinga. Þeir voru með klukkuprjónssmokk sem náði nógu hátt upp á upphandlegginn til að koma í veg fyrir að úlnliðurinn væri óvarinn milli vettlings og úlpuermar og nógu víður til að hægt væri að nota hann utan yfir peysuermi. Hún seldi einhvern slatta af þessum vettlingum en engir aðrir krakkar sem ég þekkti áttu klukkuprjónsvettlinga nema þá að hafa fengið þá í gegnum mína fjölskyldu. Við systurnar prjónuðum síðar svona vettlinga á okkar börn og þegar strákarnir mínir voru litlir sá ég systkini sem þeir voru með á leikskóla með samskonar vettlinga. Ég hafði fram að því talið víst að amma Hulla hefði átt hugmyndina að þessum vettlingum en hún gaf sig aldrei út fyrir að vera hugmyndarík og ekkert útilokað að hún hafi séð svipaða vettlinga hjá einhverjum öðrum. Ég hugsaði ekki frekar út í þetta þá.

Fyrir tveimur árum sá ég svo mynd af klukkuprjónsvettlingunum hennar ömmu Hullu í prjónablaðinu Lopa, (blað nr 24) undir heitinu Bjalla. Þær upplýsingar fylgja uppskriftinni að þetta sé hönnun Rebekku og Baldrúnar. Nú veit ég ekki á hvaða aldri Rebekka og Baldrún eru, ef þær eru þá enn ofar moldu en þetta orð ‘hönnun’ vakti hjá mér spurningar. Þetta eru venjulegir belgvettlingar með einum þumli, prjónaðir á nákvæmlega sama hátt og vettlingar hafa verið prjónaðir alla tuttugustu öldina, og líklega mun fyrr. Fólst ‘hönnunin’ semsagt í því að bæta við þessum klukkuprjónssmokk? Eða var amma eða einhver önnur prjónakona búin að fá þessa hugmynd mörgum áratugum áður en Rebekka og Baldrún lærðu að prjóna og ef sú var raunin, fólst hönnunin þá í því að velja lillabláan lit og punta með rauðri rönd? Var ég þá ekki líka hönnuður, fyrst ég hafði prjónað peysur og kjóla án uppskriftar?

Sennilega hefði ég ekki hugsað svona mikið um þetta, bara gengið út frá því að amma hefði nýtt sér hönnun Rebekku og Baldrúnar, nema vegna þess að nokkrum vikum fyrr hafði ég átt skemmtilegt samtal við unga konu sem var að læra fatahönnun. Hún var dálítið ergileg yfir metnaðarleysi íslenskra hönnuða og sagði að það jafngilti ekki hönnun að skipta um kraga á blússu eða setja belti í öðrum lit á jakka. Það hljómaði skynsamlega þá en nú, þegar ég fletti prjónablöðum, sé ég þó ekki betur en að hönnun felist einmitt aðallega í smávægilegum breytingum.

Finnst ykkur þetta í lagi spyr Marta María og nefnir sem dæmi dásamlega fallegar peysur sem eru skráðar sem hönnun Bergþóru Guðnadóttur og framleiddar fyrir Farmers Market. Fjöldaframleiddar í Kína er mér sagt (endilega leiðréttið mig ef ég hef fengið rangar upplýsingar) þar sem enn þykir sjálfsagt að greiða handverkskonum háðungarlaun. Mynstrið er gamalt og margnotað með ýmsum tilbrigðum (sjá t.d. Ístex blað nr 12, uppskrift 4, mynd á bls 16) en sniðið á peysunni er kvenlegra en tíðkaðist 1980 og líklega er notaður plötulopi og einband í stað Álafosslopa. Í því felst nú allur frumleikinn.

The secret to creativity is knowing how to hide your sources.

Þessi vísdómsorð eru eignuð Albert Einstein. Það gæti þó allt eins verið að hann hafi heyrt þau annarsstaðar eða að þau séu ranglega eignuð honum en það er allt í lagi, það er ekki til neinn höfundarréttur á spakmælum. En já, sá sem fyrstur sagði þetta (nema margir hafi áttað sig á þessu samtímis) hafði rétt fyrir sér, nánast öll hönnun, nánast öll sköpun felst í einhverskonar stuldi. Í hvert sinn sem ég heyri nýtt lag, heyri ég annað lag á bak við það. Ef ég nefni það fara viðstaddir yfirleitt að telja. Það er víst einhver stærðfræðiformúla, einhver ákveðinn fjöldi hljóma sem sker úr um það hvort lag telst frumsamið eða stolið. Svona vísindi byggjast auðvitað bara á samkomulag manna en sannleikurinn er sá að sköpun er oftast bara það að taka eitthvað sem aðrir hafa gert og raða því saman á nýjan hátt. Það eru ekki endilega þeir frumlegustu sem slá í gegn, heldur þeir sem eru fliknastir í því að hagræða hefðinni þannig að nútímanum líki og FM peysunar eru dæmi um góðan árangur af einmitt þeim þankagangi.

Mér finnst eitthvað ægilega rangt við það að taka hugmyndir annarra lítt eða óbreyttar og nota þær til að raka inn peningum. Ég get samt ekki almennilega rökstutt þá skoðun. Það er sennilega bara tilfinning, byggð á viðteknum en umdeilanlegum hugmyndum um eignarrétt á hugverkum. Mér finnst hinsvegar ekki rangt að nýta hugmyndir annarra til einkabrúks, ekki frekar en mér finnst þjófnaður felast í því að syngja lög annarra eða baka fyrir heimili sitt pizzu með sama áleggi og þekktur pizzustaður býður upp á.

Að búa til nákvæma eftirlíkingu af flík, eigna sér heiðurinn af henni og græða peninga á því er eitt, að telja út mynstur og prjóna sér peysu eftir því, er svolítið annað. Ég legg til að áður en menn fara á límingunum af hneykslun á því að einhverjar konur hafi prjónað sér peysur sem líkjast FM peysunum, í stað þess að kaupa þær af fyrirtæki sem er hreint ekki hafið yfir gagnrýni, velti þeir fyrir sér hversu langt nákvæmlega réttur til hugverka eigi að ná. Er það þá ekki líka þjófnaður þegar trúbador flytur þekkt popplög? Eða þegar maður birtir brandara á facebook án þess að geta heimilda? Er ég að stela hönnun Rebekku og Baldrúnar með því að nota prjónauppskrift ömmu minnar? Eru í raun einhver skýr mörk á milli hönnunar og heimaföndurs?

Spáið í það, en hlustið fyrst á þennan stutta og skemmtilega fyrirlestur af vefnum TED.

Ljósmynd efst í pistli heitir Fashion show og er fengin hjá Flickr og er eftir Karen Corby