Samkvæmisleikur

Hér er hugmynd að skemmtilegum samkvæmisleik.

Þátttakendur skrá sig allir inn á smettið á sama tíma, hver um sig með miklar áfengisbirgðir innan seilingar. Þátttakendur lesa netmiðlana og í hvert sinn sem þeir rekast á stafsetningarvillu, innsláttarvillu eða málfarsklúður, taka þeir einn sopa og uppfæra svo stöðulínuna sína á fb. Fyrir hverja fáránlega frétt sem á ekkert erindi við almenning, skal súpa þrisvar á glasinu og skrifa eitthvað sniðugt inn á veggi annarra.

Ef svo ólíklega fer að einhverjum takist að lesa allar fréttir síðasta sólarhrings, án þess að verða svo fullur að hann verði sér til skammar á fb, skal hann teljast sigurvegari.

Hafa ber í huga að það er mjög heilsuspillandi að taka oft þátt í þessum leik, þar sem hann útheimtir óhemju mikla drykkju en vitanlega má milda leikinn með því að sleppa fjólugörðum á borð við lífsstílssíður og slúðurdálka. Aðeins hörðustu drykkjumenn ættu að leggja það á sig að hafa bleikt.is meðal lesefnis.