Bögg

Ég held að ráterinn minn og blogger séu í hörkufýlu hvor út í annan. Hvort sem ég fer í gegnum nýja trixið eða reyni að blogga á hefðbundinn hátt, verða færslurnar undarlegar útlits og mánudagsfærslan vill bara ekki birtast á blogspot þótt hún sjáist inni á blogger. Samt var hún búin að vera uppi í einn dag og ég var búin að fá viðbrögð við henni þegar hún bara hvarf!

Kannski er andi einhvers framliðins tölvunörds að ásækja mig.

Garl dagsins

Í dag sannaðist að stór karl með kúbein, vinnur á þremur mínútum verk sem tekur litla konu með skrúfjárn þrjár klukkustundir.

Þegar hendurnar á mér voru orðnar of blógnar til að ég héldi taki á skrúfjárninu, útséð um að nokkur iðnaðarmaður á höfuðborgarsvæðinu gæti fórnað þremur mínútum af tíma sínum og enginn þeirra duslimenna sem hafa lýst yfir ástríðufullri þrá sinni eftir að þjóna mér, á lausu, hringdi ég í Sigrúnu og bað hana að beita töfrum sínum til að fá að senda mér vélsmiðjustrák. Halda áfram að lesa

Of mikið álag

Þessi helgi varð töluvert öðruvísi en til stóð. Sé fram á að morgundagurinn verði hrein og klár martröð. Enn og aftur staðfestist hættan við að vænta þess að aðrir geri eitthvað fyrir mann. Það er bara nokkuð sem maður getur ekki reiknað með sama hversu sjálfsagt það er.

Þetta er allt að koma

Við erum búnar að fá „ráðstefnusalinn“ afhentan… vííí!

Fáum 25 manna hóp úr MH í heimsókn á mánudaginn svo ég reikna með að fyrirhuguð dansæfing með Hörpu og Sigrúnu (sem stóð til að yrði fjögurra tíma sessjón) verði í styttri kantinum.

Nú þegar búið er að fixa og trixa bloggið mitt svo ég get fengið ritræpu án þess að lenda í vandræðum, hef ég hvorki tíma né andríki til að skrifa.

En þessa dagana gerast góðir hlutir á viðunandi hraða og bráðum verður allt fullkomið.

Geðprýði dagsins

Síðustu 10 daga hafa útsendarar Ístaks í Vesturbænum andskotast með höggbor á stærð við Hallgrímskirkju, án afláts, á bak við búðina mína. Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu Ístaks mun framkvæmdum, með margvíslegri hljóðmengum, ljúka í júní 2007 og er útilokað að segja til um hversu lengi við þurfum að búa við ófögnuðinn af þessum bor. Halda áfram að lesa

Horfinn

Nú ertu horfinn. Í bókstaflegri merkingu. Þegar ég kastaði á þig Hulinshjálmi, var hugmyndin sú að þú hyrfir úr huga mínum, ekki sú að jörðin gleypti þig. Næst nota ég varnarstaf með.

Ég veit að þú lest bloggið mitt og þar sem þú svarar ekki tölvupósti (og ég veit því ekki hvort þú lest hann) ætla ég að birta skilaboðin hér. Halda áfram að lesa