Þórfreður

Þórfreður veldur mér heilabrotum.

Um tíma taldi ég mig þekkja manninn á bak við dulnefnið. Allavega hefði það verið mjög líkt manni sem ég þekki að kalla sig Þórfreð.

Svo kom í ljós að sá sem ég hélt að væri Þórfreður var i rauninni Du Prés. (Eða það er ég rúmlega sannfærð um) Sem ég tel víst að sé sá sami og einu sinni kallaði sig Dramus.

Ég á erfitt með að trúa því að engin tengsl séu milli Þórfreðar og Dramusar. Samt hef ég ekkert fyrir mér í því nema nöfnin.

Fyrsta galdrabrúðan sem ég bjó til var gerð úr dagblöðum og lopa. Hún var ekki falleg en galdurinn heppnaðist nú samt vel. Síðar varð til brúða sem heitir Dramus en þjónar sama tilgangi og blaðagöndullinn.

Kannski bý ég einhverntíma til galdur sem heitir Þórfreður.

Lopapeysa á Næsta bar

Um daginn hitti ég sætan sölumann sem er á lausu og kemur samt ekki fyrir eins og hringli í hausnum á honum. Hann stoppaði lengur en hann þurfti. Mun lengur.

Ég hef svona verið að velta fyrir mér möguleikanum á að hafa samband við hann en ætlaði að ræða við kunningjakonu mína, sem vill svo til að þekkir hann, og fá umsögn, áður en ég færi að eyða dýrmætum tíma mínum í að dindilhosast utan í lambakjöti sem er svo kannski alki eða eitthvað þaðan af verra. Halda áfram að lesa

Andlit á glugga

Ég sofnaði aftur í morgun, aldrei þessu vant. Líklega hefur farið meiri orka í Ian Anderson en ég gerði mér grein fyrir. Ég vaknaði aftur um kl 8 með andlit á glugga, í bókstaflegri merkingu. Ég dró ekkert fyrir gluggann í gærköld og þarna blasti andlit við mér. Það er verið að gera við blokkina að utan og hinir skeleggu verkamenn sem dunduðu sér jafnan korterslangt á svölunum hjá mér síðasta sumar, eru komnir í gírinn aftur.

Ég fór í sturtu og þegar ég kom aftur var andlitið horfið. Vinnupallurinn er ennþá upp við gluggann svo hugsanlega koma þeir aftur í dag. Þeir eru líklega í 8-9 pásunni núna.

Ó mæ god

Lykta ég eins og gamalmenni? spyrð þú.
Þetta getur maður kallað að spyrja ranga konu rangrar spurningar. Setjum sem svo að sú væri raunin. Finnst þér líklegt að ég segði þér það?

Reyndar hef ég ekkert velt líkamslykt þinni fyrir mér enda hef ég aldrei orðið fyrir áhrifum af henni. Mér finnst ólíklegt að þú lyktir eins og gamalmenni. Mér finnst sennilegast, svona fyrst ég er komin út í þessar pælingar, að þú lyktir eins og maður á þínum aldri á að gera. Ég hinsvegar veit það ekki, því ég hef aldrei þefað af þér. Halda áfram að lesa

Tiltekt

Stóð í tiltekt heima fram á nótt og er búin að verja því sem af er deginum í að smíða rafeindatæki.

Ég ætlaði eiginlega að ráðast í það metnaðarfulla verkefni að grynnka á ruslasafni Ygglibrúnarinnar í dag en dauðlangar að lýsa hér með yfir helgarfríi og kíkja á sunnudagskrossgátuna.

Mér var boðið í tvö Júróvissjónpartý í gær en langaði ekki baun. Keppnin hefur aldrei höfðað til mín og ég hef yfirleitt ekki úthald í meira en 3-4 lög en auk þess hrís mér hugur við því að þurfa að blanda geði við fleiri en 2 ókunnuga í einu. Ég er að hugsa um að ráða mig á einhvern fjölmennan vinnustað í 4-5 tíma á dag. Það myndi allavega þvinga mig til að mynda einhver félagsleg tengsl. Ég er hægt og rólega að verða eins og Gísli á Uppsölum.

VG

Aldrei hefði hvarflað að mér að óreyndu að við yrðum beðnar um að selja lopapeysur til Afríku. Viðskiptin hreinlega þefa okkur uppi.

Ég er að hugsa um að nefna viðskiptagaldrana mína VG.