Vitræn samúð

Ég var fyrst núna að lesa Flugdrekahlauparann. Þetta er góð bók, það vantar ekki, örlagasaga tveggja drengja sem alast upp í Afghanistan. Þetta er bók sem allir ættu að lesa en ég er samt ekki snortin. Sagan er til þess fallin að græta væmnisfrírri manneskju en mig en mér þykir bara ekkert vænt um aðalpersónurnar. Sögumaðurinn er sjálfhverf raggeit, vinur hans vammlaus og þrælslundaður. Ég kann illa við þá báða.

Samúð? Jú ég finn til samúðar með þeim á sama hátt og ég hef samúð með glæpamönnum og alkóhólistum. Það er vitræn samúð, siðferði fremur en tilfinning. Vitneskjan um að breiskleiki sé sammannlegur kvilli og að oftast séu gjörðir manna skiljanlegar, þótt þær séu ekki réttlætanlegar. En það er ekki samlíðunin með Ástu Sóllilju á jörðinni.

Flúin frá Satni

Framvegis mun Nornabúðin fagna 18. október til minningar um að þann dag beið ég í síðasta sinn í 20 mínútur eftir því að ná sambandi við þjónustuver Satans.

Ég er semsagt búin að flytja viðskipti búðarinnar til OgVodafone. Netið var tengt í dag og allt er fullkomið. Ef Vódafónn reynast mér ekki verr en Síminn (og það tel ég ótrúlegt þar sem ég hef aldrei átt viðskipti við nokkurt fyrirtæki sem veitir jafn lélega þjónustu) mun ég flytja heimasímann minn með öllu tilheyrandi þangað í desember, um leið og ég losna undan samningnum við Satan.

Og klára svo dæmið!

Lögmál:
Ef þú vilt fá eitthvað gert í hvelli, gerðu það þá sjálfur. Það tók mig 3 klst að vinna verkefni með skærum, penna og límstauk, sem prófessjónall með fullkomin tæki hefur ekki komist í á tveimur mánuðum.

Annað lögmál:
Ef þú ræður ekki við verkefnið, biddu þá einhvern sem er mjög upptekinn. Þeir sem hafa nægan tíma vita að þeir geta alltaf gert það og finna sér því eitthvað annað að dunda við. Þeir sem hafa engan tíma setja hinsvegar verkið á áætlun. Hið uppteknasta fólk reynist oftast örlátast á frítíma sinn.

Hvaðan kemur smekkurinn?

Þegar ég flutti út föðurhúsum breyttist mataræði mitt töluvert. Hýðishrísgrjón hvítlaukur, kjúklingabaunir og sveppir höfðu aldrei tekið pláss í skápum föður míns. Orafiskbollur í nærbuxnableikri sósu hef ég eldað einu sinni og makkarónusúpu einu sinni á þessu 21 ári, í báðum tilvikum að ósk annarra.

Ég hef hingað til haldið að kynslóð foreldra minna hefði almennt lélegan matarsmekk. Í dag horfi ég inn í minn eigin kæliskáp, fullan af einhverju kekkjóttu karrímauki með kóríanderlufsum, oblátum á stærð við pönnukökur, masókistapipar og jafnvel risastórri krukku af litlum grænum ertum og allskonar öðrum mat sem ég skil ekki. Ég hef oft velt því fyrir mér hver kaupi eiginlega svona mat. Svarið er fundið; það eru drengirnir mínir. Börnin sem ólust upp við milda pottrétti með mjúkri rjómasósu, svikinn héra, bakaðar kartöflur, gratíneraðan karfa, pasta með parmesanosti …

Er bragðskyn virkilega ekki félagsleg erfð?