Vitræn samúð

Ég var fyrst núna að lesa Flugdrekahlauparann. Þetta er góð bók, það vantar ekki, örlagasaga tveggja drengja sem alast upp í Afghanistan. Þetta er bók sem allir ættu að lesa en ég er samt ekki snortin. Sagan er til þess fallin að græta væmnisfrírri manneskju en mig en mér þykir bara ekkert vænt um aðalpersónurnar. Sögumaðurinn er sjálfhverf raggeit, vinur hans vammlaus og þrælslundaður. Ég kann illa við þá báða.

Samúð? Jú ég finn til samúðar með þeim á sama hátt og ég hef samúð með glæpamönnum og alkóhólistum. Það er vitræn samúð, siðferði fremur en tilfinning. Vitneskjan um að breiskleiki sé sammannlegur kvilli og að oftast séu gjörðir manna skiljanlegar, þótt þær séu ekki réttlætanlegar. En það er ekki samlíðunin með Ástu Sóllilju á jörðinni.