Það er málið

Auðvitað fer það ekki í taugarnar á nokkrum manni þótt fólk spili bingó á Austurvelli. Þeir eru heldur ekki margir sem taka það nærri sér þótt fólk beiti borgaralegri óhlýðni til að mótmæla jafn fáránlegum lögum og þeim að bingó skuli bannað á tilteknum degi. Það sem raunverulega fer fyrir brjóstið á ótrúlega mörgum er að þetta skuli gert í nafni félagsskapar sem vill að lög um trúfrelsi verði virt, að meðlimir Þjóðkirkjunnar greiði sjálfir fyrir sitt áhugamál og að fjölmiðlar hætti að halda úti ókeypis auglýsingarstarfsemi fyrir gervivísindamenn, gagnrýnislaust.

Þaulsetin

Nokkrar spurningar sem vakna við lestur þessarar fréttar.

-Var klósettið þá ekkert þrifið í tvö ár?
-Af hverju datt hún ekki af klósettinu þegar hún sofnaði?
-Hvar kúkaði kærastinn?
-Ef klósettsetur ná að gróa inn í hold fólks á tveimur árum, hvernig stendur þá á því að maður heyrir aldrei fréttir af inngrónum giftingarhringjum, eyrnalokkum, úrum og öðru skarti sem fólk gengur oft með áratugum saman?
-Spurði fólk sem kom í heimsókn aldrei óþægilegra spurninga?
-Fór kærastinn aldrei að heiman yfir helgi eða hver fóðraði hana þá á meðan?
-Hvaða afsökun gaf hún fjölskyldu og vinum fyrir að hitta engan svona lengi?
-Hvernig fór jólahald fram á heimilinu?

Firring

Verðið á lítilli leiguíbúð hefur tvöfaldast á aðeins fjórum árum og íbúðarkaup eru að verða óraunhæf fyrir flest venjulegt fólk.

Fyrir fjórum árum kostaði þrjú og fimm að fylla bílinn minn. Í dag fara rúm fimmþúsund á tankinn.

Þeir sem áður versluðu í Nóatúnum fara nú í Bónus.

Eitt hefur þó staðið í stað. Verðið á fegrunaraðgerðum.

Ömurlegt gildismat dómstóla

Enn ber ég í bakkafullan lækinn með tuggunni um undarleik þess að dæma menn í 9 ára fangelsi fyrir fíkniefnainnflutning á sama tíma og ofbeldismenn fá skilorðsbudið „skamm bara, svona gerir maður ekki.“ Af hverju viðgegnst svona réttafar þegar það stríðir augljóslega gegn siðferðisvitund meirihlutans. Jú það er vegna þess að meirihlutinn tekur þetta ekki nógu nærri sér til að gera eitthvað róttækara en að blogga um það.

Hér er kona sem kveðst tilbúin til að taka lögin í sínar hendur ef hún eða hennar fólk verði fyrir frekari árásum.

Viðeigandi

Merkir ekki sögnin að náða það sama og að fella niður refsingu eða milda hana? Dálítið seint í rassinn gripið verð ég að segja. Væri ekki nær að gefa þessu fólki uppreisn æru? Kirkjan gæti svo játað sekt sína fyrir þessar hroðalegu mannfórnir og gert yfirbót með því að gefa allar eigur sínar til samtaka sem berjast gegn valdi trúfélaga.

Afstæðiskenning dagsins

Grey Hannes fær miklu minna en kjellingin. Það er ljótt að gera svona upp á milli.

Mér finnst eitthvað sjúkt og rangt við að strákur, jafnaldri minn, geti verið svona fáránlega ríkur. Á hinn bóginn býst ég við að um alla veröld sé fólk sem finnst ég vera ósiðlega rík. Réttlætistilfinning mannskepnunnar er yfirleitt háð því sem hentar MÉR, NÚNA.

Upp á bak í beinni

Ég hefði haldið að „pólitísk staða“ gamla, góða Villa væri á hreinu.

Villi minn. Þú ert búinn að gera upp á bak í beinni. Þinn eigin flokkur vill ekki sjá þig. Póltísk staða þín er í skársta falli staða vorkunnarverðrar boðflennu. Það eina sem þú getur gert til að bjarga andlitinu er að draga þig í hlé og bíða eftir að einhver annar skandaliseri svo illilega að samanburðurinn verði þér hagstæður.

Habbðu mín ráð gæskur. Gráttu smávegis opinberlega, taktu þér svo frí.