Er gæludýrafóður það besta fyrir dýr?

Margir hafa sagt mér að hundar og kettir eigi helst ekki að fá neitt annað en þurrfóður. Kannski í lagi að gefa smá dósamat sem nammi ef maður vill dekra við dýrið en það eigi ekki að líta á neitt annað en sérhannað gæludýrafóður sem mat fyrir þau. Ástæðan ku vera sú að þurrfóðrið sé rétt samsett miðað við þarfir dýrsins, það fari vel með meltinguna, feldinn og sé á allan hátt hollt. Dýralæknar mæli með því og mest með dýrustu tegundum á markaðnum.

Nú vex þurrfóður ekki í náttúrunni og það hefur svona hvarflað að mér að þessi hugmynd sé komin frá þeim sem framleiða og selja gæludýrafóður. Mér hefur líka dottið í hug að þeir sem hafa beinan hag af því að sem mest seljist, séu kannski ekki alveg hlutlausir. Það hefur jafnvel hvarflað að mér að ef lyfjafyrirtæki telja rétt og gott að gera vel við lækna sem hugsanlega munu hafa áhrif á lyfjaval sjúklinga, þá sé ekki útilokað að dýrafóðursframleiðendur og dýralæknar tilheyri sama ‘tengslaneti’ (tengslanet er auðvitað allt annað og miklu fínna en klíka).

Hvað segja þeir sem hafa reynslu af gæludýrahaldi? Eru dýr sem lifa aðallega á þurrfóðri heilbrigðari og hamingjusamari en þau sem fá líka eða jafnvel eingöngu leifar af heimilismatnum?

Tjásur

Halda áfram að lesa

Í erlendum löndum

Ósköp leiðist mér að heyra fólk tala um (eða sjá skrifað) það sem gerist „í erlendum löndum“. Ýmislegt gerist bæði vont og gott, erlendis, í útlöndum eða í öðrum löndum. Finnist mönnum þetta ekki nógu fjölbreytilegt val má segja utan lands, í fjarskanum eða úti í hinum stóra heimi. Í alvöru, það hlýtur að vera mögulegt að orða þetta á skammlausri íslensku.

Látum öll börn skrifta 9 ára

Ég er að hugsa um að Gvuðlasta á föstudaginn langa.

Ég var boðin í fermingarveislu síðasta sunnudag og hitti þar sæg af skemmtilegu fólki, fékk dásemdar lambalæri, grillað á staðnum ásamt allskyns grænmeti, fylltum sveppum og öðru hnossgæti.

Það sem mér þótti áhugaverðast við þessa veislu var þó 9 ára telpa sem er Kaþólikki (sjálfsagt af einlægum áhuga). Hún sagði mér frá því að hún væri nýlega búin að fá sitt fyrsta sakramenti og til þess að svo mætti verða þurfti hún fyrst að skrifta. Hún hafði átt í mesta basli með að hugsa upp einhverja synd en mundi að lokum að hún hafði einhverju sinni gert sér upp höfuðverk þegar hana langaði meira að vera heima en fara í bíltúr. Bróðir hennar hafði lent í sömu vandræðum. Eina syndin sem hann mundi eftir var sú að hafa óhlýðnast föður sínum í boltaleik. Pabbinn hafði kallað til hans og beðið hann að kasta boltanum til systur sinnar en hann gaf á einhvern annan.

Það er nú gott til þess að vita að syndir þessara barna séu fyrirgefnar og sálir þeirra hreinsaðar af þessum glæpum gegn almættinu. Hverskonar syndaselir hefðu þau annars orðið?

Án trúar er ekkert siðferði.

Afdrif Nours

Ég hitti nokkra flóttamenn í gær, ekki reyndar Nour en ég frétti af honum og djöfuls fokking fokk hvað Íslendingar eru aumkunarverðir.

Nour fékk reyndar að koma aftur til landins en ekki sem flóttamaður. Þessi strákur er klár og duglegur. Hann var í vinnu áður en hundar valdstjórnarinnar handjárnuðu hann og sendu peninga- og símalausan úr landi að undirlagi svokallaðs mannréttindaráðherra (sem er eitthvert alvarlegasta dæmi um karl með píku sem fyrirfinnst á Íslandi) með rökunum, ‘ég er nú bara að vinna vinnuna mína.’

Nour fékk að snúa heim eftir margra vikna baráttu Helenar Harsitu og fleira góðs fólks, en nú fær hann ekkert atvinnuleyfi og á engan rétt á neinum bótum heldur. Hann er algjölega háður því að vinir hans sjái honum farborða og hefur engan raunhæfan möguleika á að nýta hæfileika sína. Hann er að því leyti verr settur en fangi að hann á ekki einu sinni rétt á lágmarks framfærslu.

Andúð mín á Útlendingastofun og Mannréttindaráðuneytinu er að komast á alvarlegt stig.
Ég spái því að túrtappasala aukist á næstu árum.

Smáábending

Ekkert samfélag hefur nokkru sinni þrifist án lista, fræða og afþreyingar. Hinsvegar hafa fjölmörg samfélög þrifist án stóriðju og offramleiðslu. Sennilega er eitt gott hláturskast líklegra til að auka lífsgæði fólks en heill farmur af hamingju í dós.

Hér eru tilmæli til þeirra sem vilja leggja niður opinber fjárframlög til menningarinnar á þeirri forsendu að það sé ekki hægt að éta hana: Hoppaðu upp í rassgatið á þér. Þegar þú ert búinn að éta eins og eitt klíó af áli.

Aðalmeðferð í máli Rachel Corrie

Í dag hefst í Haifa, aðalmeðferð í máli foreldra Rachel Corrie gegn ísraelska hernum. Þótt fjölskylda stúlkunnar eigi alla mína samúð og ég voni virkilega að þau fái einhvern vott af réttlæti úr þessum réttarhöldum sem þau eru búin að berjast fyrir í 7 ár, finnst mér samt frekar ógeðfellt að dauði þessa eina alþjóðaliða skuli hafa vakið svo miklu meiri athygli en málstaðurinn sem hún dó fyrir.

Getur einhvern útvegað mér kort af Nablus og nágrenni með latneskri stafagerð? Endilega hafið samband ef þið lumið á einu slíku. Netfangið er eva@norn.is