Er gæludýrafóður það besta fyrir dýr?

Margir hafa sagt mér að hundar og kettir eigi helst ekki að fá neitt annað en þurrfóður. Kannski í lagi að gefa smá dósamat sem nammi ef maður vill dekra við dýrið en það eigi ekki að líta á neitt annað en sérhannað gæludýrafóður sem mat fyrir þau. Ástæðan ku vera sú að þurrfóðrið sé rétt samsett miðað við þarfir dýrsins, það fari vel með meltinguna, feldinn og sé á allan hátt hollt. Dýralæknar mæli með því og mest með dýrustu tegundum á markaðnum.

Nú vex þurrfóður ekki í náttúrunni og það hefur svona hvarflað að mér að þessi hugmynd sé komin frá þeim sem framleiða og selja gæludýrafóður. Mér hefur líka dottið í hug að þeir sem hafa beinan hag af því að sem mest seljist, séu kannski ekki alveg hlutlausir. Það hefur jafnvel hvarflað að mér að ef lyfjafyrirtæki telja rétt og gott að gera vel við lækna sem hugsanlega munu hafa áhrif á lyfjaval sjúklinga, þá sé ekki útilokað að dýrafóðursframleiðendur og dýralæknar tilheyri sama ‘tengslaneti’ (tengslanet er auðvitað allt annað og miklu fínna en klíka).

Hvað segja þeir sem hafa reynslu af gæludýrahaldi? Eru dýr sem lifa aðallega á þurrfóðri heilbrigðari og hamingjusamari en þau sem fá líka eða jafnvel eingöngu leifar af heimilismatnum?

Tjásur

Öll dýr sem ég þekki sem hafa borðað mikinn heimilismat hafa verið of feit, andfúl og með sjúskaðan feld. Einnig eru þeir kettir sem ég þekki til sem borða mikinn blautmat frekar feitir og andfúlir. Ég veit um einn sem var hvorutveggja og borðaði blautmat og stundum heimilismat, og það er þvílíkur munur á honum eftir að hann fékk þurrmat. Það er alveg rétt að framleiðendum ber ekki að treysta fullkomlega, þar sem þeir bera sína hagsmuni ofar hagsmunum neytenda, og að dýr mega alveg borða matarleifar, en ef þú ætlar að byggja mataræði dýrsins nær algjörlega á því verða niðurstöðurnar alltaf slæmar held ég. Melting dýra er allt öðruvísi en manna og því hentar ekki þeim endilega það sem hentar okkur.

Posted by: Alexander | 6.05.2010 | 10:18:03

Hundarnir í sveitinni minni fengu alltaf bara heimilismat og ekki var einn einasti þeirra feitur eða andfúll og feldir þeirra voru alltaf þykkir, glansandi og fallegir.

Posted by: Jóhanna | 6.05.2010 | 12:26:32

Ég hefði átt að taka fram að ég var að tala um ketti. Ég hef litla sem enga reynslu af hundum.

Posted by: Alexander | 6.05.2010 | 14:18:24

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.