Látum öll börn skrifta 9 ára

Ég er að hugsa um að Gvuðlasta á föstudaginn langa.

Ég var boðin í fermingarveislu síðasta sunnudag og hitti þar sæg af skemmtilegu fólki, fékk dásemdar lambalæri, grillað á staðnum ásamt allskyns grænmeti, fylltum sveppum og öðru hnossgæti.

Það sem mér þótti áhugaverðast við þessa veislu var þó 9 ára telpa sem er Kaþólikki (sjálfsagt af einlægum áhuga). Hún sagði mér frá því að hún væri nýlega búin að fá sitt fyrsta sakramenti og til þess að svo mætti verða þurfti hún fyrst að skrifta. Hún hafði átt í mesta basli með að hugsa upp einhverja synd en mundi að lokum að hún hafði einhverju sinni gert sér upp höfuðverk þegar hana langaði meira að vera heima en fara í bíltúr. Bróðir hennar hafði lent í sömu vandræðum. Eina syndin sem hann mundi eftir var sú að hafa óhlýðnast föður sínum í boltaleik. Pabbinn hafði kallað til hans og beðið hann að kasta boltanum til systur sinnar en hann gaf á einhvern annan.

Það er nú gott til þess að vita að syndir þessara barna séu fyrirgefnar og sálir þeirra hreinsaðar af þessum glæpum gegn almættinu. Hverskonar syndaselir hefðu þau annars orðið?

Án trúar er ekkert siðferði.