Einu sinni var lítill drengur sem hét Henry Turay. Hann ólst upp í Sierra Leone og það var oft erfitt því borgarastyrjöld geisaði í landinu. Mamma Henrys litla var virk í einni af hinum stríðandi hreyfingum en hún var ekkert sérstaklega vinsæl meðal foringjanna því hún var óttalegur vesenisti og átti það til að hafa aðrar skoðanir en þeir.
Þegar Henry varð fullorðinn komu leiðtogar hreyfingarinnar að máli við móður hans og tjáðu henni að nú væri tímabært að drengurinn færi að sinna þeirri skyldu sinni að drepa mann og annan. Móðir Henrys brást við eins og dæmigerð kelling og hélt því fram að 11 ára karlmaður væri barn og alls ekki fær um að standa í hernaði. Það var engu tauti við hana komandi og þegar þeir bönkuðu upp á til að sækja hann samt, var hún búin að koma honum í felur. Það líkaði foringjum hennar stórilla og til að leggja áherslu á orð sín, hjuggu þeir af henni aðra höndina. Stuttu síðar dó hún af sýkingu sem hljóp í sárið.
Fjölskylda Henrys var nú fallin í ónáð hjá hreyfingunni en svo vildi til að mamma Henrys átti vini sem voru haldnir sömu barnaverndarvæmninni og hún sjálf. Þeir komu drengum til kaþólsks prests sem faldi hann og fóstraði næstu árin. Þegar Henry var orðinn 16 ára, kom presturinn honum til Þýskalands þar sem hann sótti um hæli sem pólitískur flóttamaður. Hann fékk dvalarleyfi um tíma en ekki atvinnuleyfi, og dró fram lífið á bótum sem dugðu aðeins fyrir helmingi framfærslu hans. Hann þróaði með sér ýmsa sjúkdóma af völdum næringarskorts og ber af því varanlegan skaða.
Þegar dvalarleyfið rann út dvaldist Henry ólöglega í Evrópu í nokkur ár. Hann bjó við örbirgð og stöðugt öryggisleysi og á endanum ákvað hann að flýja til Kanada, áður en hann yrði sendur út í opinn dauðann. Hann millilenti á Íslandi, þar sem hann var handtekinn og stungið í fangelsi, án þess að útlendingastofnun hefði einu sinni tekið mál hans til skoðunar. Honum var synjað um landvistarleyfi aðeins viku eftir að hann sótti um hæli en það er útilokað að þessi rasistastofnun hafi náð því að rannsaka mál hans á svo stuttum tíma.
Henry Turay hefur verið á flótta í meira en 13 ár. Hann óttast svo mikið um líf sitt að hann hefur ákveðið að vera í felum þar til honum hefur verið tryggt hæli á Íslandi. Þegar þetta er ritað hefur hann verið í felum í 19 vikur. Félagsáhyggjuöflin í ríkisstjórninni hafa engan áhuga á málinu enda eru þau upptekin við að þrefa um hvort sé ábyrgara að vera köttur eða kind. Má þar vart á milli sjá enda hafa kettir jafnt sem sauðir afsalað sér ábyrgðinni á lífi Henrys Turay í hendur hægri sinnaðs dómsmálaráðherra, þeirrar sömu konu og undirritaði dauðadóminn yfir Paul Ramses þegar hún var ráðuneytisstjóri Björns Bjarnasonar.
Það var almenningur á Íslandi sem bjargaði lífi Pauls Ramses og Birgitta nokkur Jónsdóttir hélt utan um undirskriftasöfnunina. Nú er þessi mikla andspyrnukona illu heilli gengin til liðs við Fáþingi Íslendinga en ég trúi því nú samt að þrátt fyrir það feilspor hafi hún ennþá samvisku. Ég vil því biðja þá sem sjá eitthvað athugavert við að maður þurfi að leynast mánuðum saman af ótta við að Íslendingar stefni honum í lífshættu, um að skora á Birgittu að sýna sömu réttlætiskennd innan þings og hún gerði utan þess og knýja fram svör um það hvernig Íslendingar ætli að taka á þessu máli.