Aðilar eiga aðild

Sumir virðast álíta að gott mál hljóti að vera afskaplega formlegt. Fólk sem annars er prýðilega talandi á það til að skrúfa málfar sitt upp við ákveðnar aðstæður, t.d. á fundum eða ef það kemur fram í fjölmiðlum. Útkoman verður oft beinlínis neyðarleg. T.d. virðast margir telja að það sé viðeigandi að nota leiðindaorðið aðili hvar sem því verður viðkomið. Engu er líkara en að þeir sem ofnota þetta orð skilji ekki merkingu þess en haldi að aðili sé fínna, merkilegra eða formlegra orð yfir mann. Þannig verða til setningar svosem: “fimmtán aðilar taka þátt í keppninni” í stað fimmtán manns. “Lögreglan ræddi við þrjá aðila” í stað þrjá menn, (sem eiga ekki endilega aðild að málinu).

Aðili er sá sem á aðild að einhverju, t.d. dómsmáli eða samkomulagi. Þetta orð er ónothæft í nokkurri annarri merkingu.

Efstastigsheilkennið

Málið er í stöðugri þróun. Stundum skipta orð smám saman um orðflokk. Sennilega eru greinilegustu dæmin um það samsetningar úr atviksorðum og sögnum sem eru að breytast í lýsingarorð. Þannig má deila um hvort háttsettur er lýsingarorð sem beygist; háttsettur, háttsettari, háttsettastur eða atviksorð + sögn.

Iðulega tala fjölmiðlar um háttsettustu menn landsins. Sjálfri finnst mér rökrétt að tala um hæst settu menn landsins. Sömuleiðis vil ég að einn sé betur stæður en annar í stað þess að vera velstæðari.

Þetta er umdeilanlegt, enn a.m.k. Þó er engum vafa undirorpið að rétt er að tala um fólk á skítalaunum sem hina lægst launuðu. Með því að tala um þá lægst launuðustu erum við bæði búin að setja atviksorð í efstastig og einnig breyta sagnorði í lýsingarorð. Og það gengur bara ekki.

Ég get ekki gert upp við mig hvað mér finnst mest hræðilegast; veltengdasta fyrirtækið, beststæðasta fyrirtækið eða lægstlaunaðasti samfélagshópurinn.

Að virða skoðanir

Opinions_89133c_3054273Út frá síðasta pistli mínum spannst dálítil umræða um mismunandi skoðanir og mér finnst sú umræða gefa tilefni til að varpa fram spurningu um það hvort mönnum beri alltaf, stundum eða aldrei siðferðileg skylda til að virða skoðanir annarra og ef ekki alltaf, hvernig eigum við þá að meta það hvaða skoðanir eru virðingarverðar?

Mér þætti einnig forvitnilegt að sjá hugmyndir þeirra sem þetta lesa, um það hvað felst í raun í því að virða skoðanir annarra. Get ég „virt“ skoðun sem stríðir gegn samvisku minni? Eða merkir það að virða skoðanir annarra í raun ekki annað en það að þær skipti okkur ekki nógu miklu máli til þess að við nennum að mótmæla þeim af sannfæringu? Hvaða hugmyndir hefur þú um þessa hluti?

 

Tvenns konar beyging nægir

Algengt er að fólk blandi saman þágufalli töluorðanna tveir og þrír.
Þessi orð eru til með tvennskonar beygingu: sumir segja tveimur og þremur í þágufalli, aðrir tveim og þrem. Hvorttveggja er jafnrétthátt en orðmyndirnar tvem og tvemur eru hinsvegar afleitir sambræðingar þessara tveggja orða.

Tvenns konar beyging er nógu flókin þótt við bætum ekki fleiri möguleikum við. Temjum okkur að segja tveim eða tveimur með greinilegu ei-i. Og kennum börnum okkar það líka.

Lægri flugfargjöld

Það er fagnaðarefni fyrir hinn almenna neytanda þegar flugfélög lækka fargjöld sín. Það er hins vegar hreint ekki eins skemmtilegt þegar lækkunin er tilkynnt með auglýsingum um “ódýrari fargjöld”.

Gjöld geta verið há eða lág og mörgum finnst þeir greiða of háa skatta. Gjöld geta hins vegar ekki verið ódýr, ekki frekar en skattarnir geta verið dýrir. Sömuleiðis getur vara annað hvort verið dýr eða á háu verði, verðið er hins vegar ekki dýrt. Fögnum lágum fargjöldum og ódýrum ferðum en ruglum þessu tvennu ekki saman.

Réttu upp hönd ef þú þarft aðstoð

Í síðasta pistli ræddi ég beygingu orðsins hönd en margir virðast rugla saman þolfalli þess og þágufalli. Þó er mun hroðalegri villa tengd orðinu hönd að ryðja sér til rúms en það er orðmyndin hend, sem er alls ekki til í íslensku. Skólabörn segjast oft “rétta upp hend” til að gefa kennara merki um að þau þurfi aðstoð og einhentur maður er sagður “bara með eina hend”.

Leiðréttum þá sem nota orðahroða af þessu tagi hvenær sem við heyrum –líka fullorðna. Kennarar eru sennilega í betri aðstöðu en flestir aðrir þar sem vinna þeirra felst að hluta til í því að sinna börnum með hendur á lofti. Ég ætlast beinlínis til þess af kennurum að þeir brýni fyrir nemendum að rétta upp hönd en ekki hend.

Hönd, um hönd, frá hendi, til handar

Beyging orðsins hönd er nokkuð á reiki og Beygingarlýsing íslensks nútímamáls gefur upp tvennskonar beygingu.

Mér finnst „eðlilegasta beygingin“ vera: Hönd, um hönd, frá hendi, til handar en oft virðist tilviljun háð hvort fólk notar þolfall eða þágufall þessa orðs í daglegu tali. Þannig heyrir maður oft villur á borð við ég tók í hendina á honum, hvora hendina viltu? og mér er illt í höndinni. Mér finnst fara betur á því að segja ég tók í höndina á honum, hvora höndina viltu? Mér er illt í hendinni. 

Heimurinn væri betri ef ég fengi að ráða því hvernig fólk talar. Eða a.m.k. íslenskan.