Út frá síðasta pistli mínum spannst dálítil umræða um mismunandi skoðanir og mér finnst sú umræða gefa tilefni til að varpa fram spurningu um það hvort mönnum beri alltaf, stundum eða aldrei siðferðileg skylda til að virða skoðanir annarra og ef ekki alltaf, hvernig eigum við þá að meta það hvaða skoðanir eru virðingarverðar?
Mér þætti einnig forvitnilegt að sjá hugmyndir þeirra sem þetta lesa, um það hvað felst í raun í því að virða skoðanir annarra. Get ég „virt“ skoðun sem stríðir gegn samvisku minni? Eða merkir það að virða skoðanir annarra í raun ekki annað en það að þær skipti okkur ekki nógu miklu máli til þess að við nennum að mótmæla þeim af sannfæringu? Hvaða hugmyndir hefur þú um þessa hluti?
——————————–
Þorkell @ 27/09 18.10
Já, ég get virt skoðanir sem stríða gegn samvisku minni, svo fremur sem þær skaða ekki aðra. Þar myndi ég draga línuna.
——————————–
eva @ 27/09 20.03
Athyglisvert svar Keli. En hvað með skoðanir sem ekki væru mönnum skaðlegar, fengju þær fram að ganga, heldur öðrum verum lífríkisins? Berð þú t.d. virðingu fyrir þeirri skoðun að það sé ekki tiltökumál þótt ákveðnum dýrategundum sé útrýmt svo framarlega sem þær skipti engum sköpum fyrir lífríkið og fæðukeðjuna?
——————————–
eva @ 27/09 20.07
Og hvað með gráa svæðið? Hvenær er verið að skaða einhvern og hvenær ekki? Margir álíta t.d. að fóstureyðing skaði engan. Berð þú virðingu fyrir þeirri skoðun að konur ættu að hafa óskorað frelsi til að gangast undir fóstureyðingu?
Hvað með þá skoðun að mönnum ætti að vera frjálst að hafa kynmök við dýr, svo fremi sem dýrið sýni fullan áhuga á því? Berðu virðingu fyrir þeirri skoðun eða bendir eitthvað sérstakt til þess að það skaði dýr að eiga slíkt samneyti við menn?
——————————–
Þorkell @ 27/09 22.43
Ok, ég skal breyta svari mínu. Ég virði skoðanir sem stríða gegn samvisku minni, svo fremur sem þær skaða ekki aðra og eru gerðar með þeirra samþyki.
Þar sem dýr geta ekki gefið samþyki fellur það utan þessarar línu. Hvað fóstureyðingu varðar þá ber ég litla virðingu fyrir þeim nema í undantekningartilfellum, þ.e. þegar líf móður er í hættu.
Þá er það ljóst að það skaðar vissulega aðra að drepa vissar dýrategundir, rétt eins og það skaðar aðra að eyðileggja menningarverðmæti. Þetta er sameign mannkynsins og skaðar því allt mannkynið ef hún glatast.
Auðvitað verða alltaf grá svæði og fólk verður aldrei sammála um hvar eigi að draga línuna. Það merkir samt ekki að maður geti ekki dregið línu. Maður einfaldlega neyðist til þess.
——————————–
Binni @ 27/09 22.58
Ég tek í sama streng og Keli. Finnst það reyndar bara vera common sense að virða skoðanir annarra þótt þær samræmist ekki manns eigin. Held að þú seilist æði langt, Eva, í að tiltaka dæmi sem snúast um annað og meira en almennar skoðanir. Varnaglinn „svo fremi sem þær skaða ekki aðra“ á tvímælalaust við um þessi atriði. Hvernig er það, leggið þið trúleysingjar þetta að jöfnu við trúarskoðanir (t.d. okkar Kela) eins og þær birtast hér á annáli?
——————————–
eva @ 27/09 23.22
Ég er sammála því að skoðanir sem gera ráð fyrir réttmæti þess að skaða aðra eru ekki virðingarverðar. Ég virði heldur ekki þá skoðun að réttlætanlegt sé að hafa mök við dýr, eða fólk sem ekki hefur forsendur til að gefa upplýst samþykki. Játa það þversagnakennda siðferði að telja rangt að hafa mök við skepnur en í lagi að taka líf þeirra, en það angrar samvisku mína ekkert þótt dýr séu alin til slátrunar.
Ég virði skoðanir sem ég er ósammála ef þær skipta mig litlu og eru studdar rökum. T.d. virði ég sjónarmið þeirra sem vilja að ríkið reki sjónvarpsstöð þótt ég vilji það ekki sjálf.
Hins vegar man ekki eftir neinni skoðun sem stríðir beinlínis gegn samvisku minni, sem ég ber virðingu fyrir. Kannski af því að nánast allt sem mér finnst rangt og ósiðlegt, er annaðhvort skaðlegt eða gengur gegn friðhelgi þeirra sem ekki eru færir um að taka ábyrgð á gjörðum sínum.
Geturðu nefnt dæmi um skoðun sem þú virðir þótt hún stríði gegn samvisku þinni?
——————————–
eva @ 27/09 23.31
Binni: Ég get ekki talað fyrir aðra trúleysingja en sjálfa mig enda hef ég ekki fylkt mér í neinn flokk sem hefur mótað sérstefnu í siðferðilegum málefnum eða tileinkað sér ákveðna afstöðu til trúmála.
Ég er ekki alveg viss um að ég skilji spurningu þína rétt. Ég legg hugmyndir um rétt og rangt í rauninni ekki „að jöfnu“ við trúarskoðanir. Allir hafa siðferðishugmyndir af einhverju tagi, hvort sem þeir eru trúaðir eða ekki og ég held að þær hugmyndir eigi sér oftast praktískan uppruna. Svarar þetta spurningunni eða misskil ég hana?
——————————–
Skúli @ 28/09 07.38
Eru það hártoganir að gera greinarmun á því að virða skoðanir og því að virða rétt til þess að hafa skoðanir (skoðanafrelsi þ.e.)?
Að mínu mati eru skoðanir í sjálfu sér ekki virðingarverðar – hvorki mínar eigin né annarra. Þvert á móti held ég það sé rétt og hollt að vega stöðugt að skoðunum (einkum okkar eigin) og prófa þær í sífellu. Í kjölfarið geta þær svo staðið óbreyttar, þær má betrumbæta eða þeim má kasta á glæ. Þetta á við um trúarskoðanir sem aðrar.
Skoðanafrelsið á hinn bóginn er svo hluti þess að virða annað fólk og þ.m. rétt þess til þess að hugsa, tala og vera eins og það vill. Frelsi þetta á sér sín takmörk eins og annað í þessum heimi. Takmörk skoðanafrelsis hljóta að liggja í því hversu hættulegar skoðanir geta verið (- einkum þegar þeim er sýnd of mikil VIRÐING!)
——————————–
eva @ 28/09 15.01
Skúli: Ég virði hvorki skoðanir sem ég tel ósiðlegar og skaðlegar, né ber ég virðingu fyrir rétti fólks til skoðana sem stríða gegn samvisku minni.
Það er vitanlega ógjörningur að setja lög sem ná yfir hugsanir en það er allavega hægt að banna tjáningu ákveðinna skoðana og mér finnst sjálfsagt að setja tjáningarfrelsinu skorður.
——————————–
birgir.com @ 28/09 15.44
Í það minnsta er mikilvægt að fólk fái að gagnrýna skoðanir hvers annars og enginn telji skoðanir sínar yfir gagnrýni hafnar. Aðeins þannig skilar okkur eitthvað fram á veg.
——————————–
Matti Á. @ 28/09 19.21
Skondið að sjá hversu blindir þið trúmenn eruð á drullumall Binna en stökkvið upp og verjið hann þegar ég kasta skítnum til baka. Hræsni?
Jón, ég hef skrifað meira um leikskólaprestinn í dagbókina mína, ef þú hefur einhvern áhuga á því máli getur þú skoðað það sem ég hef skrifað þar. Ég vísa þar í öll skrif mín um þetta mál.
En eins og ég skrifa um í nýjasta pistli mínum um þetta mál, virðist sem þið trúmenn séuð gjörsamlega lausir við þann hæfileika að setja ykkur í spor annarra og því ekki nokkur von til að þið sjáið nokkuð að því að Séra Bolli Pétur Bollason prediki í opinberum Leikskóla.
——————————–
Matti Á. @ 28/09 19.22
Þessi athugasemd átti að sjálfsögðu að vera í hinum þræðinum.
——————————–
Skúli @ 28/09 22.09
OK. Skoðanafrelsi verða ekki e.t.v. takmörk sett enda er ekki hægt að setja skorður á hugsanir fólks. Tjáningarfrelsinu ber h.v. að setja ákveðnar skorður enda getum við með orðum okkar skaðað náungann.
„Enginn ætti að telja skoðanir sínar yfir gagnrýni hafnar“ – einmitt: skoðanir á ekki að virða!
Því má svo bæta við í lokin að umræða þessi er ekki abstrakt heldur snertir veruleika okkar og samskipti á fjölhyggjutímum. Hér í Svíþjóð eru menn t.a.m. í ægilegum vanda í tengslum við þetta.
——————————–
birgir.com @ 29/09 14.06
Endilega segðu okkur nánar af því, Skúli!
——————————–
Skúli @ 29/09 20.15
Mér varð hugsað til þess vanda sem ítrekað kemur upp í samskiptum yfirvalda hér við ýmsa hópa nýbúa sem hafa allt aðra sýn á samskipti kynjanna og kynslóðanna en mellanSvensonarnir hafa og raunar flestir aðrir Vesturlandabúar.
Dæmin eru auðvitað velþekkt: í mörgum þessara menningarsamféaga þykja líkamlegar refsingar eðlilegur þáttur í uppeldi barna, hjónabönd eru ákveðin af foreldrum, mikill munur eru á réttindum kynjanna, þá tíðkast að umskera stúlkur og fleira mætti nefna sem misbýður réttlætiskenndinni eða vekur jafnvel upp viðbjóð.
Þetta er í raun ægileg þverstæða: með því að bera virðingu fyrir menningarlegri arfleifð þeirra og þeim skoðunum sem af henni sprettur er um leið stuðlað að því að einstaklingar fái ekki sjálfir að taka mikilvægustu ákvarðanir lífsins og gengið er freklega á mannréttindi þeirra og frelsi.
Ofan á þetta er sá tónn gefinn að ein menning sé annarri fremri – en slíkar skoðanir hafa löngum þótt lítils virði hér í Sverige.
——————————–
eva @ 29/09 22.32
Dæmið sem þú nefnir Skúli, er einmitt dæmi um siðferði sem ég get ekki virt, vegna þess að það stríðir gegn samvisku minni að slíkar aðgerðir séu framkvæmdar án upplýsts samþykkis fórnarlambsins.
Ég virði skoðanir sem skipta mig litu, og stundum skoðanir sem stríða gegn skynsemi minni. Ég HEF m.a.s. skoðanir sem stríða gegn skynsemi minni. Ég finn hins vegar enga skoðun sem ofbýður samvisku minni sem ég get hugsað mér að virða.
Ættum við að virða skoðanir sem samviska okkar er ósátt við?
——————————–
eva @ 29/09 22.38
Já og eitt enn Skúli, bara til að vera viss um að við tölum sama tungumál; mér sýnist þú leggja það að jöfnu að virða skoðun og telja hana hafna yfir gagnrýni. Skil ég þig rétt?
Þegar ég tala um að ég virði skoðanir annarra, á ég ekki við að ég geti ekki eða vilji ekki gagnrýna þær, heldur að ég viðurkenni að þær eigi rétt á sér sem innlegg í umræðuna og að vel megi taka tillit til þeirra, allavega að einhverju leyti.
——————————–
Skúli @ 30/09 15.50
Virðing, skv. mínum skilningi, felst í því að leyfa einhverju að vera eins og það er án þess að reyna að breyta því. Við höldum okkur í ákveðinni fjarlægð frá því sem við virðum.
Eins og ég sagði kann þetta að líta út sem orðhengilsháttur – en ég geri þarna ákveðinn greinarmun og ég held raunar skilningur manna á „skoðanavirðingu“ sé margbreytilegri og óljósari en margur ætlar þrátt fyrir það að þarna sé komin ein aðal kennisetning nútímans.
„Að virða skoðanir annarra“ hljómar oft í mínum eyrum sem hálfgerð tugga, merkingarlaus í besta falli en stundum hættuleg eins og í þeim tilvikum sem við bæði nefnum.
Að ræða andstæðar skoðanir, líta á þær sem innlegg í umræðuna, er ekki að virða þær skv. þessu heldur tökumst við á um þær og berum saman við okkar.
——————————–
eva @ 30/09 18.48
Góð skilgreining Skúli. Hún vekur reyndar fleiri spurningar hjá mér. T.d. þá hvort það sé raunhæft skv þessari skilgreiningu að virða skoðanir yfirhöfuð nema manni sé gjörsamlega skítsama um málið? Getur maður með góðri samvisku þagað þunnu hljóði yfir einhverju sem maður er ósammála?
——————————–
Skúli @ 30/09 19.23
Óspennandi skoðanir látum við í friði af því við nennum ekki virða þær fyrir okkur!
Sumsé:
skoðanir eru ekki virðingarverðar. :I
Fólk er það hins vegar. 🙂
——————————–
birgir.com @ 30/09 21.56
Amen!