Uns sekt er sönnuð

Ætli söluhagnaður gærdagsins hafi náð sögulegu hámarki hjá DV?
Ef svo er hljóta þeir að vera glaðir.
Ég verð allavega alltaf glöð þegar fleiri krónur koma í kassann en ég átti von á.

Spurningin sem flestir spyrja sig hinsvegar er hvað má það kosta?

Hvað ætli líf hans hafi skilað DV mörgum þúsundköllum?

Allt í heilanum

Ég las einusinni grein í Lifandi vísindum þar sem kemur fram að lundarfar sé líkamlegt. Einhver mekanismi í heilanum á að vera ástæða þess að sumir eru glaðlyndari en aðrir án þess að ytri aðstæður skýri það. Gott ef það voru ekki líka Lifandi vísindi sem birtu grein um að tilhneiging til framhjáhalds væri genatísk.

Eru vísindin smátt og smátt að svipta manninn allri ábyrgð á sjálfum sér og hegðun sinni? Er það þá rétt, gott og æskilegt? Er kannski bara gott mál ef hægt er að rækta fólk með heppilega eiginleika? Framleiða glaðlynt, bjartsýnt og heiðarlegt fólk sem heldur tryggð við maka sinn? Af hverju ekki? Einhverntíma kemur að því að við getum stjórnað þessu án þess að eyða fóstrum.

Við viljum útrýma sjúkdómum og meðfæddri fötlun. Af hverju ekki alveg eins skaðlegum karaktereinkennum? Af hverju finnst mér það svona miklu óhugnanlegra? Það er auðvitað möguleikinn á því að framleiða hlýðið fólk sem auðvelt er að þrælka og stjórna sem skelfir mig en ekki bara það. Mér finnst tilhugsunin ógeðfelld í eðli sínu.

Með unga í maganum

downloadÁ vísi.is er þessa frétt að finna:

Þrettán ára gömul risapanda í dýragarði í San Diego eignaðist í gær unga. Unginn kom í heiminn eftir þriggja klukkutíma erfiðar hríðir en annar ungi sem pandan bar einnig dó í maganum á henni.

Úff! ég segi nú ekki annað. Eina spendýrið sem ég veit til þess að hafi lifandi ungviði í “maganum” er Grýla. Magi er nefnilega líffæri sem er notað til að melta fæðu en ekki til að bera afkvæmi. Maginn er ásamt fleiri líffærum, þ.á.m. legi (hjá kvendýrum) staðsettur í kviðnum. Það er eðlilegt að börn og aðrir illa upplýstir óvitar rugli þessu tvennu saman og tali um að ólétt spendýr séu með börn eða unga “í maganum” en ég vona að flestir séu nú komnir með þetta á hreint um það leyti sem þeir ljúka grunnskólanámi.

Sylvía Nótt – úff

iceland06Ég horfi mjög sjaldan á sjónvarp og það var ekki fyrr en í kvöld sem ég sá þessa margumtöluðu Sylvíu Nótt. Fimm mínútur dugðu mér alveg. Hvaða eymdarinnar menningaramlóðar hafa eiginlega húmor fyrir þessu? Maður fær á tilfinninguna að þetta sé stelpa sem langaði alltaf að verða Spaugstofan þegar hún yrði stór en hafði bara ekki hæfileika.

Sennilega er hugmyndin með þessum þáttum sú að tékka á því hvernig venjulegt fólk bregst við þegar fáviti er látinn taka viðtal við það. Niðurstaðan kemur ekki á óvart; flestir reyna sennilega bara að halda andlitinu og bíða eftir að þessu bulli ljúki án þess að þeir þurfi að sýna verulegan dónaskap. Athyglin beinist því að fávitagangi stúlkunnar en ekki viðbrögðum viðmælandans. Hugsanlega er fyrirmyndin að Sylvíu Nótt sjónvarpsviðtöl Bridget Jones en stóri munurinn er sá að Bridget Jones er bæði fyndin og einlæg. Spurning hvort sé réttlætanlegt að reyna að gera grín að treggáfuðu fólki á þennan hátt. Þetta er nefnilega ekki einu sinni fyndið, bara ægilega pínlegt.

Það mikilvægasta

Hversvegna ég læt eins og ekkert í veröldinni geti skipt meira máli en framhaldsnám? Það skal ég segja þér yndið mitt.

Auðvitað er ýmislegt fleira sem skiptir máli í lífinu. Reyndar held ég að á listanum yfir lyklana að lífshamingjunni sé menntun alls ekki efst. Ástrík fjölskylda, góð heilsa og helvítis hellingur af peningum koma á undan. Samt sem áður er ekkert af þessu mikilvægara en að verða sér úti um góða menntun. Það er vegna þess að menntun (og þá á ég ekki bara við skólalærdóm heldur alla þá þekkingu, reynslu og viðhorfamótun sem augða líf þitt) er nefnilega það einasta eina í veröldinni sem enginn getur nokkurn tíma tekið frá þér.

Og hundskastu svo til að skrá þig í háskólanám, eigi síðar en í hvelli.

Segðu þína skoðun

Minn innri málfræðingur fékk frekjukast í gær. Sá einhversstaðar eitthvað á þessa leið:

Hefur þú fengið punkt fyrir umferðarlagabrot? Farðu inn á eitthvað.is og segðu þína skoðun.

HALLÓ! Hefur maður yfirhöfuð skoðun á því hvort maður hefur fengið punkt eða ekki? Er þetta ekki einföld staðreyndaspurning? Ég hef alltaf haldið að skoðanir væru í eðli sínu umdeilanlegar. Hefur það eitthvað breyst?

Kenning mín um Júró

Mér hálfleiðast þessar samsæriskenningar um þá hallærislegu keppni sem kennd er við Júra. Austurblokkin stendur saman, Norðurlöndin standa saman og þetta er allt pólitík og sjóv og allt það.

Hugsanlega er eitthvað til í þessu en er ekki mögulegt að fólk sé almennt bara hrifnara af því sem það þekkir og þessvegna sé sennilegara að Eistar fíli lagið frá Lettlandi en Danmörku?

Ekki svo að skilja að ég viti hvernig stigin féllu, ég horfði ekki á keppnina og tók bara svona dæmi úr lausu lofti.