Ekki benda á mig

Það er eitthvað svo subbulegt við að einn maður fái 900 milljónir fyrir að hætta að vinna.
Svo subbulegt að við getum sameinast um að hneykslast á því að þetta forríka kapítalistasvín skuli sofa á næturnar.
Allavega á meðan við hugsum sem minnst út í það að meðalmennið á Íslandi er tekjuhærra en 80% jarðarbúa og á samt ekki við neina svefnerfiðleika að stríða vegna auðæva sinna. Sumir hinsvegar sofa illa af fjárhagsáhyggjum þrátt fyrir þau.

Lögmál: Sá er er ósiðlega ríkur hlýtur alltaf að vera ríkari en ég.

Lögmál

Ég hugsaði sem svo að stúlkan hlyti að hafa flúið afskaplega hörmulegt ástand eða vera í einhverri þeirri aðstöðu sem réttlætti að hún fengi forgang. Ef þetta er allur sannleikurinn, þurfa þá ekki allir meðlimir Allsherjarnefndar að segja af sér með skömm?

Ég get alveg trúað hvaða þingmanni sem er, að Jóhönnu Sigurðardóttur einni undanskilinni, til að reyna að beita áhrifum sínum í slíku máli, það er bara mannlegt. Öllu verra er ef nefndir á vegum hins opinbera, sem eiga að gæta hlutleysis, láta undan þrýstingi eða hygla einhverjum fyrir klíkuskap. Ég vona að það sé ekki raunin en hugsanlega sannast hér enn og aftur það sem mér gengur iðulega svo illa að trúa; að hlutirnir eru venjulega nákvæmlega eins og þeir líta út fyrir að vera.

 

Ég efast

Klæðskiptingar á steinöld??? Gaman þætti mér að sjá hvernig dragdrottningar steinaldar klæddu sig.

Ég verð að játa að ég skil nú ekki alveg hvernig Venus frá Willendorf færir sönnur á stóðlífi steinaldarmanna. Getur ekki alveg eins verið að hún hafi verið hugsuð sem forvörn gegn offitu?

Tjásur:

Halda áfram að lesa

Þú skalt ekki trúa þínum eigin augum

Fjölmiðlar beðnir að halda sig á mottunni og almenningur um að trúa þeim ekki.

Æjæ hvað það er nú sárt að almenningur skyldi trúa myndbandsupptökum af framgöngu lögreglunnar fyrir austan síðasta sumar. Uppáhaldsmyndskeiðið mitt er þegar yfirmaður í lögreglunni ræðst á ljósmyndara sjónvarpsins fyrir utan lögreglustöðina á Eglisstöðum. Fjárans ósvífnin hjá RÚV að vera að sýna það í sjónvarpi.

Ætli almenningur trúi ekki bara því sem honum finnst trúlegast.

Sinnaskipti

Mikið er ánægjulegt að sjá að Sjálfstæðisflokkurinn skuli allt í einu leggja svona mikla áherslu á umhverfismálin og velferðarkerfið. Hér sannast hið augljósa, að ekkert er valdhöfum hollara en að verða dálítið óöruggir um stöðu sína, nema ef skyldi vera það að sjá fram á hroðalegustu flengingu í sögu flokksins.

Ógnin

Gæti ekki hugsast að Íranir væru til í að hætta þessu úranrugli þegar bæði Bandaríkjaríkamenn og Ísraelsmenn eru búnir að samþykkja að eyða öllum sínum gereyðingarvopnum og gangast undir alþjóðlegt eftirlit með vopnaeign sinni og hergagnaframleiðslu? Ég held satt að segja að þeir yrðu bara dauðfegnir.

Ef það er heimsfriður sem Bússa og félögum er svona umhugað um, þá hljóta þeir að bjóða upp á það einkar sanngjarna samkomulag. Mér hrís hugur við tilhugsuninni um að kjarorkuvopnaframleiðslu, hvort sem er í Íran eða annarsstaðar en það er ekki við því að búast að nokkur þjóð sé sátt við það að fá ekki tækifæri til að verja sig gegn stórveldi sem hefur hvað eftir annað valtað yfir aðrar þjóðir í nafni Gvuðs og mannréttinda og á í fórum sínum fleiri kjarnorkusprengjur en nokkur önnur þjóð.

Það er ekki siðleysi Írana sem ógnar veröldinni, heldur sértæk frekjuröskun yfirvalda í Bandaríkjunum.