Afnemum skólaskyldu

Stærðfærðitími eftir Leonóru Dan

Þegar ég segist vilja afnema skólaskyldu rekur fólk upp stór augu. Eða þá að það rúllar augunum. Hugmyndin þykir fráleit. Menn sjá fyrir sér hroðalegt óreiðusamfélag þar sem stór hluti þýðisins er ólæs og gerir helst ekkert annað en að spila tölvuleiki og reykja hass. Halda áfram að lesa

Heilaryksugan

Mig dreymdi að búið væri að finna upp heilaryksugu, sem hreinsaði burt dauðar frumur og önnur óhreinindi sem settust í heilafellingarnar og ollu elliglöpum. Svona eitthvað líkt og þegar tölvan verður hægvirk og þarf að hreinsa hana. Þetta var frekar einföld aðgerð, bara boruð nokkur göt í höfuðkúpuna, ryksugað og heilinn svo skolaður með edikblöndu. Tækið leit út eins og lyklaborðsryksuga með löngum, sveigjanlegum stút. Mig langar í svona tæki.

Allt önnur Njála

Sáum Njálu í Borgarleikhúsinu í gærkvöld. Einhverju hefur slegið saman hjá mér því ég taldi mig hafa séð Jón Viðar hrósa sýningunni en áttaði mig fljótlega á því að það hlaut að vera misskilningur. Hún er skemmtileg en skortir dýpt, ofurfeminísk sýning og yfirmáta sjálfhverf þar sem áhorfandinn er ekki aðeins sífellt minntur á að hann er í leikhúsi, heldur einnig á að leikendur beri nöfn og eigi sér feril. Halda áfram að lesa

Andmælarétturinn

Draumfarir að morgni eftir andvökunótt:

Einar segir mér að Umboðsmaður Alþingis sé að koma í mat og að það sé best að gefa honum „andmælarétt“ og hafa kartöflubáta með. Var samt ekki að segja fimmaurabrandara heldur var þetta mjög djúp speki úr einhverjum frönskum réttarheimspekingi sem ég hef aldrei heyrt nefndan.

UA var ekki Tryggvi heldur eitthvert nördabarn úr ungliðahreyfingu Samfylkingarinnar sem var samt Sjálfstæðisflokkurinn, og ég nennti eiginlega ekki að fá hann í mat. Ég byrjaði samt að setja sólþurrkaða tómata í stóra glerskál (ekki veit ég hvað ég ætlaði að gera við þá) en var svo allt í einu komin með UA niður á Austurvöll en við vorum að fara að kaupa jólagjafir. Ekki veit ég handa hverjum en ég var eindregið á þeirri skoðun að við gætum bæði varið tíma okkar betur.