Í fótnum

Júlíus: Er Stulli keyrður?
Jói: Nei, hann fer ekki til vinnu í dag, útaf hann hefur vont í sínu beini.
Frænka: Honum er illt í fætinum.
Jói: Nú? Ég hélt hann hefði bara vont í einum fótnum. Hefur hann vont í tvem?

Af rassgötum og tussum

Ég nota orðið rassgat sem vægt blótsyrði, svona til að gefa til kynna að mér sé eilítið sigið í skap.
-Rassgat, segi ég ef kaffifilterinn rifnar og korgurinn rennur ofan í könnuna.
-Rassgat, hnussa ég þegar ég sé svona fyrirsagnir. Ég get líka átt það til að biðja syni mína um að rassgatast til að ganga betur um, segja að krakkarassgatið hafi skilið frystinn eftir opinn eða að einhver sem mér finnst vera of langt í burtu frá mér, búi úti í rassgati. Halda áfram að lesa

Af rassgötum og tussum

Ég nota orðið rassgat sem vægt blótsyrði, svona til að gefa til kynna að mér sé eilítið sigið í skap.
-Rassgat, segi ég ef kaffifilterinn rifnar og korgurinn rennur ofan í könnuna.
-Rassgat, hnussa ég þegar ég sé svona fyrirsagnir. Ég get líka átt það til að biðja syni mína um að rassgatast til að ganga betur um, segja að krakkarassgatið hafi skilið frystinn eftir opinn eða að einhver sem mér finnst vera of langt í burtu frá mér, búi úti í rassgati.

Ég nota rassgat ekki sem blótsyrði af því að ég hafi sérstaka óbeit á rassgötum. Rassgöt eru stórfín til síns brúks og ég reikna með að langflestir séu nokkuð sáttir við sitt eigið. Því síður táknar óánægja mín með að geta ekki stjórnað búsetu vina minna að ég sé harður andstæðingur byggðastefnu eða mér finnist börn ómerkilegri lífverur en annað fólk þótt tiltekið krakkarassgat geti reynt á þolrif mín um stundarsakir. Rassgat er bara orð sem ég nota til að tjá ergelsi. Ég hugsa ekki einu sinni sérstaklega um rassgöt þegar ég nota orðið í þessháttar merkingu og þótt myndmálið sé skemmtilegt á ég ekki við að bókstaflegt heljarstökk, hvað þá líffræðilegt endaþarmsop, þegar ég bendi Samfylkingingunni vinsamlegast á þann möguleika að hoppa upp í rassgatið á sér.

rassgat.jpg
Þessari mynd af Samfylkingunni stal ég af myndasíðum google.

Tungumálið afhjúpar viðhorf okkar, svo langt sem það nær. Það að rassgat skuli hafa dálítið neikvæða merkingu í daglegu tali segir okkur eitthvað um afstöðu menningarsamfélags okkar til líkamans og skáldskaparhefðin staðfestir hana. Öll ástarskáld yrkja um augu, mörg um hár, barm og hendur en rassgöt koma sjaldan fyrir í ástarkveðskap. Tali skáld á annað borð um rassa (sem er sjaldgæft), hafa fagrar konur lendar, tröllkonur þjóhnappa og feitar kjeddlingar afturenda eða skut. Ég man ekki eitt einasta dæmi úr íslenskum ljóðum eða skáldsögum þar sem bakrauf er vegsömuð og trúað gæti ég að fyrsta skáldið sem yrkir hástemt lofkvæði um hina unaðsbleiku stjörnu sinnar heittelskuðu verði talið til gárunga. (Hér hefði verið gaman að vísa á mynd af fallegu rassgati en einu borumyndirnar sem komu upp þegar á leitaði að ‘anus’ á google voru af gylliniæð, njálg, Opruh Winfrey og svo kennslubókarteikningar.) Reyndar man ég heldur engin dæmi um að önnur líkamsop séu beinlínis mærð en menn eiga þó til að hvísla í eyru og það þykir sjálfsagt að anda að sér ilmi. Tilvist hlusta og nasa er þannig viðurkennd þótt þessum líkamshlutum sé ekki gert hátt undir höfði en tilgangur rassgatsins er hinsvegar algert tabú (af skiljanlegum ástæðum).

Niðurstaða; rassgöt þykja ekki fín og jafnvel þótt orðið geti haft yfir sér jákvæðan blæ þegar smábarn er kallað rassgat í bala, vegur það ekki á móti neikvæðu merkingunni. Auk þess verður litla rassgatið seint talið virðulegt og álit þess verður ekki veigamikið fyrr en það er hætt að vera svona mikið rassgat.

Tungumálið afhjúpar okkur -já, en samt sem áður segja orðin sem við notum ekki allan sannleikann um viðhorf okkar, það þarf að setja þau í samhengi líka. Þegar ég slæ upp ‘algjört rassgat’ á myndasíðum google, er þetta fyrsta myndin sem kemur upp en það hvarflar ekki að mér að það sé merki um hundahatur. Það bendir heldur ekki til kvenfyrirlitningar að nota orðið tussufínt.

Nei, rassgöt þykja ekki fín. Það þykja tussur ekki heldur. Og það er í sjálfu sér umhugsunarvert. Hugsanlega jafnvel eitthvað sem við ættum að breyta og þar sem tungumálið lýsir ekki aðeins veruleika okkar heldur skapar hann líka, er það eitt þeirra tækja sem við getum notað til að móta viðhorf. Já, reyndar alveg tussufínt tæki.

 

Þessi voðalegu orð

Ef maður sem hefur beitt þig andlegu, líkamlegu, fjárhagslegu og kynferðislegu ofbeldi árum saman tekur upp á því að hanga öllum stundum fyrir utan heimili þitt, þarf margra mánaða ferli til að fá því framgengt að honum verði bannað að koma nálægt þér áður en hægt er að fá lögregluna til að fjarlægja hann. Dæmin sanna þó að mjög erfitt er að fá nálgunarbann með dómi því ferðafrelsi ofbeldismannsins er talið dýrmætara en öryggi þolandans.

Það þarf hinsvegar ekki meiri ógn en skilti með áletrun á borð við stríð er glæpur til þess að maður sem aldrei hefur verið orðaður við ofbeldi af nokkru tagi, sé fjarlægður af almennri gangstétt og handtekinn ef einhverjum hjá bandaríska sendiráðinu finnst áminningin óþægileg.

(Hér eru Myndir og umfjöllun Svipunnar )um aðgerðina sem Lárus var síðar dæmdur fyrir og mótmælin gegn ákærunni á hendur honum.

Niðurstaða dómsins yfir Lalla sjúkraliða er skýr, Lárus er sekur. Borgararnir eiga samkvæmt honum að hlýða lögreglu í einu og öllu, hvort sem skipunin á við einhver lagarök að styðjast eða er bara geðþóttaákvörðun. Samkvæmt dómnum er lögreglu þannig heimilit að reka hvern sem er, af hvaða opinbera svæði sem vera skal. Nú bíð ég spennt eftir dómi um að lögreglu sé heimilit að banna manni að ganga í bol með áletrun sem fer í taugarnar á einhverjum eða bera ögrandi skartgripi og hárgreiðslu.

Og hvernig kemst dómurinn að þessari niðurstöðu? Jú í dómnum segir:

Samkvæmt 2. mgr. 22. gr. laganna hvílir sú skylda á íslenskum stjórnvöldum að grípa til viðeigandi ráðstafana til að vernda sendiráð fyrir árásum og koma í veg fyrir röskun á friði eða skerðingu á virðingu þess.

Ekki hefur komið fram hvort Lárus var handtekinn vegna yfirvofandi árásar á sendiráðið, röskun á vinnufriði eða hvort áletrunin stríð er glæpur skerðir virðingu þess. Eitthvað af þessu hlýtur að vera grundvöllur handtökunnar, annars væri hún ólögleg. Allir sem hafa séð myndbandið frá atburðinum (það var birt í fréttum en ég finn það ekki) hljóta að viðurkenna að þarna var engin árás í uppsiglingu og engin röskun á friði heldur. Við hljótum því að túlka dóminn á þá leið að Lárus hafi verið handtekinn fyrir að vega að virðingu sendiráðsins.

bilde Stríð er glæpur

Stríð er glæpur! Hann sagði það! Hann sagði það ekki bara, hann skrifaði það líka! Hann sagði stríð er glæpur. Hvílík gífuryrði, hvílík móðgun. Hugsa sér að nokkur skuli vega þannig að virðingu stríðsherranna og það í nafni tjáningarfrelsis. Hversu langt getur einn maður leyft sér að ganga í því að vega að virðingu hinna göfugu manna sem stjórna baráttunni fyrir heimsyfirráðum Bandaríkjamanna? Stjórnarskrá Íslendinga hefur þetta að segja um tjáningarfrelsið:

Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.

Þessi skilgreining á tjáningarfrelsinu tryggir Lárusi, samkvæmt dómnum, ekki rétt til að veifa skilti á gangstétt. Semsagt; Lárus Páll hefur brotið gegn allsherjarreglu og öryggi ríkisins. Hann stefnir siðgæði þjóðarinnar væntanlega í hættu með því að innleiða þá hugmynd að stríð sé glæpur og vegur að mannorði helstu stríðsherra Bandaríkjanna með því að halda þessari skoðun fram á þessum helga stað. Þá má leiða líkur að því að hann spilli heilsu manna með tiltækinu, enda munu neikvæðar tilfinningar vera heilsuspillandi. Aukinheldur vegur hann að réttindum stjórnar Bandaríkjanna til að drepa þá sem drepa þarf og svipta þá frelsi sínu sem eru yfirvöldum til leiðinda. Það hlýtur því að teljast nauðsynlegt og samræmast lýðræðishefðum að taka þennan stórhættulega glæpamann úr umferð.

Stríð er glæpur.
Ó hve voðaleg orð

noface.jpgÞetta var einu sinni barn. Afghanskt barn. Nú vitum við að það er glæpsamlegt að vega að virðingu bandaríska sendiráðsins með því að kalla það sem kom fyrir þetta barn glæp.

Lárus Páll hefur nú tvívegis verið handtekinn á Laufásveginum að beiðni starfsmanna bandaríska sendiráðsins. Ekki vegna þess að hann hafi gert neitt ólöglegt. Ekki vegna þess að hann hafi ógnað nokkrum, tafið neinn eða truflað neinn með hávaða. Hann hefur verið handtekinn og í annað skiptið dæmdur sekur, einfaldlega fyrir að skrifa þessi voðalegu orð.

 

Ísdanska

Frænka: Jói minn, ætlar vinur þinn að borða með okkur?
Jói: Nei, hann verður bráðum náður í af pabba sínum.

Frænka: Viljiði hafa rauðuna lina eða á ég að steikja eggin báðum megin?
Dana: Hanne vill gjarnan hafa það snúið.
Jói: Ég vil ekki ost á mitt brauð og ég átti að spyrja hvis þú getur leggjað enga kartöflu á Atlas disk.

Stuttu síðar þegar við sitjum við matborðið fær Bjartur hóstakast.
Júlíus: Hefur þú vont í hálsinum Bjartur?
Hulla: Bjartur minn, ég er búin að segja þér að fólk á að hvíla sig þegar það er þreytt og fara til læknis þegar það er veikt. Ég er viss um að ef þú að leyfir mér að stjórna þér í hálfan mánuð þá færðu það betur.

 

Fyrirgefið að þið skulið hafa pínt mig

Nokkrum árum eftir þennan atburð stóð ég sjálfa mig að því að gera lítið úr eineltismáli.

Strákur í bekknum mínum var settur hjá og þegar verst lét áreittur. Hann var klaufi í samskiptum eins og flest eineltisbörn og reyndi stundum að komast inn í hópinn með því að spila sig töffara en það fór honum illa. Hann sætti ekki ofbeldi en engum duldist að hann var neðstur í goggunarröðinni og honum var sjaldan boðið að vera með í neinu.

Einhverju sinni reyndi einn kennarinn að gera okkur ljóst að við værum vond við hann og það að ástæðulausu, Ég sagði honum að stráksi væri vanhæfur í samskiptum og að hann væri að gera allt of mikið úr þessu. Ég hafði árið áður verið í bekk með strák sem var beinlínis píndur. Svo alvarlega að hópar sátu fyrir honum á leið úr skólanum, það var vakað yfir hverri hreyfingu hans, hann hæddur endalaust og jafnvel laminn. Mér varð það á að verja hann og einangraðist sjálf fyrir vikið því það þótti ekki fínt að vera ‘horkögglasleikja’. Ég ætlaði ekki að falla í þá gryfju aftur en auk þess fór allt sem þessi kennari sagði öfugt ofan í mig.

Kennarinn svaraði því til að þótt einelti (ég held reyndar að hann hafi verið fyrsta manneskjan sem ég heyrði nota það orð) viðgengist í einhverjum öðrum skóla, sæi hann ekki átæðu til að umbera það sjálfur. Ég skildi hvað hann átti við og var honum sammála. Hinsvegar þoldi ég hann ekki. Reyndar hafa fáir menn farið jafn mikið í taugarnar á mér og ég fann mig knúna til að mótmæla öllu sem hann sagði. Ég hélt því fram gegn betri vitund að hann væri að tala um alls óskylda hluti og að eina vandmálið sem þessi drengur ætti við að stríða væri honum sjálfum að kenna. Staða drengsins í hópnum breyttist ekki en líklega hafa einhverjir stillt sig um að láta fyrirlitningu sína í ljós svo kennarinn heyrði.

Mörgum árum síðar hringdi þessi maður í mig og sagðist vilja biðja mig afsökunar ef hann hefði einhvern tíma gert eitthvað á minn hlut. Ég mundi nú ekki eftir neinu öðru en því að hann hafði einhverntíma tekið þátt í því að kíkja inn í sturtuklefann. Ég mundi hinsvegar eftir mörgum atvikum þar sem ég hefði getað verið almennileg við hann en hunsaði hann, þar sem ég hreytti ónotum í hann fyrir sakir sem ég hefði ekki gert athugasemdir við ef einhver annar hefði átt í hlut. Hann var einlægur og ekki að heyra að hann teldi mig bera neina ábyrgð. Ég spurði manninn hvers konar rugl þetta eiginlega væri, hann hefði sjálfur verið þolandinn.Hann sagðist vera nýkominn úr áfengismeðferð og það væri hluti af batanum að biðja alla sem maður hefði skaðað afsökunar.

Seinna frétti ég að hann hafði hringt í hin bekkjarsystkinin líka. Þá missti ég endalega álitið á AA samtökunum