Ég nota orðið rassgat sem vægt blótsyrði, svona til að gefa til kynna að mér sé eilítið sigið í skap.
-Rassgat, segi ég ef kaffifilterinn rifnar og korgurinn rennur ofan í könnuna.
-Rassgat, hnussa ég þegar ég sé svona fyrirsagnir. Ég get líka átt það til að biðja syni mína um að rassgatast til að ganga betur um, segja að krakkarassgatið hafi skilið frystinn eftir opinn eða að einhver sem mér finnst vera of langt í burtu frá mér, búi úti í rassgati.
Ég nota rassgat ekki sem blótsyrði af því að ég hafi sérstaka óbeit á rassgötum. Rassgöt eru stórfín til síns brúks og ég reikna með að langflestir séu nokkuð sáttir við sitt eigið. Því síður táknar óánægja mín með að geta ekki stjórnað búsetu vina minna að ég sé harður andstæðingur byggðastefnu eða mér finnist börn ómerkilegri lífverur en annað fólk þótt tiltekið krakkarassgat geti reynt á þolrif mín um stundarsakir. Rassgat er bara orð sem ég nota til að tjá ergelsi. Ég hugsa ekki einu sinni sérstaklega um rassgöt þegar ég nota orðið í þessháttar merkingu og þótt myndmálið sé skemmtilegt á ég ekki við að bókstaflegt heljarstökk, hvað þá líffræðilegt endaþarmsop, þegar ég bendi Samfylkingingunni vinsamlegast á þann möguleika að hoppa upp í rassgatið á sér.
Þessari mynd af Samfylkingunni stal ég af myndasíðum google
Tungumálið afhjúpar viðhorf okkar, svo langt sem það nær. Það að rassgat skuli hafa dálítið neikvæða merkingu í daglegu tali segir okkur eitthvað um afstöðu menningarsamfélags okkar til líkamans og skáldskaparhefðin staðfestir hana. Öll ástarskáld yrkja um augu, mörg um hár, barm og hendur en rassgöt koma sjaldan fyrir í ástarkveðskap. Tali skáld á annað borð um rassa (sem er sjaldgæft), hafa fagrar konur lendar, tröllkonur þjóhnappa og feitar kjeddlingar afturenda eða skut. Ég man ekki eitt einasta dæmi úr íslenskum ljóðum eða skáldsögum þar sem bakrauf er vegsömuð og trúað gæti ég að fyrsta skáldið sem yrkir hástemt lofkvæði um hina unaðsbleiku stjörnu sinnar heittelskuðu verði talið til gárunga. (Hér hefði verið gaman að vísa á mynd af fallegu rassgati en einu borumyndirnar sem komu upp þegar á leitaði að ‘anus’ á google voru af gylliniæð, njálg, Opruh Winfrey og svo kennslubókarteikningar.) Reyndar man ég heldur engin dæmi um að önnur líkamsop séu beinlínis mærð en menn eiga þó til að hvísla í eyru og það þykir sjálfsagt að anda að sér ilmi. Tilvist hlusta og nasa er þannig viðurkennd þótt þessum líkamshlutum sé ekki gert hátt undir höfði en tilgangur rassgatsins er hinsvegar algert tabú (af skiljanlegum ástæðum).
Niðurstaða; rassgöt þykja ekki fín og jafnvel þótt orðið geti haft yfir sér jákvæðan blæ þegar smábarn er kallað rassgat í bala, vegur það ekki á móti neikvæðu merkingunni. Auk þess verður litla rassgatið seint talið virðulegt og álit þess verður ekki veigamikið fyrr en það er hætt að vera svona mikið rassgat.
Tungumálið afhjúpar okkur -já, en samt sem áður segja orðin sem við notum ekki allan sannleikann um viðhorf okkar, það þarf að setja þau í samhengi líka. Þegar ég slæ upp ‘algjört rassgat’ á myndasíðum google, er þetta fyrsta myndin sem kemur upp en það hvarflar ekki að mér að það sé merki um hundahatur. Það bendir heldur ekki til kvenfyrirlitningar að nota orðið tussufínt.
Nei, rassgöt þykja ekki fín. Það þykja tussur ekki heldur. Og það er í sjálfu sér umhugsunarvert. Hugsanlega jafnvel eitthvað sem við ættum að breyta og þar sem tungumálið lýsir ekki aðeins veruleika okkar heldur skapar hann líka, er það eitt þeirra tækja sem við getum notað til að móta viðhorf. Já, reyndar alveg tussufínt tæki.