Dagbók frá 7. bekk 4

Kennararnir eru líka allt í lagi held ég. Nema stærðfræðikennarinn. Hann er geðveikur í skapinu og er alltaf að hóta að höggva af okkur hausinn. Ég held ekki að hann geri það en ég er samt skíthrædd við hann.

(1. Silla og Rósa höfðu verið með mér í skóla áður svo við vorum 3 sem vorum að koma nýjar inn.
2. Rúnar hafði einnig verið með mér í bekk, bráðmyndarlegur strákur en ekkert í líkingu við þá draumóra sem ég hafði haft um væntanlega bekkjarfélaga í stóra skólanum.)

 

Dagbók frá 7. bekk 3

Strákarnir í 7. eru ágætir held ég. Nema Eyvindur. Hann kallar mig alltaf Mjólkurbú Flóamanna. Ég þoli hann ekki. Þeir eru samt ekkert eins myndarlegir og ég hélt. Ég held svei mér þá að Rúnar (2) sé skástur. Það eru líka allar stelpurnar hrifnar af honum. En það er allt í lagi þótt þeir séu ekki sætir því sætir strákar hafa hvort sem er ekki áhuga á ljótum stelpum. Diddi Dóri er algert gerpi og alltaf að skjóta einhverju á mig. Svo segir hann 500 brandara á dag en enginn þeirra er fyndinn. Hann er samt svolítið sætur en ég er samt ekki hrifin af honum en samt er hann stundum ágætur og ekkert heimskur.

 

Dagbók frá 7. bekk 2

Stelpurnar í mínum bekk eru fínar. Ég kann vel við þær af því að þær eru líka með brjóst. Ekki kannski eins hrikaleg og ég en brjóst samt. Mér finnst hinsvegar slæmt hvað það eru margar sætar. Það er ekkert gaman að vera feit og ljót í bekk með svona sætum stelpum eins og t.d. Önnu og Þórunni. Silla og Rósa (1) eru reyndar líka frekar ljótar svo ég er kannski ekki eins áberandi en þær eru samt mjög mjóar og ekki með rassinn út um allan skóla eins og ég. Ég kann vel við Ernu. Hún er með ennþá hryllilegri brjóst en ég og ekkert sérlega myndarleg. Og svo er hún skemmtileg líka og alltaf hlæjandi.

Dagbók frá 7. bekk 1

Ég var svo lánsöm að fá tækifæri til þess að ganga í heimavistarskóla sem unglingur. Ég var afskaplega verndaður krakki alin upp í litlu þorpi og það var mikil upplifun fyrir mig að koma inn í svona unglingasamfélag. Ég skrifaði dagbók á þessum árum og fór með hana og það sem í henni stóð eins og mannsmorð. Ég hef lagað mestu málfarsambögurnar í þessari dagbók, breytt nöfnum og á stöku stað hnikað til atburðum til þess að gera samhengið skiljanlegra.  Halda áfram að lesa

Fæðing

Það rigndi
daginn sem þú komst í heiminn.

Ég horfði á regnið lemja glugga fæðingarstofunnar
á gráasta degi þessa sumars
og fann minna fyrir eftirvæntingu en þreytu.

Anda, ýta, anda, ýta,
ætlar þetta aldrei að taka enda?
Regnið hætt að lemja
og ég tel dropana sem renna niður rúðuna
hægar og hægar.

Svo ein hríðin enn
og skyndlilega –
fagnandi rödd ljósmóðurinnar:
„Sjáðu, sjáðu strákinn!“
og eitthvað heitt og blautt á maganum
og tvö lítil augu
sem horfa.

Tvö lítil, dökk augu
sem horfa,
rannsakandi,
hljóðalaust.
Hvernig er það annars með svona börn,
eiga þau ekki að gráta?

Loksins org
og leitandi munnur
Og alla tíð síðan
sól.