Ferð

Stefnuna þekkjum við
og ljósastikur meðfram veginum varða leiðina.
Þó vekur ugg
þessi umferð á móti.

Við stýrið, þú
og ég forðast að segja upphátt
það sem ég les úr kortinu.

Nú er ekkert nema handbremsan
á milli okkar lengur.

Sett í skúffuna í nóvember 2001

Ljósmyndarinn

Hann stendur við gluggann og horfir á leiki krakkanna. Strákarnir á körfuboltavellinum, stelpurnar verpa eggi og hoppa í teygjutvist og snúsnú. Litlu börnin leika sér hinum megin við skólann en hér er leiksvæði unglinganna. Ár eftir ár hefur hann staðið við gluggann og fylgst með stelpunum hoppa, hlaupa og losa sand úr skónum sínum á góðvirðrisdögum. Nú eru þær orðnar stórar. Komnar með ávöl brjóst og kvenlegar mjaðmir. Fallegar stelpur, margar hverjar en Sóley ber af þeim, tvímælalaust. Hún er ekkert barn lengur, hún er tilbúin, hugsar hann. Hann tekur myndavélina og gengur út á tröppurnar. Halda áfram að lesa

Sátt

Vinur, þegar vorið kveður,
vaka hjartans dularmál,
eins og tónn sem andann gleður
áttu stað í minni sál.

Þótt særð ég hafi í sorgum mínum
sakað þig um lygi og svik.
Finn ég enn í faðmi þínum
fullsælunnar augnablik.

Kvæði handa dópistum

Eitt vorkvöld sat ég hálf
í Valaskjálf
að vitum mínum anga engu líka
lagði, svo ég aftur að mér dró
ilminn frjóa, ríka.

Og blóðið brann,
um æðar rann,
ég fann
um mig streyma unaðssæluhrollinn
og kaupmennirnir kalla ilminn þann
Rauða ruglukollinn.

Þeir segja að allt sé vænt
sem vel er grænt
og af því hef ég gengið fram á gnýpu,
Nepal reykt úr niðursuðudós
Norðurljós úr pípu.

En fáar
finna má
sem jafnast á
við jurtir þær af Egilsstaðagötu
sem Ruglukollur þessi er runnin frá
og reykja má úr fötu.

Nú finnst mér allt það dautt
sem ekki er rautt
því aldrei finn ég sama sæluhrollinn
og kvöldið sem mér kaupmaðurinn bauð
Rauða ruglukollinn.

En víst
ég við því býst
ég vilji síst
tárum bæta í niðurtúrapollinn.
Svo lífs míns fjandafæla um það snýst
að forðast Ruglukollinn.

 

Vísur handa strákunum mínum

Alltaf gleður anda minn
að eiga stund með mínum.
Haukur kitlar húmorinn
með hugmyndunum sínum.

En þurfi vinnu og verklag, þá
vel ég annan snáða.
Darri minn með dökka brá
dugar fyrir báða.

Sett í skúffu haustið 2000

Höll Meistarans

Vorverkin hafin.
Einhver hefur klippt runnana í dag.

Geng hrörlegan stigann,
snerti varlega hriktandi handriðið.
Les tákn úr sprungum í veggnum
og gatslitnum gólfdúknum.

Hér, bak við spónlagða hurð sem ískrar á hjörunum,
er Mark Antony til húsa.

Banka varlega,
hrollur við hnakkann;
“mér var sagt að mæta til viðtals herra”.

Hér, í satinklæddri dyngju sinni
skreyttri kertaljósum og gullofnum púðum,
ólar hann ódælar stúlkur niður á flengibekk,
á meðan konan á neðri hæðinni
hirðir afklippta birkisprota úr garðinum.

Þrællinn

Þrælslund í augum
en fró í hjarta.
Þvær gólfið í dyngju Gyðjunnar
á hnjánum með stífaða svuntu.
Fær kannski að lakka neglur hennar að launum
eða smeygja háhæla skóm á fíngerða fætur.

Kveður auðmjúklega
með kossi á hönd Gyðjunnar.
Snýr aftur til embættis síns
íklæddur magabelti og netsokkum
undir jakkafötunum.
Reiðubúinn að takast á
við þrældóm hvunndagsins.