Eygi stjörnum ofar 

Eygi stjörnum ofar
aðra tíma og betri
vor að liðnum vetri
vekur nýja trú.

Ljósi og birtu lofar
lífsþrá raddar þinnar,
svarthol sálar minnar
söngvum fyllir þú.

Og neindin, full af næturgalans kvaki
niðamyrkrið gegnum fer að skína,
þótt ég sofi samt er líkt og vaki
sál mín, hverja nótt við hljóma þína.

Úr dvalanum ég rís og dýpra smýgur
dagsins ljós, að rótum sálar minnar,
hjarta mitt úr fjötrum brýst og flýgur
frelsins á vit og ástar þinnar.

Allri lofgjörð æðra
yndi rödd þín hrærir,
sól úr skýjum særir
syngur dögun óð.
Meðal minna bræðra
mig þú fundið hefur
tóm mitt töfrum vefur
tóna þinna flóð.

Veisla

Hún kunni illa við kirkjugarða. Hún óttaðist ekki anda hinna framliðnu og því síður taldi hún líkur á að hún raskaði grafarró þeirra. Ekki angraði hugmyndin um návist guðdómsins hana heldur enda taldi hún víst að sá hégómaspengill héldi sig fremur meðal þeirra sem ennþá væru í aðstöðu til að tilbiðja hann. Halda áfram að lesa

Tilbrigði við grænt

Hvað er svo grænt á góðviðriskveldi
sem garðteiti í Þingvallasveit?
Er augu þín glóa af grillkolaeldi
glettin og ástríðuheit.

Garðurinn angar af gróðri í blænum
og gleði mín af því vex.
Mitt hjarta er ölvað af hamingjugrænum
Heineken, Tuborg og Becks.

Út’undir garðsvegg gott er að spræna
glundrinu í sælli bæn.
Heilla þó meira en Heineken væna
þín brúnaljós bjórdósargræn.

Bitra

Ég hef elskað margan mann
af misjafnlegum þunga
og heitast þeim mitt hjarta brann
sem harðast lék mig unga.

Allir skildu þeir eftir sig
ör á hjarta mínu
en enginn framar fangar mig
með fagurhjali sínu.

Einatt brölti ég upp á mann
sem er víst þannig gerður
en engan legg ég ást við þann
sem ekki er tára verður.

Eftir lítð lausafling
læt ég sem ég hat´ann
mig vantan engan vitleysing,
víktu frá mér Satan.

Ljóð handa vegfaranda

Suma daga sit ég við stofugluggann og bíð eftir að þú gangir fram hjá.

Þú heldur að ég sé að horfa út um gluggann.
Kannski á hundinn nágrannans eða krakka með skólatöskur eða unglingana að reykja bak við sjoppuna.
Stundum veifar þú til mín og bregður fyrir litlu brosi. Kannski heldurðu að ég sé að horfa á þig og finnur dálítið til þín.Ég er reyndar að bíða eftir þér, já, en ég er ekki að beinlínis að horfa á þig. Ég er búin að því. Ég er meira að bíða eftir að þú horfir á mig. Nú þú. Það er réttlæti. Ég vil að þú horfir á mig. Ekki af því að ég eigi neina sérstaka drauma um þig heldur af því að þú átt leið hjá á heppilegum tíma og flestir aðrir eru á bíl. Horfa þessvegna aldrei á mig. Ungir menn eiga að horfa á fallegar stúlkur. Þannig hefur það alltaf verið segja þeir.

En þú horfir ekki heldur þótt þú farir þér hægt. Horfir aldrei beinlínis á mig. Lítur bara til mín í svip og gengur svo framhjá. Sperrtur eins og hani.

Einu sinni kallaði ég til þín af því ég sá að þú misstir veskið þitt. Þá stoppaðir þú og horfðir aðeins á mig, pínulítið. Ekki samt lengi. Þú sagðir takk. Svo bara fórstu.

Ég hélt að ég gæti kannski náð athygli þinni með því að sýna þér betur hvað ég er falleg. En nú, þegar ég sit nakin á svölunum er engu líkara en að þú forðist beinlínis að líta upp. Og ert hættur að veifa.

Mér er satt að segja að verða svolítið kalt.