Ljúflingslag

Án þín um eilífð langa
óf ég af gullnum þræði
rekkjuvoð rúnum brydda
rennur hún veröld alla.
Auglit mitt vakir yfir
álagahvílu þinni
syng ég þér svani um aldir
sofðu, ég unni þér.

Konan sem bíður

Sat hún ein við sauma
sumarbjartar nætur,
brynju gerði úr Björkum
batt sér Jó um fætur.
Reið á klæðin risti,
ramman Þurs hún vakti.
Kontórstingja Kaunir
kossum sjálf hún þakti.

Bjargvætturinn í hárinu

Ástæðan fyrir því að hún klippti af sér hárið var auðvitað sú að með því móti gat hún bundið fléttu við svalahandriðið og sigið niður af sjálfsdáðum, þegar og ef henni svo þóknaðist. Hana vantaði ekki bjargvætti, heldur penna til að leysa þessa japönsku talnaþraut og prinsinn leit hreint ekki út fyrir að hafa nokkurntíma heyrt um slíkt verkfæri getið. Auk þess fannst henni ekki kúlt að hafa sverðsveiflandi apakött hangandi í hárinu. Halda áfram að lesa