Ástæðan fyrir því að hún klippti af sér hárið var auðvitað sú að með því móti gat hún bundið fléttu við svalahandriðið og sigið niður af sjálfsdáðum, þegar og ef henni svo þóknaðist. Hana vantaði ekki bjargvætti, heldur penna til að leysa þessa japönsku talnaþraut og prinsinn leit hreint ekki út fyrir að hafa nokkurntíma heyrt um slíkt verkfæri getið. Auk þess fannst henni ekki kúlt að hafa sverðsveiflandi apakött hangandi í hárinu.
Höfuðverkurinn hafði skiljanlega stafað af því að hárið á henni var orðið allt of þungt og ekki hefði hann skánað ef brynjuklæddir prinsar hefðu klifrað í því. Magapínan stafaði af kvíða sem stóð í beinu samhengi við pennaleysið. Hún þoldi ekki að hafa allan tíma í heiminum en koma samt engu í framkvæmd. Exemið var ekki exem heldur ofnæmisviðbrögð sem komu fram í hvert sinn sem einhver fáráðurinn kom blaðskellandi og galaði: Hi Rap! Jus´ thro´ ou´ ya hair an´I´ll save ya! Stundum fór hún úr nærbuxunum og kastaði þeim niður, bara til að fá kikkið út úr því að fylgjast með fávitanum húka fyrir neðan svalirnar og mæna upp til hennar þar til hann sá fram á að verða hungurmorða.
Hún var vön því að bjarga sér sjálf. En þar fyrir hefði henni þótt gaman að hafa félagsskap og hana grunaði að hún gæti náð meiri færni því að leysa súdókuþrautir ef hún kynntist hugsanagangi einhvers sem kynni á penna.
Vitaskuld fannst henni líka gott að ríða -og hún þurfti svosem ekki neitt gáfnaljós til þess. En skapahár hennar voru ekki nándar nærri nógu síð til að fáviti gæti klifrað í þeim.