Bílkynhneigð

Um daginn varð mér það á að missa út úr mér nokkuð sem ég gerði mér enga grein fyrir að hljómaði sem töfraþula í eyrum sonar míns. „Pegasus á svona bíl“, þannig hljómar hið heilaga orð. Hann hefur hreinlega ekki látið mig í friði síðan.
-Fokk nei, ég trúi þér ekki!
-Ertu viss um að hann eigi hana sjálfur?
-Er hún ekta? Ertu viss um að það sé ekki bara eitthvað drasl með svipað útlit?
-Er ryð í henni?
-Er hann með hana í almennilegum bílskúr?

Lygnir augunum og slefar þegar ég sannfæri hann um að bíllinn sé sannarlega ekki ryðguð útigangsbeygla, þvert á móti hugsi Pegasus um hann eins og móðir um vöggubarn, færist svo allur í aukana og dembir yfir mig grilljón spurningum sem ég gæti ekki svarað þóttt líf mitt lægi við.
-Hvenær fékk hann hana?
-Hvaða árgerð er hún?
-Hvernig er mælaborðið?
-Hvernig eru felgurnar?
-Hvernig…

Ég reyni að útskýra fyrir honum að ég hafi nú aðallega verið að reyna að kynnast manninum og geti ómögulega munað einhver smáatriði varðandi þennan bíl, þótt hann sé svosem ósköp sætur líka. Hann horfir á mig með svip sem gefur til kynna að það sé óskiljanleg pervasjón að finnast karlmaður áhugaverðari en bíllinn hans.

Vinkona mín segist vera bílkynhneigð. Ég held að verði ekkert fram hjá því litið lengur að það sé eitthvað svipað á seiði hjá Pysjunni. Í gær spurði hann mig hvort ég ætlaði ekkert að fara að kynna þennan mann fyrir sér. Auðvitað hefur hann nákvæmlega engan áhuga á því að hitta Pegasus. Hann er hins vegar að gera sér vonir um að fá að berja þetta bílundur augum.