Grýla

Grýlan er brostin á fyrir alvöru. Svefntruflanir, flökurleiki, máttleysi, magaverkir, vöðvabólga, sinadráttur og nætursviti. Ég naga neglurnar, þamba mjólk, verður ekkert úr verki, forðast óþægileg viðfangsefni, fæ skjálftaköst í hvert sinn sem síminn hringir. Ef þetta versnar verð ég lögst í grátköst um helgina.

Mér skilst að fátækt fólk sem verður skyndilega ríkt gangi í gegnum sama tilfinningaferli og þeir sem verða gjaldþrota. Eins og líkaminn reikni með að allt fari á versta veg og sé að reyna að ljúka því af með því að kalla fram ástand sem hann þekkir og skilur. Þetta er eitthvað svipað og hefur reyndar komið fyrir mig áður. Ég leggst í fullkomlega órökrétta og tilefnislausa ástarsorg, bara af því að ég sé fram á að ég gæti haft einhverju að tapa ef ég leyfi þessu að ganga lengra. Minn aumingjasjúkdómur er ekki skuldbindingarfælni heldur þvert móti höfnunarfælni eða eitthvað svoleiðis. Ég er að reyna að komast hjá því að þykja nógu vænt um einhvern til að gefa honum vald til að særa mig. Þótt þetta tvennt virðist fullkomnar andstæður er hvorttveggja flokkað sem tengslaflótti og einkennin eru þau sömu, sagði sálfræðingur mér endur fyrir löngu. Mér finnst skuldbindingarfælni vera aumingjaskapur, svo ég hlýt þá að setja þetta ástand í sama flokk. Og eina leiðin til að komast hjá því að vera aumingi er sú að takast á við aumingjaskapinn í sér og hafa betur.

Ég hef alltaf sagt að ef ég ynni í lottóinu (sem mun ekki gerast þar sem ég spila ekki í því) yrði ég alveg tilbúin til að takast á við krísuna sem á víst að fylgja því. Þessvegna er líka rökrétt að takast á við þetta ástand sem ég er í núna og komast í gegnum það, jafnvel þótt ég væri til í að vera aumingi. Þegar allt kemur til alls getur ekki verið neitt verra að ganga í gegnum eina sorgina enn en að hafa ekkert til að missa. Það er rökrétt.

Ég veit að svona geðbilun líður hjá og ég get ekkert reiknað með að vera undanþegin einhverjum komplexum frekar en annað fólk. Ég hef staðið af mér ótal áföll og hef enga ástæðu til að halda að ég afberi ekki eitt í viðbót. Ég hef ekki einu sinni neina ástæðu til að trúa því að þetta endi í einhverju áfalli, þetta gæti allt eins orðið fjandi fínt samband. Ég hef semagt allar rökréttar ástæður í heiminum til að leyfa þessu að ganga yfir mig. Í augnablikinu virðist samt ennþá rökréttara að gera eitthvað róttækt til að losna við magakrampann.

One thought on “Grýla

  1. ——————————————

    Sá sem engu hættir til, vinnur sjaldnast. Vissulega er stundum sárt að vera til. En aðrir valkostir eru nú ekki ýkja spennandi…

    Posted by: HT | 24.10.2007 | 12:05:57

    ——————————————

    Þú ert hættulega skynsöm og í miklum tengslum við sjálfa þig. Sem kemur sér yfirleitt vel en getur vissulega verið dragbítur. En leyfðu þér bara að njóta, hugsaðu einn dag fram í tímann og ekki meir. Mundu: den tid, den sorg!

    Posted by: Kyngimögnuð | 24.10.2007 | 13:14:42

Lokað er á athugasemdir.