Fólk er bara alveg hætt að lesa!

Nú eru bókaútgefendur víst alveg að missa sig yfir þverrandi bóksölu. Það er varla fréttnæmt að dregið hafi úr sölu pappírsbóka, bara það sem við var að búast. Viðbrögð þeirra sem hafa tekjur af bókaútgáfu eru skiljanleg, það er vesen að þurfa að finna nýja tekjulind. Áhyggjurnar af forheimskun lýðsins eru hinsvegar dálítið hjákátlegar. Ályktunin sem dregin er af sölutölum er í hnotskurn þessi: Fólk er bara hætt að lesa!  Halda áfram að lesa

Rún dagsins er Hagl

Hagl er rún tímabundinna erfiðleika. Í galdri er hún notuð sem refsirún, til þess að kalla erfiðleikahríð yfir þann sem hefur gert á hlut manns. Þótt markmiðið sé ekki að valda varanlegum skaða er alltaf vafasamt að nota bölrúnir og í versta falli getur það hitt nornina sjálfa eða einhvern annan en hún ætlaði.

Í rúnalestri er Hagl merki um að erfiðleikar séu óhjákvæmilegir en að í þessu tilviki sé best að berjast ekki af krafti heldur að bryjna sig sem best og standa af sér hríðina. Rétt eins og haglél bítur erfiðleikahríðin svo undan svíður en hún gengur blessunarlega fljótt yfir.

Rún dagsins er Vend

Vend er happarúnin, sú sem vendir böli í gæfu og kallar fram gleði, skemmtun og nýjar hugmyndir. Vend er skemmtilegasta rúnin og í galdri er hún notuð til að bæta úr slæmu ástandi og kalla fram heppni sem hvetur mann til dáða. Ekkert illt hlýst af notkun hennar.

Í rúnalestri táknar Vend að erfiðleikaskeiði er að ljúka eða nýtt og skemmtilegt tímabil að hefjast. Einnig getur hún boðað óvænt happ fremur en varanlega gæfu. Spyrjandinn ætti að vera opinn fyrir þeim möguleika að happ sem í fyrstu virðist ómerkileg tilviljun sé fyrirboði um hrinu heppilegra tilviljana sem hann getur nýtt til góðs.

Rún dagsins er Gjöf

Gjöf er mesta gæfurúnin í norræna rúnarófinu. Í galdri er húr notuð til að kalla fram gæfu í hverskyns aðstæðum og sér í lagi í samskiptum. Gjöf er rún ástar, vináttu og þakklætis og alltaf er óhætt að nota hana í galdri því útilokað er að gera neitt illt með því hugarfari sem hún táknar.

Í rúnalestri táknar Gjöf að spyrjandinn á von á góðu. Hún getur falið í sér vísbendingu um að það sé spyrjandanum til mikillar gæfu að sýna örlæti og vinarhug. Þakklæti er einnig tengt rúninni. Í víkingasamfélaginu táknaði það gagnkvæma hollustu að færa einhverjum gjöf og er Gjöf einnig tákn giftingar og góðra viðskipta.