Gall

Ég kastaði sauðarleggnum af alelfi í kirsuberjatréð, fór svo inn og prófaði að hvolfa vélinni. Það virkaði ekki en ég sá út um gluggann að leggurinn bærði á sér. Stuttu síðar reis hann upp og stakkst á endum inn um eldhússdyrnar.

Ég beið, og beið en það leið fullur hálftími þar til skrattinn smokraði sér úr sauðarleggnum og hringaði sig utan um fætur mína þar sem ég sat og starði á svartan skjáinn.

-Góðan daginn helvítið þitt. Mikið að þú lést sjá þig. Ætlarðu að vera svo vænn að koma tölvunni í gang fyrir mig, hvæsti ég.
-Nohh, mín bara óánægð með þjónustuna! sagði sá svarti og geyspaði. Svo skreið hann upp fótlegginn á mér og hlykkjaðist þaðan upp eftir hryggnum á mér og alla leið upp á hægri öxlina.

-Var ég ekki búinn að bjóða þér almennilega vél? M.a.s. tvisvar, sagði hann og andaði í eyra mitt svo hryllilegri uppástungu að ef ég þyrfti á annað borð heyrn til að heyra til hans, hefði ég gripið prjón og stungið honum í gegnum hlustina og alla leið inn í heila.
-Þú veist ósköp vel að ég gat ekki gengið að þeim skilmálum, sagði ég gremjulega.
-Jahérna, og því ekki það, sagði Pokurinn. Ertu of göfuglynd til þess að þiggja gjöf án þess að láta neitt á móti eða hvað?
-Nei ég er ekki rassgat göfuglynd. Ég er of stolt og stolt er synd svo þú ættir nú að taka það sem gild rök í málinu sagði ég, greip í klóna á honum og reyndi að þvinga hana að lyklaborðinu. Hann kippti loppunni að sér og þar sem hún var rök og slímug, missti ég takið.
-Þú hefur ekkert stolt að verja fíflið þitt, þú ert einfaldlega að bíða eftir því sem þú veist að er ekki í boði. Þú ætlar að fá allt án þess að greiða gjaldið. Þú ert nefnilega tepra og hræsnari. Ég sem ekki við hræsnara og þú veist það, ýlfraði hann.

Og það er satt. Við sömdum á sínum tíma. Hann lofaði að útvega mér allt sem ég vildi og í staðinn átti ég að sýna þann skapstyrk að horfast í augu við heiminn og sjálfa mig, án þess að fara á geðinu. Því broddfluga verður fjandinn hafi það að sjá bæði viðfangið og broddinn á sér til að geta stungið. Málið er bara að það er nánast ofurmannlegt að horfast í augu við sjálfan sig og ég er ekki það ofurmenni sem ég hélt. Sannleikurinn er semsagt sá að Pokurinn hefur ekkert svikið mig, það er ég sjálf sem klikka.

-Gott og vel ég er tilbúin til að feisa veruleikann, sagði ég. Þú sendir mér semsagt þennan mann til að koma mér í skilning um að enginn mun nokkru sinni elska mig nema úr fjarlægð. Sama hvort hann er ungur eða gamall, ljótur eða fallegur, heimskur eða klár… Ekkert ástarsamband mun ganga upp, nokkurntíma allavega ekki nema ég leiki einhverja allt aðra manneskju. Gott og vel, ég kyngi því. Viltu nú vera svo vænn að koma vélinni í gang því ég þarf að skrifa og það er árið 2011, penni og stílabók duga mér ekki.

Búin að kyngja? sagði hann glottandi.
Ég kinkaði kolli en einhver vottur af lygi snerist við í maganum á mér og ég kastaði upp yfir lyklaborðið. Sleikti svo æluna upp. Og kyngdi. Ældi aftur, aðeins galli í þetta sinn og tilberinn svolgraði það í sig, tróð klofinni tungunni milli takkanna á lyklaborðinu og sleikti ánægður út um. Ég hef ekki fóðrað hann almennilega í nokkar vikur og hann hefur horast greyskinnið en ef ég þekki sjálfa mig rétt má reikna með tíðum uppköstum næstu daga svo hann veitir mér þá væntanlega betri þjónustu í staðinn.

-Búin að kyngja, sagði ég upphátt, því hann virðist fá meira kikk út úr því að heyra mig segja það enda þótt hann hafi sjálfur horft á mig kyngja. Stundum finnst mér eins og sé ekki á hreinu hvort okkar er húsbóndinn.
Hann sleppti hláturgusu út á milli vígtannanna og rétti fram klóna í átt að rofanum.

-Nettengingin þarf líka að virka, sagði ég.
-Nú já? Líka það. Og hvað fæ ég í staðinn?

Ég hugsaði mig um. Ég get verið nettengingarlaus. Allavega í nokkrar vikur. En ekki endalaust. Það er engin ástæða til að fresta því óumflýjanlega.

-Algjöra og skilyrðislausa uppgjöf, sagði ég. Ég horfist hér með í augu við það að þessi snilligáfa sem ég pantaði hjá þér á sínum tíma skiptir engu máli. Ekkert mun nokkru sinni ganga nema ég læri sölumennsku. Þótt ég hafi ekki einu sinni hæfileika til að selja sveltandi hundi þá hugmynd að blóðug nautasteik sé girnileg.

Vélin hrökk í gang og hann hlykkjaðist, kaldur og slímugur niður hryggsúluna á mér og skreiddist inn í sauðarlegginn.

Einn dagur enn, einn dagur enn. Á endanum fær maður allt sem maður vill þótt það geti vissulega verið dýrkeypt. Nettengingin flöktir að vísu en galdrar virka, í alvöru. Þegar allt kemur til alls býr ofurmenni í hverri sál og hver hefur svosem sagt að það eigi að vera sársaukalaust?

Best er að deila með því að afrita slóðina