Galdur vikunnar

Ef ég fengi vinnu við að ydda tréliti, yrði ég rekin samdægurs. Ég brýt blýin á meðan ég ydda. Ég get heldur ekki orðið leigubílstjóri nema þá að sérhæfa mig í óvissuferðum og ég treysti fáum verr en sjálfri mér til að fara með völd. Nánast hvað sem er annað kemur til greina.

Ég kann að skrifa íslensku. Ég reiknaði ekki beinlínis með að fá vinnu við að skrifa ástkæra, ylhýra í Danaveldi en ég get alveg gert fullt af allskonar og hef aldrei talið sjálfa mig of merkilega til að skúra og skeina, svo ég hafði ekki áhyggjur af verkefnaskorti þegar ég hætti á elliheimilinu. Hér er hinsvegar allsstaðar krafist starfsmenntunar. Maður fær ekki vinnu við að sletta kássu á diska í mötuneyti eða hirða sorp, nema vera með skírteini. Og þegar svo er komið þá beitir maður göldrum. Galdrablogginu og galdrafeisbúkk.

Þar sem ég er búsett í útlandinu, myndi henta mér best að leysa verkefni sem hægt er að senda með tölvupósti eða leysa beint á netinu. Og ef einhver sem þekkir til í Sönderborg og Aarenraa veit um eitthvað sem ég get fengið að gera (ég er t.d. góð í því að drepa flugur) þá endilega hafið samband.

Best er að deila með því að afrita slóðina