Hvað hefur kötturinn étið?

Sit yfir gamalli sunnudagskrossgátu (pabbi er svo elskulegur að senda mér þær) og horfi á Bjart sofa. Klukkan orðin átta og þegar vekjarinn á símanum hans fer í gang, fálmar hann eftir honum og slekkur, án þess að vakna.

Bjartur er góður strákur. Og sætur líka. Og eins og allir sætir og góðir strákar á hann við ýmis vandamál að stríða. Eitt er það þó í lífi Bjarts sem seint mun teljast vandamál og það er svefnleysi. Hann ætlar víst að mæta í vinnu kl 9 og kannski ætti ég að ýta við honum, en samkvæmt minni reynslu hingað til eru líkur á að Bjartur svæfi af sér bæði jarðskjálfta og loftárás. Báðar kisurnar mínar eru bröltandi ofan á honum og þótt Norna veiði tærnar á honum og Anja leggist ofan á hálsinn á honum og sleiki á honum andlitið, haggast hann ekki.

Anja er búin að fá nóg af að kyssa skeggrótina á viðfangi ástleitni sinnar. Hún stendur upp og snýr sér við, bröltir upp á hausinn á honum og þæfir hársvörðinn. Hún hefur engan áhuga á að fullorðnast og virðist telja víst að fólk sé með spena í andliti eða hársverði og er óþreytandi í leit sinni. Rófan á henni liggur þvert yfir andlitið á Bjarti og ég hefði haldið að hann myndi kitla, fyrir nú utan önnur óþægindi en hann bara liggur eins og steinn og gefur frá sér værðarhljóð. En nú skyndilega opnar Bjartur augun og rís upp, svo Anja kútveltist niður á sængina.

-Hvað hefur kötturinn eiginlega étið? Hún er ekkert venjulega andfúl, segir Bjartur.
Anja er ekki andfúl Bjartur minn, hún prumpaði bara framan í þig, svara ég.

Bjartur er vaknaður eftir 11 eða 12 tíma svefn og fimm mínútum síðar sitjum við í eldhúsinu og drekkum morgunkaffið. Segið svo að kettir séu gagnlausir sem húsdýr.

Best er að deila með því að afrita slóðina