Hvað er manneskjan að hugsa?

Æ Elías.

Ef maður gæti nú vitað hvað fólk hugsar, þá væri lífið einfaldara. En yfirleitt veit maður það ekki og það er tilgangslaust að spyrja. Ég skil svo vel hvað það hlýtur að vera ergilegt að fá ekki rökrétt svör en ég get bara sett fram kenningu.

Manstu hvað þú varðst vatnshræddur eftir að bróðir þinn hrinti þér út í sundlaugina? Það er ekkert undarlegt að barn sem verður fyrir áfalli eigi erfitt með að prófa aftur og foreldarar þínir létu það eftir þér að takast ekki á við óttann. Þú varst kominn á unglingsaldur þegar þú ákvaðst að takast á við hann sjálfur. Kannski herðirðu aldrei reynt það nema af því að þú sást tilgang í því en þar sem allir vinir þínir voru syndir, sástu fram á að missa af skemmtun og samveru. Auk þess var auðvelt að giska á að ástæðan fyrir því að þú vildir ekki prófa væri vatnshræðsla og kannski langaði þig ekkert að opinbera kjarkleysið. Já og svo varstu hlýðinn. Þar sem þú varst útlendingur og hafðir ekki verið skyldaður til sundnáms, sýndu hinir strákarnir kunnáttuleysi þínu tillitssemi, þeir voru þér vinveittir og þú vissir að það væri meiri líkur á að þeir gerðu grín að þér fyrir að þora ekki að prófa en að vera smeykur í fyrsta sinn.

Og þarna stóðstu á bakkanum og þorðir ekki út í . En þú varst klár strákur og þú hugsaðir; hvað er það versta sem gæti gerst? Skynsemi þín svaraði:
-það versta sem getur gerst er að þú drukknir.
-Og hvað get ég gert til að koma í veg fyrir að það gerist? spurðir þú.

Skynsemi þín kannaði aðstæður. Þú varst ekki einn heldur með stórum hóp drengja sem voru syndir, höfðu ákveðinn skilning á aðstæðum þínum og vildu þér ekki illt. Þú náðir til botns í stórum hluta laugarinnar og þurftir ekki að fara lengra en þú vildir. Þú hafðir fengið fyrirmæli um að halda þig við bakkann. Jú, þú sást að það var ýmislegt sem þú gast gert til að draga úr líkunum á því að drukkna og þegar kennarinn sá hik á þér sagði hann þér að það væri eðlilegt að vera hræddur við svona mikið vatn en þú skyldir halda í kork og hann myndi fylgjast vel með þér. Þú varst orðinn rólegri.
-Gott og vel, ég get dregið úr líkunum á drukknun. Hversu oft drukkna unglingar annars í íslenskum sundlaugum? spurðir þú.
-Nánast aldrei, og örugglega ekki ef fyllsta öryggis er gætt, svaraði skynsemi þín.
Þú ákvaðst að það væri áhættunnar virði að reyna og klukkutíma síðar var vatnshræðslan nánast horfin.

Það er á þennan hátt sem við tileinkum okkur hugrekki. Við viðurkennum kjarkleysi okkar, metum hættuna og tökumst á við óttann með því að ganga pínulítið lengra en við þorum.

Yana hegðar sér eins og fáviti. Eða kannski bara eins og hrætt fólk hegðar sér. Auðvitað langar þig að arga. Okkur finnst ekkert rökrétt við að hafna góðum manni og henda sér aftur í fangið á skíthæl sem hefur farið illa með hana og jafnvel lagt á hana hendur. Það er skiljanlegt að þú sért ráðvilltur. Ég hef aldrei verið lamin sjálf og er þessvegna kannski ekki rétta manneskjan til að svara þessu en ég held að ástæðan fyrir því að hrætt fólk sýnir órökrétta hegðun, sé sú að það er ófært um að leggja mat á hættuna. Sérstaklega þegar áhættan er tilfinningaleg.

Hún veit að það er einhver sársauki í öllum samböndum. Þegar hún er með skíthælnum veit hún nákvæmlega, eða finnst hún allavega vita, hvað er það versta sem getur gerst. Hún veit líka hvað hún þarf að gera til að draga úr líkunum á að það gerist. Þegar hún hinsvegar horfir á þig og hugsar; hvað er það versta sem getur gerst? þá fær hún ekkert svar. Þ.a.l. veit hún heldur ekki hvernig hún á að koma í veg fyrir að það gerist. Hún veit að fólk fer stundum illa út úr samböndum þótt ekkert ofbeldi sé inni í myndinni og skynsemi hennar er ófær um að meta hættuna.

Fólk sem hefur mestmegins átt heilbrigð samskipti getur metið hættuna á tilfinningalegum áföllum. Kona sem er almennt þokkalega örugg, horfir á þig og hugsar; hvað er það versta sem getur gerst? og svarið er kannski að hún þurfi að takast á við höfnun, eða að þú hafir einhverja dulda skapgerðarbresti og hún þurfi að slíta sambandinu þessvegna. Hún finnur til dálítils kvíða en hann verður ekki mjög ágengur, því hún veit að hún getur alltaf gripið í bakkann og að ef ástandið verður mjög ógnvænlegt getur hún beðið um hjálp til að komast upp úr djúpu lauginni.

En Yana er ekki í þessari aðstöðu. Hún getur ekki metið hættuna, hún veit bara að það gæti eitthvað hræðilegt gerst en hún veit ekki hvað. Hún upplifir fólkið sitt ekki sem vini og hún sér heldur engan bakka til að grípa í. Ef þú sýnir henni tilfninngalega grimmd reiknar hún ekki með að aðrir sýni því skilning. Það er hægt að sýna marbletti en að útskýra meiðsli á sálinni er ekki eins einfalt. Hún býst ekki við að neinn rétti henni kork eða kippi henni upp úr, heldur gerir hún ráð fyrir að fá þau skilaboð að hún sé aumingi að láta það á sig fá, þar sem hún hafi nú vanist öðru og verra.

Hugsaðu þér hvernig það er að vera vatnshræddur unglingur í djúpu lauginni með bekk sem leggur þig í einelti eða hefur jafnvel hundað þig algerlega. Kennarinn er hvergi sjáanlegur. Einhver tekur upp á því að hrella þig. Kannski ekki lífshættulega, bara með því að skvetta vatni framan í þig, hindra þig í að komast að bakkanum og gera grín að ótta þínum. Það er enginn korkur nálægur, þú nærð ekki til botns og bakkinn virðist svo langt í burtu að þú sérð hann varla. Þú ert sannfærður um að ef þú sekkur, muni enginn hjálpa þér

Trúðu mér Elías, þú vildir frekar vera í grunnu lauginni við bakkann og í kallfæri við kennarann, þótt þú værir þar með versta óvini þínum sem kaffærði þig hvað eftir annað. Þú treystir því að hann muni ekki ganga svo langt að drekkja þér, að hann verði stöðvaður ef hann reynir það og þú veist að þú færð hjálp og samúð ef hann gengur of nærri þér. Þótt þú hafir ekki beinlínis ástæðu til að reikna með því að strákarnir í djúpu lauginni gangi eins nærri þér, er það samt verri tilhugsun.

Það er einhvernveginn svona sem andlegt ofbeldi fer með fólk. Þú hættir að treysta öðrum og þú hættir að taka tilfinningalega áhættu. Þótt þú hafir ekki beinlínis ástæðu til þess að halda að sá sem elskar þig muni fara illa með þig, þá reiknarðu samt með því og þú hefur ekki hugmynd um hvenær það gerist, hvernig það gerist eða hvernig þú getir útskýrt hvaða áhrif það hefur á þig. Þessvegna hættirðu að trúa því að hinir krakkarnir hafi samúð með þér og muni sýna þér tillitssemi. Þú ferð út í laugina í kvíðakasti, sannfærður um að þú munir drukkna. Þú tekur því sem morðtilraun ef einhverjum verður það á að busla og vatnið skvettist óvart framan í þig. Ef einhver er fyrir þér heldurðu að hann ætli að stöðva þig í því að fara upp úr. Ef einhver spyr hvort þú sért vatnshræddur, tekurðu því ekki sem umhyggju heldur sem háði. Þessvegna kemurðu þér að bakkanum eins fljótt og hægt er, jafnvel þótt versti óvinur þinn sé þar fyrir.

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Hvað er manneskjan að hugsa?

  1. ——————————————————
    Enn einn snilldarpistillinn frá greiningardeildinni 😉

    Posted by: Hulda H. | 12.06.2008 | 10:05:45

     ——————————————————

    Takk fyrir þetta, skýrir ýmislegt fyrir mér varðandi manneskju sem ég er að reyna að skilja.

    Posted by: Kristín | 12.06.2008 | 21:50:26

Lokað er á athugasemdir.