Karlmennskan

Í dag byrjaði ég í megrun. Fjórum sinnum.

Fyrst þegar ég vaknaði.

Næst þegar við Sigrún gengum út af veitingastað þar sem ég hafði troðið í mig hádegisverði sem hefði nægt til að brauðfæða heilt þorp í Afríku.

Þriðji áfangi megrunarinnar hófst þegar ég var búin að skófla í mig tertusneið, til samlætis grátandi stúlku sem var í alvöru að hugsa um að dömpa kærastanum sínum, bara til öryggis af því að það gæti komið að því að honum detti í hug að dömpa henni. Ekki að hún hafi neina ástæðu til að halda að hann sé að hugsa um það, það er bara svo ógnvekjandi tilhugsun að þurfa kannski að takast á við sorg. Stundum held ég að kvenfólk sé alveg jafn ruglað og karlmenn.

Ég endurnýjaði svo megrunaráform mín enn einu sinni, að aflokinni dýrindis máltíð í boði Önnu. Ég fékk frosk (það er mun betra að borða þá en að kyssa) og þar sem gestgjafinn var lystalaus af ástarbríma gagnvart einhverjum dreifbýlisskriðdreka, át ég fyrir okkur báðar og Jóhönnu sem var ekki heima.

Ég sagði Önnu að ég væri að hugleiða möguleikann á því að elska Garðyrkjumanninn og Önnu fannst hugmyndin góð. Það kom mér á óvart því einhverntíma lýsti hún því yfir að henni þætti lítil karlmennska fólgin í því að hekla dúka og snúast í kringum pottaplöntur. Ég minnti hana á það og hún sagðist líta það öðrum augum ef blómin væru staðsett í kílómetra löngu gróðurhúsi og sérstaklega ætluð til þess að ná peningum úr veskjum sumarhúsaeigenda.

Við misstum okkur í greiningardeildina upp úr þessari umræðu. Skilgreindum karlmennskuhugtakið út frá ýmsum sjónarhornum, sundurgreindum, aðgreindum og enduðum á því að sálgreina nokkur eintök af tegundinni. Doddi var að sjálfsögðu spurður álits og honum þótti ívið karlmannlegra að aka gröfu og munda höggborvél en að vinna í banka og vökva hortensíur.

Við urðum að mestu leyti sammála um það hvað karlmennska er. Karlmennska er t.d:
-Frumkvæði og drifkraftur.
-Hugrekki.
-Ákveðni.
-Ábyrgð.
-Öryggi.
-Sjálfsstjórn.

Alvöru karlmaður tekur af skarið, segir hvað honum finnst, kemur hlutunum í verk og lætur ekki vaða ofan í sig. Hann tekst á við það sem hann óttast og nær stjórn í kaótískum aðstæðum. Hann lagar bilaða hluti og kann að grilla.

Okkur tókst hinsvegar ekki að verða sammála um hvað eigi að teljast and-karlmannlegt. Mér finnst karlmaður t.d. ekkert minna karlmenni þótt hann sé balletdansari eða tali við blómin sín. Þegar allt kemur til alls er það háð tíma og menningu hvaða athafnir þykja hæfa hvoru kyni og þótt karlmaður þori alveg að ganga óvopnaður á móti skriðdreka er ekki þar með sagt að hann hafi kjark til að viðurkenna mistök sín. Annað vandamál við skilgreiningu okkar á karlmennsku er að mér finnst ekkert ókvenlegt við ákveðnar og öruggar konur og finnst ekkert síður að þær eigi að hafa þokkalega sjálfstjórn en karlarnir.

Kjarni karlmennskunnar hlýtur því að vera eitthvað sem konur skortir algerlega. Að dindlinum og fylgiboltum frátöldum veit ég ekki hvað það ætti að vera en ég veit hvað virkar fyrir mig. Í mínum huga er karlmennskan í hnotskurn, hæfileikinn til að vekja í mér sérstaka tegund auðmýktar. Það hefur engin kona gert og reyndar sorglega fáir karlmenn en þegar það undur hefur á annað borð gerst, þá hefur það hvorki oltið á typpastærð né jeppastærð og þótt höggborvél hjálpi til er hún síður en svo neinn úrslitavaldur.

Á morgun ætla ég að athuga þetta með Garðyrkjumanninn. Á milli þess sem ég byrja í megrun.

Best er að deila með því að afrita slóðina