Brú

Auðvitað hlaut að koma að því að við hittumst á götu. Nánar tiltekið rétt fyrir utan Nornabúðina -sem er reyndar rökrétt.
-Nú er ég „hið óumflýjanlega“, hugsaði ég kampakát, kastaði á hann kveðju, bauð honum ekki inn með orðum en skildi dyrnar eftir opnar, bara svona til að kanna viðbrögðin. Hann fylgdi mér inn.

Hann virtist í aðra röndina hálfsmeykur (sem vonlegt er því mannskepnan er að jafnaði fremur huglaus) svo ég kyssti hann. Ekki ástúðlega eða af ástríðu, heldur snöggt og laust, eins og af tilviljun, rétt til að gefa til kynna að ég erfði það ekki við hann þótt mér hefði af tilviljun verið skipt út fyrir annan leikfélaga. Já annan. Af tilviljun. Ég hugsaði ekki hentugri, þægilegri, elskulegri eða eigulegri, þótt það hefði kannski verið rökrétt því einhverja varnarhætti verður maður víst að hafa í heiðri. Annan leikfélaga – ekki betri.

-Hringdi ég í þig? sagði hann, ekki í spurnartón eins og hann væri ekki viss og ekki skömmustulega, heldur eins og skortur hans á háttvísi væri kjörið umræðuefni.
-Manstu ekki eftir því? sagði ég í tón sem átti að gefa til kynna að mér væri nokk sama hvort hann myndi það eður ei.
-Ég var mjög drukkinn, svaraði hann og þar með var það mál útrætt, enda ekkert meira um það að segja.

Eftir tveggja mínútna smáborgarahjal setti hann á sig fararsnið. Ég lét sem ég sæi það ekki en spurði hvernig honum liði í hjartanu.
-Hjarta mitt er kalt og hart og ég almennt fremur grimmur þessa dagana svaraði hann.
Heimurinn gerir mann grimman, hugsaði ég en ég sagði það auðvitað ekki. Það hefði hljómað eins og ég væri allt að því eins bitur og ég er í raun og mér er sagt að ekkert fari konu verr en biturð, nema ef skyldi vera það að vera bæði bitur og þurfandi. Ég var ómáluð og vart á vesæling minn bætandi svo ég kinkaði bara kolli, skilningsrík.

-Og þú? sagði hann. Hvernig líður þér sjálfri í hjartanu?
Ég velti því andartak fyrir mér hvort hann væri bara að halda uppi kurteisisspjalli eða hvort hann hefði jafnvel velt því fyrir sér hvernig mér liði. Komst ekki að niðurstöðu en ákvað að svara af heilindum.
-Ég er nokkurnveginn keik. Ég hef verið dálítið vansæl eftir að Elías beilaði. Þrisvar í röð, það eru skýr skilaboð. Því fylgja ákveðin óþægindi að vera meðvitaður um að hlutirnir eru yfrileitt nákvæmlega eins og þeir líta út fyrir að vera.
-Mmm. Það var sýnilega eitthvað að hrjá þig. Þú segir ekki alltaf hreint út hvað þú ert að hugsa en ég þóttist allavega sjá að það væri ekki tengt mér.

Ég brosti góðlátlega.
-Neinei. Það var nú ekki svo langt gengið að ég tæki þig inn á mig. Þú getur verið rólegur þessvegna.

Hann kinkaði kolli og kvaddi. Leit samt við í dyrunum.
-En dylgjubloggið?
-Tókstu það til þín, sagði ég og kímdi.
-Ja, hvað á maður að halda? Það er ekki alltaf auðvelt að vita hvar maður hefur þig.
-Let´s keep it that way, sagði ég. Og hló kvikindislega.

Best er að deila með því að afrita slóðina