Út í víða veröld

Sonur minn Byltingin er farinn út í víða veröld með nesti og nýja skó (í bókstaflegri merkingu) að leita sér frægðar og frama. Eða allavega reynslu og ævintýra. Sumir myndu segja að hann sé meðvitað að reyna að koma sér í vandræði.

Þetta er EKKI eins og að senda barnið sitt í sumarfrí til ættingja í útlöndum. Í raun er hann ekki með neina áætlun aðra en þá að byrja á því að hitta fjölskyldu Rósarinnar. Hugmyndin er að þau þvælist um og taki þátt í mótmælum vítt og breitt um Evrópu og hann ætlar að reyna að komast til Bandaríkjanna en ekkert er á hreinu um hvenær hann verður hvar. Hvað Palestínu varðar þá tókst okkur ekki, þrátt fyrir samstillt átak allrar stórfjölskyldunnar að knýja fram loforð um að hann fari ekki þangað en hann er orðinn nokkuð viss um að honum yrði hvort sem er hent úr landi strax á fyrsta degi svo ég hef góða von um að því glapræði hafi verið afstýrt og hann fari frekar til Indlands. Næsta hálfa árið get ég semsagt reiknað með að barnið mitt sé einhversstaðar í þremur heimsálfum. Ég get hinsvegar ekki gert ráð fyrir að það verði kveikt á farsímanum hans. Reyndar er mun líklegra að síminn verði týndur, ásamt debetkorti, vegabréfi, borgarkorti og miðanum með öllum símanúmerum og netföngum sem skipta máli og ekki man hann þau. Hann týndi vegabréfinu sínu einmitt í gærkvöld. Við vorum búin að snúa öllu við og tæta út úr fataskápum þegar Darri fann það, reyndar í hillunni þar sem það átti að vera, bara undir einhverju drasli.

Mér er eilítið rórra við að vita af kappanum með konu sem er alvön ferðalögum en ég get ekki sagt að mér líði vel.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Út í víða veröld

  1. ———————————–

    Og ég var að hafa áhyggjur af því að kærasti dótturinnar er að fá bílpróf! Allamalla!

    Posted by: lindablinda | 10.01.2007 | 11:26:59

    ———————————–

    Segi eins og Linda, er með hnút í maganum af því að minn er alltaf á rúntinum með vinum sem eru rétt búnir að taka próf. En allt er þetta víst hluti af að mannast… og slíta naflastrenginn. Hann er verulega sjálfstæður persónuleiki hann sonur þinn… veit hvað hann vill og hræðist ekki að fylgja hjartanu. Þú mátt vera stolt af því! Skil samt mæta vel að þér sé ekki rótt.

    Posted by: Sigga | 10.01.2007 | 13:16:44

    ———————————–

    Ég myndi vera mjög montin af svona syni en ég skil nú betur þegar sagt er við mig þar sem ég kvarta yfir mínum þriggja ára: lítil börn: lítil vandamál, stór börn: stór vandamál.

    Posted by: Kristín Jónsdóttir | 10.01.2007 | 15:36:58

    ———————————–

    Ég lít nú reyndar ekki á minn pilt sem vandamál. Maður þarf alltaf að takast á við einhverjar áhyggjur þegar börnin verða fullorðin og hafa aðrar hugmyndir um það hvað þau ráða við(og eft réttari) en foreldrarnir.

    Posted by: Eva | 10.01.2007 | 19:09:18

    ———————————–

    Og þetta er enn eflaust litli strákurinn þinn,, sem er að flækjast um í hinum stóra ljóta vasarænandi heimi…. Saumar bara vasana hjá honum. 🙂

    Posted by: Gillimann | 11.01.2007 | 2:24:00

    ———————————–

    Reyndar efast ég um að nokkur vasaþjófur fyndi neitt áhugavert, hvað þá nothæft í vösunum hans. Samkvæmt minni reynslu er þeir venjulega fullir af anarkistabæklingum og auglýsingum frá stórfyrirtækjum sem hann hefur rifið niður (þ.e. auglýsingarnar). Sá sem ætlar að finna greiðslukort eða lestarmiða innan um það karðak án þess að jafn vænissjúkur maður verði þess var má vera ólíkinda snjall.

    Posted by: Eva | 11.01.2007 | 13:46:06

    ———————————–

    Við bara vonum það besta. Okkur pabba þínum líst mjög vel á aðalskonuna og vonandi heldur hún vel utanum hann og passar að ekkert týnist.
    Kær kveðja,

    Posted by: Ragna | 13.01.2007 | 23:53:15

Lokað er á athugasemdir.