Hið ljúfa líf

Búin að fylla kalkúninn, bleyta tertuna, taka rækjurnar úr frysti, koma víninu í kæli, skúra yfir íbúðina og strauja kjólinn. Er endurnærð en fór samt seint á fætur. Það er helvíti fínt að liggja í bælinu að ástæðulaustu svona 3 morgna á ári Einnig búin að skrifa dreifingarstjórum Blaðsins og Fréttablaðsins þar sem ég geri þeim grein fyrir áramótaheiti mínu um að uppræta flæði ruslpósts inn á heimili mitt (skrifleg afþökkun á póstkassanum er iðulega að engu höfð) þótt það kosti það að ég þurfi að hella heilu vörubílshlassi af rusli á tröppurnar hjá þeim.

Ég sárvorkenni fólkinu sem setti jólatréð upp 10. desember og er komið algjört ógeð á því núna. Það er góð ástæða fyrir því að ég byrja seint að jóla. Jólin standa nefnilega til 6. janúar og ég hef gert það að venju að njóta hvers einasta jóladags. Það eru varla fleiri en 50 nálar hrundar af trénu mínu enn og mér líður svooo vel hérna heima. Ætla að leggjast í dekurbað með andlitmaska og leggjast svo í bóklestur með kertaljósum púrtvíni og nougatkonfekti alveg þar til ég þarf að fara að hræra í sósunni.

Hversu fullkominn getur einn gamlársdagur orðið?

Best er að deila með því að afrita slóðina